Krónan og atvinnulífið

Viðskiptaráð Íslands gaf í dag út skýrsluna Krónan og atvinnulífið. Að neðan má finna útdrátt og helstu niðurstöður skýrslunnar.

Skýrsluna má nálgast hér

Prentuð eintök af skýrslunni má nálgast á skrifstofu Viðskiptaráðs gegn 2000 kr. gjaldi eða með því að senda tölvupóst á mottaka@vi.is.

Um þessar mundir eru fimm ár liðin frá því að verðbólgumarkmið varð aðalmarkmið Seðlabanka Íslands og krónan sett á flot. Allmiklar sveiflur hafa orðið á gengi krónunnar, stýrivextir bankans eru háir, vaxtamunur við útlönd mikill og raungengi hátt hvort sem er á mælikvarða hlutfallslegs verðlags eða kaupgjalds. Hátt raungengi hefur lagt þungar byrðar á útflutningsatvinnuvegi og sprotafyrirtæki sem afla tekna í erlendri mynt. Jafnframt eru verðbólguvæntingar langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans en það bendir til að trúverðugleiki peningamálastjórnarinnar hafi beðið hnekki.

Reynslan af framkvæmd verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands leiðir í ljós að vaxtahækkanir bankans hafa einkum verkað um farveg gengis íslensku krónunnar. Samhliða því að tekið var upp verðbólgumarkmið hefur orðið mikil aukning á lántökum í erlendri mynt. Þessi breyting á fjármögnun hefur þau áhrif að verulega dregur úr slagkrafti vaxtabreytinga Seðlabankans auk þess sem fjármál hins opinbera hafa ekki stutt nægjanlega við peningamálastjórnina.

Að réttu lagi ættu hækkanir á stýrivöxtum bankans, sem ætlað er að stemma stigu við verðbólguþrýstingi, einnig að hafa áhrif um farveg vaxta. Sú hefur þó ekki verið raunin og áhrif þeirra á langtímavexti hafa reynst takmörkuð enda hækkuðu stýrivextir hægar en verðbólguvæntingar í upphafi hagsveiflunnar. Þá eru vextir á langtímalánum til heimila yfirleitt fastir og verðtryggðir auk þess sem innlendur markaður fyrir óverðtryggð skuldabréf er tiltölulega grunnur. Djúpstæðar ástæður liggja því á bak við tregðu í miðlunarferli peningastefnunnar og er verðtrygging fjárskuldbindinga sennilega stór orsakaþáttur ásamt miklum vexti í erlendri lánsfjármögnun fjármálastofnana og stærri fyrirtækja.

Hátt raungengi hefur að undanförnu lagt þungar byrðar á útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar. Ekki er um það deilt að vandinn er að mörgu leyti heimatilbúinn og má að miklu leyti rekja hann til þess að ráðist hefur verið í stórframkvæmdir með fjárfestingum í orkuverum og jafnframt hafa verið gerðar afdrifaríkar skipulagsbreytingar á húsnæðislánamarkaði. Áhugi erlendra aðila á eignum í íslenskum krónum, sem rekja má til mikils vaxtamunar við útlönd, hefur síðan enn stuðlað að háu gengi krónunnar.

Brýnt er að atvinnustefna af hálfu opinberra aðila og aðgerðir stjórnvalda sem lúta að skipulagslegum þáttum á borð við fjármögnun íbúðalána taki mið af almennri stefnu í efnahagsmálum og sé mörkuð og tímasett með hliðsjón af henni. Samhliða skattalækkunum er nauðsynlegt að draga úr útgjöldum og leggja ber áherslu á að allar atvinnugreinar í landinu sitji við sama borð. Nauðsynlegt er að hagstjórn verði mótuð í ljósi ólíkrar stöðu atvinnugreina þannig að stóriðja og önnur útflutningsstarfsemi geti þrifist hlið við hlið í landinu. Að sama skapi ber að árétta mikilvægi þess að ákvarðanir um stóriðju- og virkjanaframkvæmdir verði teknar á markaðsforsendum.

Til að auka trúverðugleika peningamálastefnunnar og skapa þannig skilyrði fyrir lækkun stýrivaxta er nauðsynlegt að samhæfa stefnu og aðhald í fjármálastjórn hins opinbera þannig að hún styðji betur við verðbólgumarkmiðið en verið hefur. Meta verður árangur í ríkisfjármálum í ljósi þess hve mjög tekjur ríkisins aukast sjálfkrafa í uppsveiflu.

Aukin útgjöld ríkis og sveitarfélaga samhliða skattalækkunum auka eftirspurn í hagkerfinu og valda verðbólguþrýstingi. Hallarekstur margra sveitarfélaga á undanförnum árum er skýrt dæmi um skort á samhæfðri fjármálastefnu af hálfu opinberra aðila. Eigi að takast að ná markmiði um verðbólgu og hemja verðbólguvæntingar verða ríki og sveitarfélög að taka höndum saman í stað þess að fjármálastjórn þeirra ógni stöðugleika eins og reyndin virðist hafa orðið.

Ástæða er til að árétta sérstaklega mikilvægi þess að sveitarfélög sýni aukið fjármálalegt aðhald og aukna hagstjórnarábyrgð enda eru áhrif þeirra á eftirspurn í hagkerfinu veruleg. Á síðustu árum hafa verkefni ríkis færst í auknum mæli yfir á sveitarfélög og fjármálaleg umsvif þeirra vaxið stórlega. Mörg stærstu sveitarfélögin hafa lagt til efnivið í þá auknu eftirspurn sem hefur magnast á undanförnum misserum enda hefur efnahagsleg þýðing þeirra vaxið án þess að þeim þætti hafi verið gefinn nægur gaumur við hagstjórn í landinu.

Til að hemja væntingar og skaðlegar afleiðingar þeirra þarf að draga úr óvissu um framtíðaráform í stóriðju. Líta ber til þess að óraunhæfar væntingar um framkvæmdir í náinni framtíð hafa áþekk áhrif á gengi og verðbólguvæntingar og tilkynning um nýjar framkvæmdir og því er óvissa í þessum efnum óheppileg. Í þessu samhengi ber að líta til þess að stærð hagkerfisins gæti vaxið verulega á næstu árum ef fram heldur sem horfir. Myndarlegur hagvöxtur á komandi árum myndi að sínu leyti auka efnahagslegt svigrúm til að mæta frekari stóriðjuáformum ef hið opinbera dregur samhliða úr eftirspurn í hagkerfinu.

Þá þarf að gæta þess við mótun launastefnu hins opinbera að hún leiði ekki launaþróun heldur taki mið af launaþróun á hinum almenna vinnumarkaði. Nauðsynlegt er að samræma fjármálastjórn og atvinnustefnu opinberra aðila til að ná markmiðum um stöðugleika í verðlagsmálum. Að óbreyttri stefnu verður að telja ólíklegt að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist.

Að undanförnu hefur vaxandi umræða farið fram um upptöku sameiginlegrar myntar Evrópusambandsins á Íslandi. Evran kemur ekki til álita sem lausn á þeim vanda sem steðjar að íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Til þess að Íslendingar geti í framtíðinni átt raunhæft val á milli evru og íslensku krónunnar, á grundvelli efnahagslegra og stjórnmálalegra forsendna, þarf að beita samræmdum aðgerðum á sviði hagstjórnar til þess að mynda jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Meginverkefni hagstjórnar á næstunni er því að beita samhæfðri stefnu til að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki náist í efnahagslífinu.

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Dauða­færi ríkis­stjórnarinnar til að lækka vaxta­stig

Viðureignin við verðbólguna er nú eitt brýnasta verkefnið á vettvangi ...
7. jún 2023

Fimm skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá áramótum 2022 hafa verið gerðar 46 breytingar á skattkerfinu, þar af hafa ...
31. maí 2023