Einkaframkvæmd - samkeppni á nýjum sviðum

Verslunarráð hefur ætíð hvatt til aukinnar þátttöku einkaaðila í verkefnum sem hið opinbera hefur alla jafna sinnt einhliða. Einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur verið í samræmi við afstöðu Verslunarráðs og í kjölfar einkavæðingar hafa orðið til ný tækifæri til verðmætasköpunar, viðkomandi atvinnugrein og atvinnulífinu í heild til góða. Um leið og ríkisfyrirtækjum fækkar er hlutur hins opinbera enn afar fyrirferðamikill á ýmsum sviðum. Bæði er þar um að ræða starfsemi sem einkaaðilar eru þó í auknum mæli einnig að sinna, svo sem rekstur skóla eða leikskóla, og starfsemi sem einkaaðilum hefur ekki gefist kostur á að sinna en hafa þó áhuga á.

Með einkaframkvæmd er átt við þegar boðin er út til einkaaðila þjónusta sem áður var nær alfarið á herðum hins opinbera og hið opinbera vill áfram stuðla að eða fjármagna. Með einkaframkvæmd er samkeppni innleidd á sviðum sem hafa verið einokuð af ríkinu og er sú samkeppni til þess fallin að skila betri þjónustu, sparnaði og fjölbreyttri þjónustu.

Verslunarráð Íslands kynnir nú fyrstu heildstæðu samantektina um einkaframkvæmd á Íslandi. Einkaframkvæmd á sér ekki langa sögu hér á landi. Nokkur reynsla er þó fyrir hendi og er í skýrslunni fjallað um þann hluta einka­framkvæmdar þar sem einkaaðilar hafa staðið að byggingu og rekstri mannvirkis og í sumum tilvikum einnig þess starfs sem þar fer fram. Markmiðið með gerð skýrslunnar var að fjalla um reynsluna af einkaframkvæmd hér á landi, kosti og galla þessa forms, og fjalla um vandamál og lausnir sem komið hafa fram í þeim einkaframkvæmdarverkefnum sem farið hafa fram. Í þeim tilgangi var rætt við ýmsa þá sem með einum eða öðrum hætti hafa tengst einkaframkvæmdarverkefnum.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að:

-hér á landi er vaxandi markaður fyrir einkaframkvæmd
-einkaframkvæmd nýtur sín best þegar hún nær til sem flestra þátta verkefnis
-meiri kröfur eru gerðar þjónustu í einkaframkvæmd en tíðkast þegar hið opinbera hafði verkefnið með höndum og um leið er því skerpt á hlutverki ríkisins sem kaupanda þjónustunnar
-dæmi er um útboðslýsingu vegna grunnskóla upp á 100 síður og útboðslýsingu vegna leikskóla upp á 13 síður en þennan mismun má rekja til ólíkra viðhorfa til útboðslýsinga

Þá eru í skýrslunni settar fram tillögur um næstu verkefni sem miða að því að auka hlut einkaaðila í verkefnum hins opinbera.

Skýrsluna má í heild sinni nálgast hér

Tengt efni

Að laga kerfi

Óskað eftir alvöru lausnum og færri fáliðunardögum.
11. nóv 2021

Sveitarfélög horfi til alþjóðageirans

Viðskiptaráð hvetur Reykjavíkurborg til að skapa atvinnulífinu gott ...
2. jún 2021

Fjárfest í samvinnu

Mikil tækifæri eru fólgin í aðkomu einkaaðila og lífeyrissjóða að kraftmeiri ...
28. jan 2021