Ákvörðun sem kostað hefur íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða

Að innleiða regluverk, sem sniðið er að milljóna manna þjóðum, með meira íþyngjandi hætti boðar ekki gott og veikir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

  • Við innleiðingu sjálfbærniregluverks ESB (NFRD) árið 2016 var tilskipunin innleidd með strangari skilyrðum en þörf var á.
  • Upphaflega átti regluverkið að ná til stórra fyrirtækja en viðmiðið var fært niður í 250 manns á Íslandi, án sérstaks rökstuðnings. Því féllu áttfalt fleiri íslensk fyrirtæki undir gildissvið regluverksins en í Evrópu.
  • Næsti fasi regluverksins (CSRD) er fram undan og hafa aðrar þjóðir beitt sér fyrir því að slakað sé á skilyrðunum til að létta á byrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
  • Íslensk stjórnvöld ættu að vinda ofan af séríslenskum skilyrðum og færa viðmiðin til samræmis við framkvæmd annarra Evrópuþjóða.

Strangari kröfur til íslenskra fyrirtækja en evrópskra

Við innleiðingu NFRD (e. Non-financial reporting directive) tilskipunar ESB árið 2016 á Íslandi var gildissviðið útvíkkað án sérstaks rökstuðnings eða kostnaðarmats. Útvíkkunin leiddi til þess að fjöldi fyrirtækja á Íslandi þarf að lúta strangari kröfum um upplýsingagjöf en fyrirtæki af sömu stærð í Evrópu.

NFRD tilskipunin kveður á um að félög af ákveðinni stærð birti upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins, tengt umhverfis-, félags- og starfsmannamálum. Þá er þeim einnig gert skylt að gera grein fyrir stefnu félagsins í mannréttindamálum og hvernig félagið spornar gegn spillingar- og mútumálum. [1] Markmið tilskipunarinnar var að auka gagnsæi, trúverðugleika og ábyrgð með því að skylda fyrirtæki til að birta upplýsingar og stefnur um áhrif þeirra á samfélag og umhverfi.

Gildissvið NFRD tilskipunar útvíkkað hér á landi

Upphaflega náði gildissvið NFRD einungis til fyrirtækja í starfsemi er varðar almannahagsmuni, sem uppfylla ákveðin fjárhagsleg viðmið og/eða  hafa 500 eða fleiri starfsmenn. Þegar kom að innleiðingu tilskipunarinnar hérlendis útvíkkuðu stjórnvöld gildissvið tilskipunarinnar þannig að hún náði til allra fyrirtækja sem höfðu 250 starfsmenn og uppfylla ákveðin fjárhagsleg viðmið. Þannig náði innleiðing tilskipunarinnar hérlendis til allra félaga, en ekki aðeins þeirra sem eru í starfsemi sem varðar almannahagsmuni, líkt og annars staðar í Evrópu, og um leið til allra félaga í starfsemi er varðar almannahagsmuni, óháð starfsmannafjölda og fjárhagslegum umsvifum. Við innleiðinguna var ekki fjallað um hvers vegna frumvarpið var innleitt með meira íþyngjandi hætti en gert var ráð fyrir við upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn.

Ákvörðunin kostar íslensk fyrirtæki um áttfalt meira

Umtalsverður kostnaður hefur hlotist af því að innleiða tilskipunina með þessum séríslensku viðmiðum. Vegna víðari skilgreiningar við innleiðinguna féllu tæplega átta sinnum fleiri íslensk fyrirtæki undir NFRD tilskipunina, en ef hún hefði verið innleidd með sama hætti og annars staðar í Evrópu. Því bera íslensk fyrirtæki árlega tæplega 2 milljarða króna aukinn kostnað við að framfylgja ákvæðum tilskipunarinnar. Íslenskt atvinnulíf hefur því aukalega borið um 9,8 milljarða króna kostnað af því að búa við meira íþyngjandi regluverk. [2]

Við höfum tilhneigingu til að ganga lengra við innleiðingu

Við innleiðingu á regluverki sem kemur inn í gegnum EES-samninginn hefur Alþingi tilhneigingu til að ganga lengra en krafist er. Af frumvörpum sem náðu fram að ganga á 143. – 145. löggjafarþingi, frá 2013-2016, og höfðu áhrif á atvinnulíf var gengið lengra en þörf var á í þriðjungi tilfella. [3] Sjö ár eru liðin frá því að úttektin var framkvæmd en nýleg dæmi benda til þess að þetta verklag sé enn við lýði. Ekki liggur fyrir nýrri úttekt en nefnd um opinberar eftirlitsreglur, sem lét vinna á síðustu, hefur ekki verið starfrækt frá árinu 2020, þvert á lög um opinberar eftirlitsreglur. [4]

Milljóna manna regluverk innleitt með meira íþyngjandi hætti

Þrátt fyrir að regluverkið komi í gegnum EES-samninginn, þá eru gallarnir heimatilbúnir. EES-samningurinn hefur þjónað landi og þjóð afar vel. Hann auðveldar t.a.m. íslenskum almenningi og fyrirtækjum í tæplega 400 þúsund manna hagkerfi að eiga viðskipti við og vera í tengslum við 450 milljóna manna hagkerfi. Samningurinn er einnig ein helsta forsenda þess að íslensk fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni geti starfað hér á landi.

Þó er engin rós án þyrna. Hagsmunir Íslands og Evrópska efnahagssvæðisins í heild geta t.d. stangast á, sem sýnir hversu brýnt það er að stunda öfluga hagsmunagæslu á vettvangi bæði EES og ESB. Við þurfum því að vera vel meðvituð um hvaða regluverk er í smíðum og gæta okkar að innleiða það með eins skilvirkum hætti og mögulegt er.

Íslensk fyrirtæki eiga að búa við sambærilegt regluverk og fyrirtækin sem þau keppa við. Regluverkið miðar að því að samræma leikreglur á milli landa og örva þannig viðskipta- og efnahagstengsl. Að innleiða regluverk, sem sniðið er að milljóna manna þjóðum, með meira íþyngjandi hætti en þörf er á boðar ekki gott. Slíkt veikir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og rýrir hag almennings.

Nágrannaþjóðir vilja rýmka skilyrði næstu innleiðingar

Fram undan er innleiðing á CSRD-tilskipun ESB. Hún tekur við af NFRD, sem þykir ekki hafa dugað nógu vel til að bæta sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja. CSRD felur í sér mun ítarlegra regluverk um birtingu sjálfbærniupplýsinga ásamt því að ná til mun fleiri fyrirtækja en áður. Þannig munu reglurnar ná til um 48.000 fyrirtækja innan ESB í stað 11.000. Tilskipuninni er ætlað að taka gildi í þremur fösum og verður sá fyrsti innleiddur á næsta ári innan ESB. Stærðarmörkin verða þau sömu og vegna NFRD á fyrsta ári, en ætlunin er að færa þau niður strax í öðrum fasa, sem hefst árið 2025.

Þjóðverjar hafa nú hvatt yfirvöld í Brussel til að falla frá þeirri útvíkkun sem CSRD tilskipunin felur í sér, þ.e. að lágmarksstarfsmannafjöldi verði færður úr 500 í 250. Forsenda þess er að aflétta skrifræðisbyrði af fyrirtækjum með starfsmenn á bilinu 250 til 500, en í Þýskalandi eru það á bilinu 7.500 til 8.000 fyrirtæki. Athygli vekur Græningjar eru hluti af samsteypustjórninni sem fer fram á þetta, sem Olaf Scholz fer fyrir í Þýskalandi. [5] Þá hvatti fjármála-, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti Danmerkur Evrópusambandið til að endurskoða NFRD regluverkið til að tryggja aukin gæði þeirra upplýsinga sem koma fram. [6]

Ljóst er að regluverkið verður sömuleiðis íþyngjandi fyrir íslensk fyrirtæki. Þótt í því felist mikilvæg markmið um gagnsæi upplýsinga og skref til sjálfbærari rekstrar er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að regluverkið dragi ekki úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og að það leggi ekki óþarfa umframkostnað á íslenskt atvinnulíf. Viðskiptaráð telur einnig brýnt að íslensk stjórnvöld dragi til baka þær séríslensku kvaðir sem lagðar voru á fyrirtæki við innleiðingu NFRD regluverksins og fylgi öðrum Evrópulöndum í innleiðingu CSRD tilskipunarinnar, en taki ekki upp meira íþyngjandi kvaðir en þörf er á. Jafnframt er nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld fylgi Evrópu ef skilyrði í CSRD tilskipuninni verða rýmkuð, líkt og þýsk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir.

[1] Til að gera grein fyrir þessu var félögum skylt að gefa út yfirlit þar sem tilgreint er hvert viðskiptalíkan félagsins er, stefnu félagsins í þessum málefnum lýst, ásamt lýsingu á því hvaða áreiðanleikakönnunarferli félagið framfylgir, yfirlit yfir árangur af stefnu félagsins í þessum málefnum. Þá var einnig skylt að lýsa megináhættu sem tengjast þessum málefnum í rekstri félagsins, þ.m.t. eftir því sem við á og í réttu hlutfalli, um viðskiptatengsl þess, vörur og þjónustu sem er líkleg til að hafa skaðleg áhrif á þessum sviðum, sem og hvernig félagið tekst á við þessa áhættu og hverjir eru helstu ófjárhagslegu lykilmælikvarðar sem eru viðeigandi fyrir viðkomandi fyrirtæki.

[2] Sjá greiningu Viðskiptaráðs á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi innleiðingar á sjálfbærniregluverki Evrópusambandsins.

[3] Skýrsla um þróun reglubyrði atvinnulífsins á 143. til 145. löggjafarþingi

[4] Sjá umfjöllun um Ráðgjafanefnd um opinberar eftirlitsreglur.

[5] Germany pushes to exempt SMEs from green reporting rules | Financial Times (ft.com)

[6] ERU, Alm.del - 2019-20 - Bilag 324: Regeringens svar på Europa-Kommissionens offentlige høring om revisionen af Non-Financial Reporting Directive (NFRD) samt orienteringsnotat, fra erhvervsministeren (ft.dk)

Tengt efni

Aukið framboð af íþyngjandi kvöðum 

„Auðvitað eiga leikreglur á markaði að vera skýrar og stuðla að jafnræði milli ...
22. maí 2024

Endurskoða þarf lögverndun starfa

Fjöldi lögverndaðra starfsgreina og starfa á Íslandi er umtalsvert hærri en í ...
31. maí 2024

Ekkert sérstakur vaxtastuðningur 

„Þótt margir gleðjist eflaust yfir því að fá millifært úr ríkissjóði er hér um ...
13. jún 2024