Háskólamenntun má ekki vera afgangsstærð

2013.5.28 - SME skodun1

Flestir eru sammála um að stefna í menntamálum vegi þungt í vegferð þjóða að bættum lífskjörum. Breitt aðgengi að menntun eflir samkeppnishæfni og verðmætasköpun auk þess að stuðla að fjölþættum samfélagslegum framförum. Um þessi sjónarmið hefur ríkt almenn sátt á Íslandi og fjárfesting í menntun verið með hæsta móti í alþjóðlegum samanburði.

Í kjölfar breyttra aðstæðna í fjármálum hins opinbera hafa stjórnvöld neyðst til að draga úr framlögum til málaflokksins. Þar sem tæplega fimmtungi af opinberum útgjöldum er varið í menntamál voru þær aðgerðir fyrirsjáanlegar og óumflýjanlegar. Hagræðingin hefur þó skipts með ólíkum hætti á milli skólastiga, þar sem verulegur samdráttur í fjárframlögum hefur átt sér stað á framhalds- og háskólastigi en tiltölulega lítill á grunnskólastigi.

Þetta endurspeglast vel í þeirri staðreynd að á síðasta ári var Ísland eina landið innan OECD þar sem fjárframlög á hvern nemenda í grunnskólanámi voru hærri en á hvern nemenda í háskólanámi. Ennfremur hefur raunframlag á hvern nemenda í háskóla dregist saman um 31% síðustu 15 ár á sama tíma og framlag á hvern grunnskólanema hefur aukist um 29%. Með hliðsjón af mikilvægi háskólastarfs fyrir nýsköpun, rannsóknar- og þróunarstarf er hætt við að áframhaldandi þróun af sama toga dragi verulega úr vaxtartækifærum Íslands á komandi árum.

Þrátt fyrir að viðfangsefnið sé krefjandi virðist sem enn séu ýmis tækifæri til hagræðingar í menntamálum. Námsár í grunn- og framhaldsskólum eru t.a.m. fleiri en í flestum samanburðarlöndum. Kostnaður á hvern nemenda meðal smærri grunnskóla landsins er einnig afar ólíkur, sem bendir til möguleika til aukins rekstraraðhalds á meðal þeirra sem standa sig verr. Þá fer mun stærra hlutfall af kostnaði við grunnskólakerfið í stoðþjónustu en hjá nágrannaríkjum okkar. Þessar staðreyndir, ásamt fleiri þáttum sem bent hefur verið á í umræðu um menntamál á undanförnum misserum, gefa til kynna að skynsamlegra væri að horfa til annarra skólastiga en háskólans þegar kemur að frekari hagræðingu.

Hagræðingaraðgerðir á grunnskólastigi eru vitaskuld viðkvæmt viðfangsefni og umræðan hefur því að miklu leyti setið föst. Til að snúa við þeirri þróun að háskólanám sé afgangsstærð í menntamálum þarf að opna umræðuna og leita uppbyggilegra langtímalausna. Staðreyndirnar liggja á borðinu og margt bendir til að hægt sé að bæta menntakerfið án þess að skerða kjör kennara eða draga úr gæðum námsins. Þetta tækifæri ber að nýta, sér í lagi ef það kemur í veg fyrir frekari niðurskurð í háskólamenntun.

Skoðunina í heild sinni má nálgast hér

Í skoðuninni kemur m.a. fram að:

  • Ísland er eina OECD landið sem ver minni framlögum til hvers háskólanema en grunnskólanema, en það er fyrst og fremst drifið af lágum framlögum til háskólamenntunar.
  • Undanfarin 15 ár hafa framlög á hvern háskólanema dregist saman um 31% á sama tíma og framlög til hvers grunnskólanema hafa aukist um 29%.*
  • Til að tryggja verðmætasköpun og samkeppnishæft vinnuafl til lengri tíma er nauðsynlegt að efla háskólastarf og nýsköpun.
  • Umtalsvert tækifæri fælist í styttingu námstíma að háskólastigi.
  • Vegna strjállar byggðar verður illa komist hjá því óhagræði sem fylgir smærri skólum. Samanburður á milli skóla af sömu stærð gefur þó til kynna að víða megi bæta rekstrarframmistöðu verulega.
  • Kostnaður á hvern grunnskólanema er ríflega 30% hærri hér en meðaltal OECD, en 60% af því fráviki skýrist af mun hærri kostnaði við stoðþjónustu.
  • Umbætur í grunnskólakerfinu gæfu svigrúm til kjarabóta og bættra starfsskilyrða kennara samhliða betri nýtingu fjármuna.
  • Stjórnvöld, sveitarfélög og aðrir hagsmunaaðilar þurfa að taka höndum saman um heildstæða endurskoðun á menntakerfinu.

*Mælt sem fjárframlag á hvern nemanda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á mann

 


Skoðunina í heild sinni má nálgast hér

Tengt efni:

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila ...
29. jan 2024