Tækifæri í opinberum framkvæmdum — samvinnuleið (PPP)

Smelltu hér til að lesa skoðunina í heild

Úrdráttur í skoðuninni:

„Innviðir“ voru eitt helsta kosningamálið síðasta haust. Þverpólitísk sátt virðist vera um að uppbyggingar sé þörf en helsta ágreiningsefnið er fjármögnun slíkra verkefna. Fjármögnunarleið sem lítið hefur farið fyrir í umræðunni er „samvinnuleið“ einkaaðila og hins opinbera, eða sem á ensku er kallað „PPP“ (e. public-private partnership).

Kostir aðkomu einkaaðila að uppbyggingu innviða einskorðast ekki við fjármögnun verkefna heldur hafa dæmin sýnt fram á margvíslegan ábata af slíkum verkefnum. Skilgreina mætti slíka ábata á fjóra vegu: meiri áhættudreifing, aukin skilvirkni, aukið svigrúm ríkisins til að sinna grunnþjónustu og stöðugra viðhald.

Meiri áhættudreifing
Öll áhætta sem skapast af framkvæmdinni eða rekstri eignarinnar fellur á einkaaðila. Ekki má gera lítið úr áhættu hins opinbera af hefðbundinni innviðauppbyggingu. Í því samhengi má horfa til Orkuveituhússins, Landeyjahafnar, Hörpu og fleiri verkefna sem hafa reynst mun dýrari í framkvæmd eða rekstri en lagt var upp með

Aukin skilvirkni
Í gegnum tíðina hafa dæmin sýnt að samvinnuverkefni fara bæði sjaldnar fram úr kostnaði og tíma en sambærileg opinber verkefni. Erfitt er að gera slíkan samanburð hér á landi, fyrst og fremst vegna skorts á verkefnum. Hins vegar er ljóst að mikil tækifæri eru til að gera betur þegar kemur að skilvirkni opinberra framkvæmda. Samkvæmt nýlegri rannsókn fóru 90% opinberra framkvæmda farið fram úr áætlunum og nam meðal framúrkeyrsla í tengslum við kostnað að meðaltali 63%.

Aukið svigrúm ríkisins til að sinna grunnþjónustu
Í samvinnuverkefni (PPP) stendur hið opinbera ekki frammi fyrir miklum stofnkostnaði heldur dreifast útgjöld þess yfir lengra tímabil. Fjármagn sem annars hefði verið fast er þar af leiðandi hægt að nýta í nauðsynlega grunnþjónustu á vegum hins opinbera.

Tryggir stöðugt viðhald á eignum
Að lokum má benda á að undir flestum kringumstæðum sér þjónustuaðili um allt viðhald á samningstímanum samkvæmt samningi þegar um samvinnuverkefni ræðir. Viðhald á innviðum er því tryggara en ella og víkur ekki þegar hallar undan fæti hjá hinu opinbera líkt og gerðist á árunum eftir hrun.

Ljóst er að samvinnuverkefni hins opinbera við einkaaðila hentar ekki undir öllum kringumstæðum, meðal annars vegna lítils sveigjanleika í samningum. Aftur á móti eru fjölmörg dæmi um verkefni sem ráðast þarf í á komandi misserum sem gætu hentað vel sem samvinnuverkefni vegna þeirra fjölmörgu kosta sem hér hafa verið upptalnir. Þegar áhugi einkafjárfesta er til staðar ættu stjórnvöld að horfa sérstaklega til samstarfs og þannig leitast til þess að hámarka skilvirkni framkvæmdarinnar. Fjölbreytni í framkvæmdafyrirkomulagi hins opinbera er öllum til hagsbóta.

Smelltu hér til að lesa skoðunina í heild

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Hitam(ál) – Hvað er málið með álið?

Hugmyndir um takmörkun á stóriðju hér á landi annars vegar og samdrátt í losun á ...
3. apr 2023