27 skattabreytingar um áramótin

Um áramótin tóku gildi 27 skattabreytingar. Þar af voru skattahækkanir 18 talsins og skattalækkanir 9 talsins. Frá árinu 2007 hafa samtals verið gerðar 240 skattabreytingar. Þetta eru niðurstöður uppfærslu á yfirliti Viðskiptaráðs Íslands yfir skattabreytingar undanfarinna ára.

Skoða yfirlit

Helstu breytingar um áramótin
Heilt yfir er það mat Viðskiptaráðs að skattkerfið hafi tekið framförum um áramótin. Vegur þar einna þyngst afnám tolla í heild sinni, að undanskildum landbúnaðarvörum, en tollar voru áður lagðir á fjölmarga ólíka vöruflokka. Þá hefur samkeppnishæfni alþjóðlegra fyrirtæka verið aukin með hækkun þaks vegna R&Þ-endurgreiðslna og frádráttarheimild fyrir erlenda sérfræðinga.

Helstu lækkanir sem tóku gildi um áramótin voru eftirfarandi:

 • Afnám tolla á allar vörutegundir nema landbúnaðarvörur
 • Afnám miðþreps og lækkun neðra þreps tekjuskatts einstaklinga
 • Lækkun tryggingagjalds um hálft prósentustig
 • Frádráttarheimild fyrir erlenda sérfræðinga
 • Skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa tengdum nýsköpun
 • Hækkun þaks vegna R&Þ-endurgreiðslna úr 100 m.kr. í 300 m.kr.

Helstu hækkanir um áramótin voru eftirfarandi:

 • Krónutöluskattar hækkaðir um 2,5% að raunvirði
 • Gistináttagjald hækkað úr 100 kr. í 300 kr.
 • Tóbaksgjald á neftóbak hækkaði um 77%
 • Útvarpsgjald hækkaði úr 16.400 kr. í 16.800 kr.

240 skattabreytingar frá árinu 2007
Frá árinu 2007 hafa samtals verið gerðar 240 skattabreytingar. Breytingarnar skiptast í 61 skattalækkun og 179 skattahækkanir. Fyrir hverja skattalækkun hafa því skattar verið hækkaðir þrisvar sinnum. Nokkur dæmi um breytingar frá árinu 2007

 • Fjármagnstekjuskattur hefur hækkað um 100%
 • Hækkun gjalda á bjór, létt- og sterkt vín er komin yfir 100%
 • Neftóbaksgjald hefur hækkað um 891% á tímabilinu
 • Tryggingagjald er enn 28% hærra en það var fyrir hrunið
 • Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra hefur hækkað um 74%

Síðastliðin ár hafa stjórnvöld hugað í auknum mæli að skattalækkunum og undið þannig að hluta til ofan af óhagfelldri þróun skattkerfisins á árunum í kjölfar hrunsins. Viðskiptaráð hvetur ný stjórnvöld til að halda áfram á þessari braut og skapa þannig sterkar forsendur fyrir aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum á komandi árum.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Vilt þú efla samkeppnishæfni Íslands?

Nú er opið fyrir umsóknir um styrki úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands. ...
5. des 2023

Fimm skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá áramótum 2022 hafa verið gerðar 46 breytingar á skattkerfinu, þar af hafa ...
31. maí 2023