Peningaþvætti snertir Íslendinga í auknum mæli

Umfang peningaþvættis í heiminum er gríðarlegt og hefur það slæm áhrif á fyrirtæki og samfélagið í heild. Peningaþvætti raskar samkeppni á hinum frjálsa markaði og spillir góðum stjórnarháttum. Vandamál peningaþvættis snerta Íslendinga í auknum mæli og fjölgaði tilkynningum til ríkislögreglustjóra um tæp 30% árið 2003 frá árinu á undan. VÍ skoðar hvernig fyrirtæki og þjóðfélagið allt geti barist gegn peningaþvætti.

 Í hnattvæddum heimi sem einkennist af miklum tækniframförum, aukinni menntun og hraða í viðskiptum eru lífsgæði manna að aukast. Einn þáttur lífsgæða er að einstaklingar búi við öryggi. Margvísleg alþjóðleg fjárplógsstarfsemi og peningaþvætti, sem hefur aukist með hnattvæðingu, dregur úr öryggi bæði einstaklinga og fyrirtækja og leiðir til aukins kostnaðar fyrir þjóðfélagið. Afleiðingar peningaþvættis eru mjög miklar og hagkerfi hljóta skaða af illa fengnu fé. Talað er um að illa fengið fé verði aldrei að lögmætu fé „once dirty, always dirty.”

Alþjóðleg glæpastarfsemi eins og eiturlyfjasala, vopnasala, hvít þrælasala og hryðjuverk eru vandamál sem koma öllum við. Hvatinn að glæpastarfsemi er oft sá að hagnast og til að getað notað ávinning til fjárfestinga í lögmætum viðskiptum þarf að koma hagnaði inn í hagkerfi án þess að upp komist um uppruna peninganna. Þeir sem þvætta peninga iðrast einskis við að koma illa fengnu fé í umferð í áreiðanlegum fjárhagskerfum. Þó reyna peningaþvættarar að finna ríki og fjárhagskerfi þar sem varnir gegn peningaþvætti eru litlar og hættan á að verða gripnir því minni.

Hinn frjálsi markaður bíður hnekki

Raymond Baker hjá Harvard háskóla heldur því fram að peningaþvætti sé stærsta gloppan í frjálsu markaðskerfi og sé á meðal erfiðustu vandamála sem heimsbyggðin glímir við. Peningaþvætti grefur undan frjálsum alþjóðlegum mörkuðum þar sem markaðsöflin fá ekki að njóta sín; samkeppni á hinum frjálsa markaði raskast. Peningaþvætti spillir góðum stjórnarháttum þar sem mútur og siðspilling eru óhjákvæmilegir fylgifiskar glæpastarfsemi. Þar sem oft er um miklar fjárhæðir að ræða í peningaþvætti þá er freistingin mikil. Áætlað er að andvirði 300-500 milljarðar dala séu þvættaðir á ári hverju. Þetta samsvarar 21.000 - 35.000 milljörðum íslenskra króna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að árleg velta peningaþvættis sé í kringum 2 – 5% af vergri þjóðarframleiðslu. Yfirvöld ná með aðgerðum sínum að endurheimta að andvirði 500 milljónir dala sem samsvara 35 milljörðum íslenskum krónum. Þannig að upp kemst um u.þ.b. 0.20% af peningaþvætti í heiminum og því þarf verulega að herða baráttuna gegn peningaþvætti.

Aðgerðir gegn peningaþvætti

Eftir að lögin um aðgerðir gegn peningaþvætti nr. 80/1993 tóku gildi þann 1. júlí 1993 ber aðilum, sem falla undir lögin, að athuga gaumgæfilega öll viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis. Athuga skal öll viðskipti sem eru óvenjuleg, mikil eða flókin, með hliðsjón af venjubundinni starfsemi. Ennfremur skal athuga öll viðskipti sem virðast ekki hafa efnahagslegan eða lögmætan tilgang. Ber þá að athuga bakgrunn og tilgang slíkra viðskipta eins og hægt er. Jafnframt eru aðilarnir skyldugir til að tilkynna ríkislögreglustjóra um viðskipti sem talin eru tengjast peningaþvætti. Gera á skriflega skýrslu um niðurstöðurnar og skal hún vera aðgengileg bankaeftirliti, endurskoðendum viðkomandi stofnunar, ríkissaksóknara og lögreglu. Að sama skapi getur lögregla beðið um allar upplýsingar frá viðskiptaaðila, sem taldar eru nauðsynlegar vegna peningaþvættis. Mikilvægt er að fyrirtæki tryggi sitt eigið innra eftirlit. Veita þarf starfsfólki sérstaka þjálfun og eiga þeir aðilar er undir lögin falla að tilnefna sérstakan ábyrgðarmann sem ber ábyrgð á því að farið sé eftir ákvæðum laga og reglugerða um peningaþvætti.

Tilkynningum til ríkislögreglustjóra vegna gruns um peningaþvætti hefur fjölgað gríðarlega milli ára. Árið 1997 voru tilkynningarnar 11 en árið 2003 bárust 242 tilkynningar til ríkislögreglustjóra.

Bankaleynd víkur fyrir tilkynningarskyldu

Nú þarf ekki dómsúrskurð þegar um rannsókn á peningaþvættismálum er að ræða. Þetta þýðir að bankaleynd, sem ávallt hefur verið einn af hornsteinum bankastarfsemi, víkur gagnvart viðskiptavinum. Fjármálastofnunum er því skylt að láta öll gögn af hendi. Lögin leggja þær skyldur á stjórnendur, starfsmenn og aðra sem vinna í þágu lögaðila, að sjá til þess að viðskiptamaður eða annar utanaðkomandi fái ekki vitneskju um að upplýsingar hafi verið sendar til ríkislögreglustjóra. Það er því alveg ljóst að starfsmenn banka verða að taka tilkynningarskyldu um peningaþvætti fram yfir trúnaðarskyldu við viðskiptavini.

Það hlýtur ávallt að verða mat banka, fyrirtækja og einstaklinga hversu mikið þeir rannsaka viðskipti hjá viðskiptamönnum sínum, að eigin frumkvæði, eins og lögin segja til um. Atvinnulífið vegur og metur hag sinn af því að eiga viðskipti við viðkomandi einstaklinga og lögaðila. Það er hagur fyrirtækjanna að fara að lögunum og tryggja að illa fengið fé komi ekki inn í starfsemi þeirra. Traust viðskiptavina skiptir fyrirtæki höfuðmáli til að efla viðskipti sín og ímynd þeirra bíður hnekki verði þau bendluð við peningaþvætti. Jafnvel stærstu fyrirtækin geta tapað trúverðugleika sínum.

Að berjast gegn peningaþvætti er ekki aðeins skylda þeirra sem falla undir lögin um aðgerðir gegn peningaþvætti, heldur er það siðferðileg skylda allra sem verða varir við eitthvað grunsamlegt. Oft eru einstaklingar óafvitandi þátttakendur í peningaþvætti. Lögin gegn peningaþvætti gera ekki aðeins refsiverða þá háttsemi að njóta ávinnings af broti sem annar hefur framið, heldur einnig þá háttsemi að aðstoða mann við að koma undan ávinningi, án tillits til þess hvort maður nýtur sjálfur hagnaðar af slíkri aðstoð eða ekki. Allir starfsmenn fyrirtækja verða því að gæta sín á að verða ekki óafvitandi þátttakendur í peningaþvætti. Með varfærni starfsmanna eru hagsmunir fyrirtækjanna og viðskiptalífsins í heild best tryggðir.

Sigþrúður Ármann

Verslunarráð Íslands s: 510-7100

Lesa má skoðunina í heild sinni hér

Tengt efni

Auknar ráðstöfunartekjur í heimsfaraldri

Útlit er fyrir að tekjujöfnuður hafi staðið í stað á síðasta ári en dregið hafi ...
5. júl 2021

Flugeldasýningar endast stutt

Stundum er sagt að kjósendur fái þá stjórn sem þeir eiga skilið. Á móti má segja ...
24. sep 2021

17.000 störf til að útrýma atvinnuleysi

Jafnvel þótt horfur séu góðar í baráttunni við kórónuveiruna er enn nokkuð í ...
23. feb 2021