Niðurstaða Viðhorfskönnunar Viðskiptaráðs

Í tilefni af Viðskiptaþingi sem halda átti 4. febrúar 2009 kannaði Viðskiptaráð hug aðildarfélaga til afleiðinga bankahrunsins á rekstrarstöðu fyrirtækja þeirra, stöðu stjórnsýslu, aðgerða til úrbóta og afstöðu til Evrópusambandsaðildar. Þetta var gert í formi könnunar sem send var þátttakendum, öllum aðildarfélögum í Viðskiptaráði, með tölvupósti. Það er til marks um áhuga félagsmanna á málefninu að svarhlutfall reyndist ríflega 60%, sem er mjög viðunandi fyrir þetta form könnunar, sérstaklega þegar haft er í huga að í úrtakinu voru eingöngu æðstu stjórnendur eða forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja.

Vegna stjórnmálalegra aðstæðna og óvissu var Viðskiptaþingi frestað fram í mars, en rétt þótti að birta niðurstöður könnunar Viðskiptaráðs fyrr þannig að þær gætu nýst til leiðsagnar í umbótastarfinu sem nú er brýnt að eigi sér stað. Rétt er að taka það fram að könnuninni var lokað 20. janúar og ljóst að einhverjar af þeim breytingum sem þátttakendur nefna eru nú þegar gengnar eftir.

Könnunina í heild má nálgast hér

Rekstrarstaða fyrirtækja
Afleiðingar hruns íslensku viðskiptabankanna í október 2008 koma nú æ betur í ljós. Fjöldi fyrirtækja hefur þegar lent í verulegum rekstrarvandræðum. Ríflega helmingur þátttakenda í könnun Viðskiptaráðs telur að rekstrarstaða sinna fyrirtækja eigi enn eftir að versna á næsta hálfa árinu, með tilheyrandi fækkun starfsfólks. Meginástæður erfiðleika í rekstri nú röktu aðildarfélagar Viðskiptaráðs til falls krónunnar, hás vaxtastigs, samdráttar í eftirspurn og takmarkaðs aðgangs að lánsfé. Að mati flestra þátttakenda hafa stjórnvöld ekki gert nóg til að koma til móts við fyrirtæki í erfiðu rekstrarumhverfi, þrátt fyrir að það sé metið svo að þau hafi haft til þess nokkuð svigrúm. Engu að síður má ljóst vera að staða ríkissjóðs sé þröng um þessar mundir og á enn eftir að þrengjast.

Það sem enn eykur á vanda fyrirtækjanna eru að hnökrar virðast vera á þjónustu nýju bankanna, sem stór hluti félagsmanna segir hafa versnað frá því sem hún var fyrir október 2008. Það er athyglisvert að stærri fyrirtæki og fyrirtæki sem eru í alþjóðlegri starfsemi eru líklegri en önnur til að telja þjónusta bankanna hafa versnað. Það má því gera því skóna að grunnþjónusta bankanna, sérstaklega gagnvart smærri fyrirtækjum, hafi haldist sæmilega ólöskuð en þjónusta sem lítur að samskiptum við útlönd hafi orðið verr úti. Orðspor íslenskra fyrirtækja í útlöndum hefur einnig beðið hnekki sem þyngir enn róðurinn, sérstaklega hjá þeim sem eru háðir erlendum birgjum eða viðskiptavinum í starfsemi sinni.

Breytinga og aðgerða er þörf
Það er auðséð af svörum aðildarfélaga að breytinga var þörf hjá ríkisstjórn og í stjórnsýslu. Fleiri en 9 af hverjum 10 þátttakendum töldu nauðsynlegt að stokka upp í ríkisstjórninni eða gera mannabreytingar hjá Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Hóflegri afstaða þátttakenda til breytinga í ráðuneytum og stjórnsýslu er ekki óeðlileg þar sem um viðameiri starfsemi og fleira starfsfólk er að ræða. Athygli vekur að þrátt fyrir nánast einróma vilja til breytinga hjá ríkisstjórn taldi ríflega helmingur þátttakenda að ekki ætti að boða til kosninga á árinu 2009.

Með þeim breytingum sem síðustu daga hafa orðið á ríkisstjórn og í lykilstofnunum er verið að koma til móts við almenna kröfu um breytingar. Mögulegt er að mikill órói í samfélaginu og ofangreindar breytingar á stjórnarsamstarfi kunni að hafa breytt afstöðu aðildarfélaga til kosninga á árinu frá því sem var er könnuninni var lokað 20. janúar síðastliðinn.

Horft til skemmri tíma töldu þátttakendur mikilvægast að bæta aðgengi að fjármagni, aðallega í formi vaxtalækkana og með því að hið opinbera örvi atvinnulíf með auknu framkvæmdum. Einnig er talið aðkallandi að fram komi raunverulegur stuðningur við lífvænleg fyrirtæki. Til lengri tíma lögðu þátttakendur áherslu á að það þurfi að taka upp annan gjaldmiðil en íslensku krónuna. Flestir vilja taka upp evru, sumir strax en aðrir í kjölfar aðildar að ESB. Einstaka þátttakandi nefnir aðra kosti, eins og til dæmis bandaríkjadollar.

Afstaða til Evrópusambandsins
Meirihluti aðildarfélaga í Viðskiptaráði er hlynntur því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Stuðningur við ESB hefur því aukist umtalsvert hjá félögum ráðsins, en samkvæmt könnun frá því í janúar 2008 var þriðjungur aðildarfélaga hlynntur aðildarumsókn á kjörtímabilinu. Um tveir þriðju þátttakenda í könnuninni nú eru þeirrar skoðunar að ESB umsókn hefði jákvæð áhrif á núverandi stöðu efnahagsmála.

Verkefnalisti stjórnvalda
Það er afar jákvætt að sjá að nýbirtur verkefnalisti nýrrar ríkisstjórnar boðar að á næstu vikum verði komið til móts við mikið af ofangreindum væntingum aðildarfélaga Viðskiptaráðs. Verkefnin tengjast einkum atvinnulífi, heimilum, fjármálakerfi og stjórnsýslu og verður áherslan vonandi á fumlaus vinnubrögð, hraða og skilvirkni. Ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst umboð til að úrlausnar á bráðavanda íslenskra fyrirtækja og heimila, en að loknum kosningum í vor er eðlilegt að við taki frekari stefnumörkun og stefnubreyting eftir því sem umboð fæst til.

Tengt efni

Opinber þynnka

Er opinber þynnka eitthvað skárri en einkarekin?
24. mar 2022

Mikilvægt að taka tillit til fleiri þátta við mat á sóttvarnaaðgerðum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til sóttvarnalaga (mál nr. 498)
2. jún 2022

Já, það þarf að segja þetta. Oft.

Svanhildur Hólm skrifar um úttekt Viðskiptaráðs á umsvifum hins opinbera í ...
2. des 2021