UFS leiðbeiningar gefnar út á íslensku

Viðskiptaráð tekur þátt í útgáfu leiðbeininga um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja með sérstaka áherslu á sjálfbærni. Leiðbeiningarnar geta hvort tveggja nýst skráðum og óskráðum fyrirtækjum sem og fjárfestum.

Viðskiptaráð Íslands í samstarfi við Nasdaq, Festu, IcelandSIF og Staðlaráð Íslands hefur gefið út UFS leiðbeiningar í íslenskri þýðingu. UFS (á ensku; ESG) stendur fyrir umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti en leiðbeiningarnar fjalla um það hvernig fyrirtæki geta með markmiðasetningu og upplýsingagjöf sýnt samfélagslega ábyrgð í verki.

Staðallinn hefur verið til á ensku en er nú gefinn út í fyrsta skipti með heildstæðum hætti á íslensku. UFS leiðbeiningar eru hvort tveggja ætlaðar skráðum og óskráðum fyrirtækjum sem vilja efla sjálbærni og tryggja öfluga upplýsingagjöf til fjárfesta.

Fjöldi fyrirtækja og fjárfesta á Íslandi tók þátt í vinnu við leiðbeiningarnar sem gerði útgáfuaðilum kleift að sníða efnistök að þörfum hins afmarkaða íslenska markaðar, án þess að missa sjónar á vítækari markmiðum um sýnileika, ábyrgð og nýjum leiðum við að mæla frammistöðu fyrirtækja.

Íslensk fyrirtæki og fjárfestar hafa nú þegar tekið vel í leiðbeiningar og það er von Viðskiptaráðs að þær nýtist sem flestum:

„Góðar UFS upplýsingar veita lesandanum alveg nýja upplifun á umfangi og áhrifum fyrirtækja, örugglega ekki ósvipað því og þegar það kom loksins litur í sjónvarpið.“ - Þorsteinn Kári Jónsson, Marel hf.

„Kröfur kaupenda eiga eftir að verða enn fyrirferðarmeiri í framtíðinni og því mun frammistaða fyrirtækja á sviði samfélagsmála skipta sífellt meira máli.“ - Torfi Þ. Þorsteinsson, Brim hf.

„Stjórnendur geta nýtt sér leiðbeiningar Nasdaq við að miðla ófjárhagslegum upplýsingum sem ætlað er að gefa glögga mynd af stefnum og starfsháttum fyrirtækisins“ - Viktoría Valdimarsdóttir, Ábyrgar lausnir ehf.

Hér má nálgast UFS leiðbeiningar í heild sinni.

Tengt efni

Skýrsla Krónunnar samfélagsskýrsla ársins

Samfélagsskýrsla Krónunnar stóð upp úr í hópi nítján tilnefndra skýrslna
10. jún 2020

Vel heppnað Viðskiptaþing á grænu ljósi

Viðskiptaþing 2020 fór fram undir yfirskriftinni Á grænu ljósi - Fjárfestingar ...
17. feb 2020

Lög á viðskiptalífið?

Verslunarráð í samstarfi við lagadeild Háskólans í Reykjavík mun standa fyrir ...
18. feb 2005