Að eiga kökuna og borða hana

Stjórnvöld standa nú í erfiðum samningaviðræðum við háskólamenntaða opinbera starfsmenn. Grunnstefið í kröfugerð þeirra er að launahækkanir þurfi að vera umfram það sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði.

Sé litið með heildstæðum hætti á launakjör kemur í ljós að opinberir starfsmenn njóta margvíslegra réttinda sem launþegum á almennum vinnumarkaði standa ekki til boða. Þetta er í andstöðu við vilja almennings sem telur að réttindi þessara tveggja hópa eigi að vera sambærileg.

Lesa skoðun

Samanburður réttinda leiddi eftirfarandi í ljós:

  • Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru um tvöfalt hagstæðari en annarra. Samkvæmt lögum eiga þeir rétt á 15,4% mótframlagi atvinnurekanda samanborið við 8% fyrir almenna launþega.
  • Starfsöryggi opinberra starfsmanna er meira en annarra. Í kjölfar falls fjármálakerfisins fækkaði stöðugildum um 7% á almennum vinnumarkaði samanborið við 1,3% hjá hinu opinbera.
  • Orlofsréttindi eru að jafnaði ríflegri fyrir opinbera starfsmenn þar sem miðað er við aldursár en ekki starfsaldur hjá vinnuveitanda við ákvörðun orlofsréttinda.
  • Veikindaréttur er mun ríflegri hjá hinu opinbera. Opinberir starfsmenn eiga rétt á 119 launuðum veikindadögum eftir sex mánuði í starfi samanborið við tólf daga á almennum vinnumarkaði.
  • Fæðingarorlof eru hagstæðari hjá hinu opinbera. Starfsmenn þess ávinna sér inn rétt til orlofslauna, öfugt við starfsfólk á almennum vinnumarkaði, og eiga almennt rétt á ríflegri fæðingarstyrkjum.
  • Réttur til endur- og símenntunar er almennt mun víðtækari hjá hinu opinbera en á almennum vinnumarkaði.
  • Yfirfærsla réttinda er meiri þar sem starfsaldur hjá hinu opinbera telst vera samanlagður starfstími hjá öllum vinnuveitendum. Á almennum vinnumarkaði er mun sjaldgæfara að áunnin réttindi fylgi starfsmönnum á milli vinnuveitenda.

Almenningur telur að opinberir og almennir starfsmenn eigi að njóta sambærilegra réttinda. Í nýlegri skoðanakönnun töldu 80% svarenda að starfsöryggi eigi að vera sambærilegt. Þá töldu 89% svarenda að lífeyrisréttindi eigi að vera sambærileg.

Nýta ætti þær kjaraviðræður sem nú standa yfir til að jafna leikvöllinn þegar kemur að réttindum launafólks á almennum og opinberum vinnumarkaði. Að öðrum kosti er ekki unnt að réttlæta launahækkanir umfram það sem samið hefur verið um fyrir aðra.

Lesa skoðun

Tengt efni

Allir tapa og enginn vinnur

Árlegur Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun í beinni útsendingu ...
18. nóv 2021

Laglegt regluverk óskast

Átak og áhersla á einfaldara og skilvirkara regluverk var á meðal loforða ...
2. nóv 2021

Kjósendur eru skarpari en stjórnmálamenn

Miðað við staðreyndapróf Viðskiptaráðs eru kjósendur skarpari en stjórnmálamenn, ...
23. sep 2021