Hlutfall opinberra starfsmanna hækkar

Viðskiptaráð hefur tekið saman stuðningsstuðul atvinnulífsins fyrir árið 2018 líkt og síðustu ár en stuðullinn er mælikvarði á hlutfall íbúa sem starfa í einkageiranum. Í ár leiðir stuðningsstuðullinn meðal annars í ljós að hlutfall opinberra starfsmanna af starfandi hækkar í fyrsta sinn frá árinu 2009.

Stuðningsstuðull atvinnulífsins hækkar annað árið í röð

Stuðningsstuðullinn hækkaði annað árið í röð árið 2018 en hafði þar áður lækkað samfellt í sjö ár. Stuðullinn var því 1,21 árið 2018 samanborið við 1,20 árið 2017. Stuðullinn sýnir að fyrir hverja 100 einstaklinga sem störfuðu í einkageiranum árið 2018 voru 121 sem gerðu það ekki, þ.e. ýmist í opinberum störfum, voru í námi, atvinnulausir eða ekki á vinnumarkaði, til dæmis vegna aldurs. Tilgangur stuðningsstuðulsins, sem Viðskiptaráð birti fyrst árið 2011, er að varpa ljósi á það hvernig jafnvægið á milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins þróast.

Opinberum starfmönnum fjölgar hlutfallslega í stuðningsstuðlinum

Líkt og árið 2017 litast stuðningsstuðulinn af mikilli fólksfjölgun. Segja má að drifkraftar hækkunar stuðulsins séu af tvennum toga. Annars vegar mikil fjölgun í hópi þeirra sem standa utan vinnumarkaðar líkt og árið 2017, en þeim fjölgaði fjölgaði um 3,4% milli áranna 2017 og 2018. Hins vegar fjölgaði stöðugildum hjá hinu opinbera um 2,6% á sama tíma og starfsfólki í einkageiranum fjölgaði aðeins um 2,2%.

Árið 2018 markar því viss tímamót en í fyrsta skipti frá árinu 2009 hækkar hlutfall opinberra starfsmanna af starfandi í stuðningsstuðlinum milli ára. Hækkunin nemur 0,1 prósentustigi af starfandi. Þrátt fyrir hlutfallslega fjölgun starfandi hjá hinu opinbera urðu hins vegar til fleiri störf í einkageiranum eða ríflega 3.400 á móti tæplega 1.000 hjá hinu opinbera. Aftur á móti er hröð fólksfjölgun utan vinnumarkaðar umhugsunarverð en fólki utan vinnumarkaðar fjölgaði um ríflega 4.800 á milli áranna 2017 og 2018.


Hvers vegna þessi mælikvarði?

Taka skal fram að tilgangur stuðningsstuðulsins er ekki sá að mála upp mynd af börnum, öldruðum og opinberum starfsmönnum sem byrði á einkageiranum og þeim sem þar starfa. Tilgangurinn er sem fyrr segir að varpa ljósi á umsvif einkageirans og um leið á opinber umsvif. Grundvöllur lífsgæða á Íslandi er öflugt viðskiptalíf sem skapar verðmæti. Til að mynda eru Íslendingar mjög háðir útflutningi og hann verður að nær öllu leyti til í einkageiranum. Án útflutnings væri enginn gjaldeyrir til innflutnings og ekki þarf að fjölyrða um hvaða áhrif það hefði á lífsgæði á Íslandi.

Ef stuðningsstuðullinn hækkar áfram þýðir það að minna er til skiptanna milli landsmanna að öllu öðru óbreyttu. Í ljósi framangreinds telur Viðskiptaráð mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að halda stuðlinum lágum og skapa einkageiranum sem best rekstrarskilyrði til að tryggja hagsæld landsmanna.

Tengt efni

Velkomin til framtíðarinnar, árið 2003

Landvernd kynnti tillögur um orkuframleiðslu og -skipti til ársins 2040 án ...
27. jún 2022

Vill Efling lækka laun?

Efling segir að svigrúm sé til 9,5% launahækkana í kjarasamningum, miðað við ...
25. ágú 2022

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022