Neysluskattar komnir á síðasta söludag

Fjölmargar breytingar á skattkerfinu hafa átt sér stað á undanförnum árum og frekari tekjuöflun er áætluð í fjárlögum næsta árs. Á meðan deilt hefur verið um hagkvæmni þeirra standa óskilvirkustu hlutar kerfisins nær óhreyfðir. Tollar og vörugjöld eru margfalt hærri en í nágrannalöndunum, virðisaukaskattur hérlendis mismunar atvinnugreinum og neysluskattar í heild eru óskilvirkir á alþjóðlegan mælikvarða.

Einn stærsti dragbítur hagvaxtar hérlendis er skortur á opnanleika hagkerfisins, sem dregur úr alþjóðaviðskiptum og hindrar aukna samkeppni á innlendum mörkuðum, eins og bent var á í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey. Háir tollar, vörugjöld og almennt þrep virðisaukaskatts vega þungt í því samhengi. Ennfremur er beinn kostnaður neytenda í formi velferðartaps verulegur við núverandi fyrirkomulag.

Endurskoða þarf neysluskatta hérlendis til að opna hagkerfið og draga úr velferðartapi ríkjandi fyrirkomulags. Leggja þarf niður tolla og vörugjöld, breikka skattstofn virðisaukaskatts með afnámi undanþága og sameiningu skattþrepa og lækka samhliða því almenna hlutfallið. Slíkar umbætur myndu auka alþjóðaviðskipti, bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja og vænka kjör neytenda án skerðingar á skatttekjum hins opinbera. 

Í skoðuninni kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Hægt er að afnema tolla og vörugjöld, afnema undanþágur frá virðisaukaskatti og lækka almenna hlutfallið í 20,0% án tekjuskerðingar fyrir ríkissjóð.
  • Tollar hérlendis eru um þrefalt hærri en í nágrannaríkjum, mismuna í tvöfalt meiri mæli og framkvæmd þeirra er óskilvirkari.
  • Háar álögur tolla og vörugjalda hérlendis orsaka umtalsvert velferðartap, sem gerir hreina skattheimtu þeirra neikvæða í sumum vöruflokkum.
  • Í tilfelli heimilis- og raftækja nema skatttekjur tolla og vörugjalda 5 ma. kr. en velferðartap af völdum álagningarinnar nemur 11 ma. kr. Gjöldin eyðileggja því meiri verðmæti en þau afla.
  • Ísland er 15% undir meðaltali OECD ríkjanna þegar kemur að skilvirkni virðisaukaskatts.
  • Um þriðjungur einkaneyslu hérlendis er annaðhvort í lægra skattþrepi eða undanþeginn virðisaukaskatti með öllu, sem dregur úr skilvirkni skattsins.

Skoðunina má nálgast hér

Tengt efni:

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Ný greining frá Viðskiptaráði á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi ...
5. júl 2023