Fleiri njóta stuðnings einkageirans

Stuðningsstuðull atvinnulífsins hækkaði talsvert í faraldrinum

Öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hið opinbera geti veitt landsmönnum nauðsynlega þjónustu, svo sem heilsugæslu, menntun, greitt atvinnuleysistryggingar og lífeyri eða bætur til þeirra sem eru utan vinnumarkaðar. Styrk hagkerfisins til að standa undir nauðsynlegri þjónustu má meta með stuðningsstuðli atvinnulífsins en stuðullinn sýnir að fyrir hverja 10 einstaklinga sem störfuðu í einkageiranum árið 2021 voru 14 sem gerðu það ekki, þ.e. voru ýmist í opinberum störfum, í námi, atvinnulausir eða ekki á vinnumarkaði, t.d. vegna aldurs.

Mynd 1: Þróun stuðningsstuðuls atvinnulífsins 2000-2021
Birtist myndin ekki? Prófaðu að sækja síðuna aftur (refresh).

Áhrif heimsfaraldurs enn viðvarandi 

Heimsfaraldurinn hafði neikvæð áhrif á stuðningsstuðulinn árið 2020 og hækkaði hann því fjórða árið í röð. Þar vegur þungt fjölgun atvinnulausra um 5.000 (+62,2%) frá árinu 2019 samhliða fjölgun utan vinnumarkaðar um 7.940 (+5,2%). Að auki fjölgaði stöðugildum hins opinbera um 1.590 (+4,0%) á sama tíma og 7.390 (-4,8%) störf töpuðust í einkageiranum. [1]

Þrátt fyrir að stuðullinn sé enn sögulega hár lækkaði hann lítillega á milli áranna 2020 og 2021. Lækkunin stafar helst af fækkun fólks utan vinnumarkaðar um 1.550 (-1,0%), fækkun atvinnulausra um 500 (-3,8%) og fjölgun starfandi í einkageiranum um 5.240 (+3,6%). 

Á síðustu tveimur árum hefur störfum í einkageiranum fækkað um 2.140 og starfandi einstaklingum aðeins fjölgað um 900. Samtímis hefur stöðugildum hins opinbera fjölgað um 3.040 sem hefur orðið til þess að hlutfall opinberra stöðugilda af starfandi á vinnumarkaði hækkaði úr 20,5% árið 2019 í 22,0% í fyrra. Ef fjölgun opinberra starfsmanna að undanförnu er tilkomin vegna viðspyrnu við heimsfaraldrinum verður að teljast eðlilegt að þeim fækki á ný eða að það hægist að minnsta kosti verulega á fjölgun þeirra á næstu árum til að færa hlutfallið nær fyrra horfi. 

Mynd 2: Stuðningsstuðull atvinnulífsins 2021
Birtist myndin ekki? Prófaðu að sækja síðuna aftur (refresh).

Hvers vegna þessi mælikvarði? 

Tilgangur stuðulsins, sem Viðskiptaráð birti fyrst árið 2011, er að varpa ljósi á hvernig jafnvægið er á milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins í heild.  

Í honum felst hvorki að börn og aldraðir séu einhvers konar byrði á þeim sem eru starfandi né að þjónusta hins opinbera sé ekki mikilvæg. Hærri stuðull þýðir samt sem áður að minna er til skiptanna fyrir samfélagið að öðru óbreyttu og þess vegna er brýnt að horfa til þess nauðsynlega jafnvægis sem þarf að ríkja milli einkageirans og hins opinbera. Í ljósi framangreinds telur Viðskiptaráð mikilvægt að stjórnvöld dragi úr fjölgun opinberra starfsmanna, stuðlað sé að virkri atvinnuþátttöku sem flestra og að einkageirinn fái svigrúm til vaxtar til að tryggja hagsæld landsmanna til lengri tíma. 

[1] Fjöldi starfsmanna ríkis og sveitarfélaga er umreiknaður í fjölda stöðugilda svo tekið sé tillit til þeirra sem starfa í hlutastarfi.

Tengt efni

Unglingadrykkja hrunið síðustu 30 ár

Undanfarin 30 ár hefur unglingadrykkja á Íslandi hrunið. Árið 1995 höfðu 80% ...
18. jún 2024

Þung skattbyrði og mikil verðbólga undirstrika þörf á aðhaldi

„Útgjaldavöxtur síðustu ára hefur kynt undir háa verðbólgu og valdið bæði ...
8. maí 2024

Hversu vel þekkir þú hið opinbera? 

Viðskiptaráð kynnir nýjan spurningaleik um hið opinbera. Hvað eru margar ...
20. feb 2024