Neytendur njóta góðs af afnámi aðflutningsgjalda

Um áramótin 2014–2015 voru almennir innflutningstollar og vörugjöld afnumin. Tollar af fatnaði og skóm voru afnumdir í ársbyrjun 2016 en ári síðar var skrefið stigið til fulls á öðrum vörum, að matvælum undanskildum.

Nú hefur Hagfræðistofnun birt úttekt á áhrifum breytinganna á verðlag á Íslandi og kemst að þeirri niðurstöðu að lækkun aðflutningsgjalda hafi skilað sér í vasa neytenda. Hagfræðistofnun bendir á að bein tekjulækkun ríkissjóðs vegna tollalækkananna hafi verið metin á um 6 ma. kr. á ári þegar aðgerðirnar væru komnar til framkvæmda. Skili þetta sér að fullu til neytenda samsvarar þessi upphæð 44 þús. kr. sparnaði meðalheimilis á ári (mynd 1). Þá voru almenn vörugjöld afnumin í einu lagi í byrjun árs 2015, og er tekjulækkun ríkissjóðs vegna þessa metið á 6,5 ma. kr.[1] Þó er ljóst að lækkunin vegna breytinganna er ofmetin þar sem afnám gjaldanna eykur ráðstöfunartekjur heimilanna sem síðan eru nýttar í önnur útgjöld sem leiða af sér hærri virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs.

Viðskiptaráð fagnaði ákvörðun stjórnvalda um niðurfellingu aðflutningsgjalda sem tímamótaskrefi bæði fyrir neytendur og fyrirtæki hér á landi.[2] Hagfræðistofnun tekur undir þau sjónarmið sem Viðskiptaráð hefur bent á: „Tollar hamla gegn milliríkjaviðskiptum og vinna því gegn því að vörur séu framleiddar þar sem það er hagkvæmast. […] Almennt er því talið að tollar dragi úr velferð. Óheft milliríkjaviðskipti eru sérstaklega mikilvæg fyrir smáþjóðir vegna þess að þar munar allajafna mest um viðskipti við útlönd.“[3]

Deilt hefur verið um áhrif af breytingunum fram að þessu. Ýmsir bentu á að þróun vöruverðs mánuðina eftir afnám tolla og vörugjalda væri til marks um að breytingarnar hefðu ekki skilað sér til neytenda.[4] Viðskiptaráð mótmælti því, þar sem ekki var tekið tillit til þess að aðrir þættir stýrðu vöruverði en álagning verslana sem og hvenær verslanir brugðust við breytingunum. Skýrsla Hagfræðistofnunar tekur sérstaklega tillit til þessara þátta í sinni greiningu. Ályktar stofnunin að álagning á sjö af átta vörum hafi minnkað yfir tímabilið og lækkun gjaldanna hafi þar af leiðandi að mestu skilað sér í vasa neytenda. Styðja tvær mismunandi matsaðferðir við þá niðurstöðu Hagfræðistofnunar.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að afnema tolla á matvæli

Þegar matarkörfur íslenskra heimila eru skoðaðar kemur í ljós að rekja má 40% matvælaútgjalda þeirra til vörutegunda þar sem tollvernd er við lýði. Samanburður við okkar helstu nágrannalönd sýnir að tollvernduð matvæli eru talsvert dýrari hér en í öðrum ríkjum og reynslan sýnir að afnám tolla skilar sér í lægra vöruverði (mynd 2). Þegar tollar af agúrkum, tómötum og papriku voru afnumdir árið 2002 lækkaði verð til neytenda um allt að 45%.[5] Afnám þeirra innflutningstolla sem eftir standa gæti því lækkað matvælaverð á Íslandi talsvert.

Nú þegar reynslan sýnir að afnám tolla skilar sér í vasa neytenda hvetur Viðskiptaráð stjórnvöld til þess að stíga skrefið til fulls og afnema aðflutningsgjöld á þeim vöruflokkum sem eftir standa.

___________________________________________________________________________________________________________________________

[1] Almennu vörugjöldin skiptust í 5 flokka, sem bera mishá gjöld s.s. sykruð matvæli, bygginga- og bílavörur, heimilistæki og raftæki

[2] Tilkynning Viðskiptaráðs, birt 24. mars 2015, má nálgast á eftirfarandi slóð: http://vi.is/malefnastarf/frettir/timabaerar-breytingar-i-tollamalum/

[3] Skýrsla Hagfræðistofnunar, bls 6-7. Slóð: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=34ca3e47-a51b-11e7-941d-005056bc4d74

[4] Umfjöllun Viðskiptaráðs um villur hjá verðlagseftirliti ASÍ, birt 8. maí 2015. Slóð: http://vi.is/malefnastarf/frettir/villur-hja-verdlagseftirliti/

[5] Daði Már Kristófersson og Erna Bjarnadóttir (2011): ,,Staða íslensks landbúnaðar gagnvart aðild að Evrópusambandinu.“


Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Fimm skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá áramótum 2022 hafa verið gerðar 46 breytingar á skattkerfinu, þar af hafa ...
31. maí 2023

Ragnar Sigurður hefur störf hjá Viðskiptaráði

Ragnar Sigurður Kristjánsson er nýr sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs
4. sep 2023