Fjármagnskostnaður enn dragbítur á samkeppnishæfni Íslands

Hagkvæm fjármögnun er einn af lykilþáttum í að auka samkeppnishæfni landsins. Þrátt fyrir lækkun meginvaxta og aðrar framfarir er Ísland enn talsvert á eftir hinum Norðurlöndunum þegar kemur að fjármögnun fyrirtækja.

Á hverju ári gerir viðskiptaháskólinn IMD úttekt á samkeppnishæfni ríkja. Niðurstöður úttektarinnar gefa vísbendingar um stöðu þjóða og hvernig þeim muni vegna á komandi árum en mikil fylgni er á milli góðra lífskjara og mikillar samkeppnishæfni. Samkvæmt niðurstöðum fyrir 2020 er Ísland í 21. sæti í samkeppnishæfni og féll um eitt sæti á milli ára. Áhugavert er að rýna í þær stærðir sem ákvarða stöðu okkar en í úttekt IMD endurspeglast að Ísland stendur framarlega á mörgum sviðum, til dæmis hvað varðar atvinnustig, jafnrétti, menntun og ýmsa innviði.

Mikilvægi fjármögnunarumhverfis - dræm frammistaða

Það sama er ekki hægt að segja um þá þætti úttektarinnar sem snúa að fjármögnun atvinnulífsins og hafa þeir verið veikleiki í talsverðan tíma (mynd 1). Í ár varð ekki stór breyting þar á en töluverð bæting var þó í þeim þáttum er varða aðgengi að lánsfjármagni, skilvirkni hlutabréfamarkaðarins og áhrif Seðlabankans á hagkerfið. Aftur á móti versnaði aðgengi að áhættufjármagni og aðdráttarafl hagkerfisins fyrir erlendra fjárfesta dvínaði.

Það að fyrirtæki geti með hagkvæmum hætti sótt sér fjármagn, hvort sem það er í gegnum lánastofnanir, lífeyrissjóði, fjárfestingarfélög eða verðbréfamarkaði, spilar lykilhlutverk í fjárfestingargetu þeirra. Sú geta hefur í framhaldi meðal annars áhrif á samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum mörkuðum, þar með talið áhuga erlendra fjárfesta og getu til að þróa nýjar lausnir. Í sameiningu stuðla allir þessir þættir að þróun hagsældar og lífskjara á Íslandi með því að skapa störf og auka framleiðni.

Langt á eftir hinum Norðurlöndunum

Til að draga fram heildarmyndina er gagnlegt að skoða stöðu okkar í samanburði við hin Norðurlöndin (mynd 2). Þá kemur til að mynda í ljós að lánshæfi okkar - sem ákvarðar til dæmis erlend vaxtakjör fyrirtækja – er enn töluvert slakara en á hinum Norðurlöndunum, og þá sérstaklega í samanburði við Svíþjóð, Noreg og Danmörk. Þá er innheimta eigna- og fjármagnstekjuskatta sem hlutfall af landsframleiðslu lægst hér á landi og líklegt er að sú þróun haldi áfram þegar bankaskatturinn fer að lækka á næsta ári.

Þegar öllu er á botni hvolft er þó bersýnilegt að íslenska fjármögnunarumhverfið er eftir á á nánast öllum sviðum. Með því að skoða tölur aftur í tímann kemur til að mynda í ljós að banka- og fjármálakerfið hefur staðnað í að bæta stuðning þess við fyrirtæki á Íslandi. Þá er hvergi meiri munur á milli Íslands og Norðurlandanna en þegar kemur að áhrifum fjármagnskjara á hvata til viðskiptaþróunar. Að lokum heldur þróunin áfram í öfuga átt þegar kemur að aðgengi að áhættufjármagni, lykilatriði þegar kemur að fjármögnun sprotafyrirtækja, og sköpun hvata sem hvetja til erlendrar fjárfestingar. Öll þessi atriði letja fjárfestingu og nýsköpunog verða erfiðlega réttlætt þegar hin Norðurlöndin standa hvað best í þessum málum.

Sögulegi samanburðurinn hefur þó einnig á sér bjarta hlið sem sýnir bætingu á nokkrum þáttum og má þar nefna að traust til Seðlabankans hefur batnað mikið og aðgengi að lánsfjármagni hefur aukist. Þessi atriði draga úr kerfislegri áhættu og sveiflum innan atvinnulífsins. Einnig hefur skilvirkni hlutabréfamarkaðarins aukist sem eykur fjármögnunarmöguleika fyrirtækja og getur aukið erlenda fjárfestingu.

Tækifæri í sögulegu lágvaxtaumhverfi

Þrátt fyrir hraða lækkun meginvaxta Seðlabankans fjarlægðumst við hin Norðurlöndin þegar kom að vaxtamun innlánsstofnana en samkvæmt niðurstöðum IMD og gögnum Seðlabankans hafa vaxtalækkanir ekki enn skilað sér að fullu í lægri útlánavöxtum til fyrirtækja (mynd 3). Það kann einkum að skýrast af aukinni áhættu í útlánum vegna óvissu í efnahagslífinu sem stafar af Covid-19 en lánveitendur taka alla jafna mið af slíkri óvissu með auknu áhættuálagi á vexti.

Tíminn verður að leiða í ljós hvort það sé tímabundið ástand en í það minnsta skapar hið nýja lágvaxtaumhverfi tækifæri. Nánast aldrei hefur verið minni munur á milli meginvaxta hér á landi og í Noregi og Svíþjóð (mynd 3) en lágir stýrivextir lækka innlánsvexti og skapa þannig svigrúm fyrir fjármálafyrirtæki til að lækka útlánavexti - sem í framhaldinu eykur svigrúm fyrirtækja og heimila til lántöku og bætir fjármögnunarumhverfið. Ef böndin haldast á verðbólgu eru forsendur fyrir lægra vaxtastigi en áður hefur þekkst. Verði það raunin myndast svigrúm til að rétta úr stöðu Íslands er kemur að fjármögnunarumhverfi fyrirtækja og auka þar með samkeppnishæfni landsins.

Tengt efni

Icelandic Economy 2F 2023

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. ...
28. apr 2023

Icelandic Economy 4F 2022

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. ...
13. okt 2022

Icelandic Economy 1F 2023

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. ...
18. jan 2023