Skýrsla Viðskiptaþings 2023

Viðskiptaráð hefur gefið út skýrsluna Orkulaus/nir samhliða Viðskiptaþingi sem nú er hafið á Hilton Reykjavík Nordica.

Í skýrslunni er fjallað um stöðuna í orkumálum hérlendis, það sem vel hefur verið gert að undanförnu og þau tækifæri sem blasa við, en einnig hindranir sem íslenskt samfélag og atvinnulíf stendur frammi fyrir.

Ísland er fremst meðal þjóða þegar kemur að framleiðslu og notkun grænnar orku. Þrátt fyrir að Ísland búi að talsverðu forskoti eru miklar áskoranir fólgnar í því að skipta olíu út fyrir endurnýjanlega orku. Stjórnvöld hafa sett metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og er ávinningurinn margvíslegur. Má þar nefna loftslags- og umhverfissjónarmið, orkusjálfstæði og gjaldeyrissparnað. Mikil óvissa ríkir þó um hvernig markmiðunum verði náð.

Til þess að ná fullum orkuskiptum og standa undir þörfum samfélags og atvinnulífs þarf að rúmlega tvöfalda raforkuframleiðslu hérlendis. Umtalsverðar hindranir standa þó í veginum. Flutningskerfi raforku er komið að þolmörkum sem endurspeglast í fjölda tapaðra tækifæra í atvinnulífinu og þar með neikvæðum áhrifum á atvinnuuppbyggingu. Traustir innviðir eru forsenda þess að samfélag og atvinnulíf á Íslandi búi við orkuöryggi. Það er þess vegna miður að opinbert samþykktaferli og þar með framkvæmdatími verkefna, hafi lengst verulega en lögbundnir frestir eru ítrekað virtir að vettugi. Nauðsynlegt er að huga að úrbótum til að orkuinnviðir landsins haldi í við vöxt samfélagsins.

Í skýrslu Viðskiptaþings má lesa nánar um þær leiðir sem standa okkur til boða og kosti og galla ólíkra sviðsmynda með tilliti til umhverfis-, samfélags- og efnahagslegra áhrifa. Í skýrslunni er ennfremur fjallað um nauðsynlegar úrbætur á umgjörð orkumála hérlendis.

Smelltu hér til að lesa skýrslu Viðskiptaráðs