Ábyrgð fyrirtækja á skattskuldum starfsmanna

Ábyrgð fyrirtækja á skattskuldum og ýmsum opinberum gjöldum starfsmanna sinna nær langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist. Auk þess að geta  leitt af sér bein fjárútlát hefur þessi ábyrgð einnig í för með sér mikla og tímafreka vinnu fyrir launagreiðanda – að ógleymdum óþægilega miklum afskiptum af einkamálefnum starfsmanna sinna.

Menn þekkja vel þá skyldu sem hvílir á launagreiðendum að halda eftir af kaupi launþega til lúkningar þeim tekjuskatti sem launþegum ber að greiða samkvæmt lögum. Þetta blasir við öllum launþegum hver mánaðarmót á launaseðli sem sýnir frádrátt vegna staðgreiðslu tekjuskatts. Þetta fyrirkomulag, sem komið var á með staðgreiðslukerfinu 1988, hefur ýmsa ótvíræða kosti í för með sér. Það hefur án efa leitt til skilvirkari og einfaldari innheimtu, fyrir  ríki og sveitarfélög en um leið jókst hlutverk launagreiðenda í skattheimtunni. Heppilegt getur þó verið, jafnvel fyrir atvinnurekanda sem hefur með þessu þurft að leggja meiri vinnu við launagreiðslur, að hafa þennan háttinn á því margt mælir með því í starfi fyrirtækis að starfsmenn þess standi við lögbundnar skyldur sínar. Þá má segja að tiltölulega einfalt sé fyrir launagreiðanda að draga hinn reglubundna tekjuskatt af launum starfsmanns við hverja launagreiðslu. Í samræmi við þá hugmynd eru ákvæði tekjuskattslaga um ábyrgð launagreiðanda á greiðslu þessa tekjuskatts.

Skyldur vegna eldri skulda

Málið horfir hins vegar nokkuð öðru vísi við þegar kemur að annars konar opinberum gjöldum svo og eldri tekjuskatti. Lög um tekju- og eignaskatt, 115. gr., og lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, 22. gr., fjalla um ábyrgð launagreiðanda á öllum opinberum gjöldum sem launagreiðandi hefur haldið eftir eða bar að halda eftir. Þar er ekki einungis um að ræða hinn reglubundna tekjuskatt sem launþegi þarf að greiða af launum sem hann þiggur í það og það skiptið frá vinnuveitanda sínum. Einnig er hér vísað til þess tekjuskatts sem launþegi skuldar eftir launagreiðslur frá fyrri tíma. Vangreiddur tekjuskattur og tryggingargjald verktaka sem síðar fer að starfa sem launþegi hjá fyrirtæki fellur þannig hér undir og ber hinn nýi vinnuveitandi nú ábyrgð á þessum skattskuldum. Annars konar opinber gjöld falla einnig undir þessa ábyrgð launagreiðanda. Ógreitt meðlag, eignaskattur og sérstakur tekjuskattur starfsmanns eru dæmi um skuldir launþega sem launagreiðandi þarf að standa skil á. Að lokinni álagningu skattstjóra gerir ríkisskattstjóri innheimtuskrá yfir skuldir einstaklinga við hið opinbera. Atvinnurekendur fá svo frá skattstjórum upplýsingar úr skránni og er gert að halda eftir af launum skuldaranna næstu mánuði þar til skuldin við ríki eða sveitarfélag hefur verið jöfnuð. Þessar upplýsingar um skuldastöðu launþega fá atvinnurekendur reyndar nokkru áður en álagningaskrá er gerð opinber og þar af leiðandi áður en sjálfir launþegarnir fá staðfestingu þessara upplýsinga.

Aukin umsýsla launagreiðanda

Þetta fyrirkomulag er gagnrýnivert bæði með hliðsjón af umfangsmikilli bókhaldsvinnu launagreiðanda og í ljósi þess að um er að ræða fjárhagsmálefni manna sem telja má til einkamála þeirra, þ.e.a.s. fjárhagsskuldbindingar þeirra sem ekki varða núverandi launagreiðendur þeirra.

Eins og málum er háttað nú þurfa launagreiðendur að útbúa skilagreinar fyrir hverja þá skuld sem á launþegum þeirra kann að hvíla. Ef dæmi er tekið af manni sem vinnur á skrifstofu en vann áður sem verktaki og vantaldi þá tekjur sínar, ber skrifstofan ábyrgð á greiðslu skattskulda og launatengdra gjalda mannsins. Svo má hugsa sér að þessi maður sé forsjárlaust foreldri, og hafi vanrækt að greiða meðlag síðasta árið. Verkefni fjármálastjóra skrifstofunnar næstu mánuði, nú þegar álagning liggur fyrir, vegna þessa launþega eru því eftirfarandi: Reikna út laun mannsins og draga frá staðgreiðsluskatt hans og aðra fasta liði og útbúa viðeigandi skilagreinar en að auki þarf hann svo að draga frá til greiðslu eldri skuldar á tekjuskatti (sérstök skilagrein þar að lútandi), draga frá vegna greiðslu tryggingagjalds (sérstök skilagrein) og draga frá vegna meðlagsskulda (sérstök skilagrein).

Það liggur í augum uppi að fyrirtæki, jafnvel ekki nema meðalstór, þurfa að kosta miklu til við að uppfylla þessar skyldur sínar til að lenda ekki sjálf í fjárhagstjóni vegna skulda starfsmanna sinna. Bæði er um að ræða mikla og tímafreka vinnu en einnig þarf orðið sí umfangsmeiri bókhaldskerfi til að halda utan um fjármál hvers starfsmanns (að ógleymdum lífeyrissjóðsgreiðslum starfsmanna sem eru orðnar mun flóknari en áður). Um leið er gengið nokkuð freklega inn á einkalíf manna og fjármálastjórar fyrirtækja settir í þá einkennilegu og gjarnan óþægilegu stöðu að vera upplýstir um almenn fjármál og eignastöðu samstarfsfélaga sinna. 

Verslunarráð telur að huga þurfi að breyttu fyrirkomulagi á innheimtu launatengdra gjalda og annarra gjalda launþega sem launagreiðendur geta borið ábyrgð á.

Nánari upplýsingar veitir

Sigríður Á. Andersen lögfræðingur hjá VÍ.

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024