Tapað/fundið: Frjálslyndi í verki

Undanfarna daga hefur mikið verið rætt og ritað um það hvaða flokkar standa raunverulega fyrir frjálslyndi og hvort frjálslyndi hafi yfirhöfuð átt sér málsvara á þingi undanfarin ár. Í því samhengi hefur sérstaklega verið rætt um skattbyrði og umsvif hins opinbera. Af þessu tilefni vill Viðskiptaráð benda á eftirfarandi staðreyndir:

1. Skattar hafa hækkað undanfarin tíu ár, sama hvort horft er á álagningar einstaklinga eða fyrirtækja.

2. Fylgifiskur þessara skattahækkana er aukin umsvif hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, hér á landi. Heildarumsvif hins opinbera hafa aukist undanfarin ár en heildartekjur ríkissjóðs árið 2017 námu 43% af vergri landsframleiðslu samanborið við 35% 30 árum fyrr. Með öðrum orðum er leitnin sú að ríkið tekur til sín hærra hlutfall af verðmætasköpun landsmanna.

3. Heildarumsvif ríkis og sveitarfélaga hafa ekki einungis aukist heldur hafa tekjur á mann aukist gríðarlega undanfarin ár og áratugi. Tekur hið opinbera til sín nærri tvöfalt meiri tekjur af hverjum íbúa heldur en fyrir 30 árum síðan að teknu tilliti til verðbólgu.

4. Þessi þróun hefur leitt það af sér að umsvif ríkis hér á landi hafa aukist mikið í alþjóðlegum samanburði. Nú er því svo komið að umsvif hins opinbera á Íslandi eru með því mesta sem gerist í heiminum.

Tölurnar sýna svart á hvítu að frjálslyndar áherslur, á mælikvarða ríkisumsvifa, hafa heilt á litið orðið undir undanfarin ár. Viðskiptaráð fagnar þessari umræðu og auglýsir um leið eftir að fleiri sýni frjálslyndi í verki. Verðmætin verða ekki til með öflun skattekna – verðmætin verða til í atvinnulífinu. Hvetur Viðskiptaráð þá flokka sem gefa sig út fyrir að standa fyrir frjálslyndi að standa betur vörð um raunverulega verðmætasköpun og berjast gegn auknum umsvifum hins opinbera.

Tengt efni

Nauðsynlegt er að flugrekstri séu búin samkeppnishæf rekstrarskilyrði

Tryggja þarf að flugrekendur búi ekki við óþarflega íþyngjandi regluverk.
16. apr 2021

Nýtt haglíkan: Hvers vegna skiptir ábyrg hagstjórn máli?

Viðskiptaráð Íslands kynnir nýtt haglíkan sem meðal annars sýnir hvers vegna ...
11. feb 2021

Ógn við efnahagsbatann?

Erfitt er að átta sig á hvernig má ná niður atvinnuleysi í hálaunalandi án þess ...
15. jan 2021