Icelandic Economy 1F 2023

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan er á ensku og fjallar um íslenskt efnahagslíf í víðu samhengi.

Í nýútgefinni skýrslu Viðskiptaráðs er að vanda fjallað um hagþróun síðustu mánaða, skammtímahagvísa, þróun í utanríkisviðskiptum, vinnumarkaðinn, samanburð á raforkuverði á Íslandi og í Evrópu, samsetningu hagkerfisins og stofnanaumgjörð, svo eitthvað sé nefnt. 

Áætlað er að hagvöxtur ársins 2022 hafi verið nærri 5,6%. Hagvöxtinn má m.a. rekja til viðsnúnings í ferðaþjónustu samfara kröftugri einkaneyslu, en metvöxtur mældist í einkaneyslu á fyrstu níu mánuðunum ársins. 

Eftir töluverðan halla bötnuðu vöruskipti verulega undir lok árs en útflutningur óx samhliða minnkandi vöruinnflutningi, í krónum talið. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var vöruskiptahallinn í desember sá lægsti frá því í janúar 2022. Þá skilaði myndarlegur afgangur í þjónustujöfnuði viðskiptaafgangi upp á 23,1 ma. kr. á þriðja ársfjórðungi á sama tíma og hrein erlend staða þjóðarbúsins var jákvæð um 23,6% af vergri landsframleiðslu. 

Smelltu hér til að lesa skýrsluna

Verðbólga á mælikvarða vísitölu neysluverðs jókst lítillega í desember og mældist 9,6%. Þrátt fyrir kólnun undanfarna mánuði leikur húsnæðismarkaðurinn þar enn lykilhlutverk og skýrir um 38% af verðbólgunni. Þróun verðbólgunnar að undanförnu gefur til kynna að aðgerðir Seðlabanka Íslands séu loks farnar að bíta þótt líklega sé langt þar til verðbólga nálgast markmið Seðlabankans enda verðhækkanir nú á breiðari grunni en áður. 

Annar fasi í endurflokkun íslenska hlutabréfamarkaðarins upp í flokk nýmarkaðsríkja átti sér stað þann 16. desember síðastliðinn og var velta í Kauphöllinni þá tæplega 15 milljarðar. Áætla má að uppfærsla FTSE Russel á íslenska markaðnum hafi í för með sér aukin tækifæri skráðra íslenskra fyrirtækja til fjármögnunar og veki einnig áhuga erlendra fjárfesta. 

Stærð fjármálakerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu var 410% á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2022. Bankar og lífeyrissjóðir eiga stærstan hluta eigna í fjármálakerfinu og fara þeir síðarnefndu með 42% af heildareignum. Takmörkuð og minnkandi vanskil heimila og fyrirtækja gefa til kynna að staðan í hag- og fjármálakerfinu sé góð. Þar að auki hefur hlutfalli lána hjá bönkunum sem eru með ívilnanir og í greiðsluhléum farið lækkandi að undanförnu. 

Íslenskt efnahagslíf hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum og fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að upplýsingagjöf til erlendra aðila sé öflug. Skýrslan er því send til fyrirtækja, alþjóðastofnana, opinberra aðila og viðskiptaráða víðs vegar um heiminn. 

Viðskiptaráð býður upp á kynningar á skýrslunni. Nánari upplýsingar veita hagfræðingar ráðsins, Elísa Arna Hilmarsdóttir og Gunnar Úlfarsson.

Tengt efni

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Icelandic Economy 2F 2023

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. ...
28. apr 2023

Icelandic Economy 4F 2022

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. ...
13. okt 2022