Stórir fiskar í lítilli tjörn - lífeyrissjóðirnir, gjaldeyrishöftin og góðir stjórnarhættir

Sú staðreynd að gjaldeyrishöftin hafa takmörkuð áþreifanleg áhrif á daglegt líf landsmanna dregur talsvert úr almennri vitund á þeim viðamiklu neikvæðu áhrifum sem þau hafa á gangverk hagkerfisins. Meðal veigamestu áskorana í þessu samhengi eru áhrif haftanna á starfsumhverfi og verkefni lífeyrissjóðanna.

Eins og þekkt er koma höftin í veg fyrir að innlendir aðilar stundi nýfjárfestingar erlendis. Í tilviki lífeyrissjóða er þetta sérlega bagalegt. Það helgast af umtalsverðri fjárfestingarþörf þeirra ár hvert sem brýnt er að finna farveg í ólíkum eignaflokkum til að tryggja undirliggjandi áhættudreifingu og stuðla þannig að sem bestri og öruggastri ávöxtun lífeyris landsmanna. Slík dreifing næst ekki nema að takmörkuðu leyti innan ramma haftanna.

Sú staða sem uppi er vekur því margvíslegar spurningar er varða starfsemi og afkomu lífeyrissjóðanna, s.s. um áhrif afléttingar haftanna á hlutabréfamarkaðinn og þar með sjóðina, hvernig sjóðirnir meðhöndla síaukin áhrif sín sem eigendur fyrirtækja á Íslandi og hvað fyrirtækin sjálf geta gert til að draga úr áhættu sjóðanna sem hluthafa.

Þessir veigamiklu þættir mega ekki falla milli skips og bryggju í þeim doða sem einkennir haftaumræðuna. Leita þarf allra leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum haftanna á fjárfestingar sjóðanna og hlutabréfamarkaðinn í heild. Samhliða þurfa sjóðirnir að móta sér skýrar eigendastefnur sem byggja á góðum stjórnarháttum, einkum varðandi skipanir í stjórnir og samskipti við aðra hluthafa. Atvinnulífið í heild þarf jafnframt að auka gagnsæi um starfsemi sína til að auðvelda sjóðunum og öðrum hluthöfum að meta áhættu af sínum fjárfestingum. Þannig má draga úr þeim skaða sem heftir fjármagnsflutningar skapa þar til afnám hafta kemst til framkvæmda og um leið bæta til lengri tíma umgjörð atvinnulífsins.

Í skoðuninni kemur m.a. fram að:

  • Gjaldeyrishöftin skapa veigamiklar áskoranir fyrir starfsumhverfi og verkefni lífeyrissjóða.
  • Vegna haftanna hafa fjárfestingar sjóðanna einkennst af stigvaxandi einsleitni, sem endurspeglast m.a. í auknu umfangi sjóðanna sem eigendur fyrirtækja.
  • Þessi þróun kallar á ákveðin álitamál, s.s. möguleg áhrif á samkeppni og hvernig sjóðirnir meðhönlda þessi auknu áhrif.
  • Um leið og mikilvægt er að lífeyrissjóðir séu virkir fjárfestar þá skiptir máli að þeir tileinki sér skýrar stefnur í þessum efnum, líkt og gert er víða erlendis.
  • Hér, eins og á öðrum sviðum, getur atvinnulífið létt undir að eigin frumkvæði, bæði til hagsbóta fyrir sig og eigendur sína, t.a.m. með auknu gagnsæi um starfsemi fyrirtækja og með því að fylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti.
  • Unnt er að grípa til margvíslegra aðgerða á þessu sviði og hefur skoðunin að geyma 12 hugmyndir Viðskiptaráðs í þeim efnum.

Mikilvægi lífeyrissjóðakerfisins fyrir íslenskt samfélag er engum vafa undirorpið en stærð sjóðanna er þó slík að áhrif og afkoma þeirra varðar allt samfélagið með einum eða öðrum hætti.

2013.11.18 Mynd skoðun

Skoðunina í heild sinni má nálgast hér

Tengt efni:

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Ný greining frá Viðskiptaráði á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi ...
5. júl 2023