Forgangsraða þarf aðgerðum í loftslagsmálum

Nauðsynlegt er að kostnaðar- og ábatagreinaþær aðgerðir sem ráðast á í svo hægt sé að forgangsraða þeim sem best, bæðisvoaðgerðirnar nái markmiðum ogmeð tilliti tilþess sem er í húfimeð beinum fjárhagslegum hætti.

Viðskiptaráð skilaði inn umsögn um fyrri útgáfu aðgerðaáætlunarinnar. Til upprifjunar voru helstu efnislegu athugasemdir ráðsins eftirfarandi: 

  • Viðskiptalífið, hið opinbera og almenningur verða að vinna saman til að ná markmiðunum 
  • Nauðsynlegt er að kostnaðar- og ábatagreina tillögurnar í áætluninni  
  • Gjöld sem lögð verða á til að ná markmiði áætlunarinnar verða að vera tekjuhlutlaus 
  • Viðskiptaráð telur bann á nýskráningu bensín- og díselbíla skiljanlegt en misráðið 
  • Þær aðgerðir sem gripið verður til mega ekki skerða samkeppnishæfni íslensks viðskiptalífs 

Það sem hefur verið gert 

Í 3. kafla áætlunarinnar er fjallað um það samráð sem fór fram við gerð hennar og ljóst er að það var  víðtækt og fjöldi aðila vinnur að markmiðinu um samdrátt losunar gróðurhúsalofttegunda. Samráð af þessum toga er sérstaklega mikilvægt því álitamálin eru mörg, flókin og verkefnið hefur áhrif á daglegt líf flestra. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að stuðla áfram að breiðu og faglegu samráði og er reiðubúið að leggja sitt af mörkum í þeim efnum.  

Ljóst er að 2. útgáfa áætlunarinnar er skýrari og því er auðveldara að átta sig á aðgerðum og hvað í þeim felst. Þannig má segja að trúverðugleiki hennar hafi aukist til muna. Byggja þarf áfram á þeirri vinnu þar sem margar aðgerðir eru þrátt fyrir allt enn fremur ómótaðar. Almennt má segja að stigin hafi verið stór og mikilvæg skref í rétta átt sem ber að fagna.  

Það sem enn vantar upp á 

Margar leiðir eru færar til að markmiðum áætlunarinnar verði náð og mögulegt er að leggja mismikla áherslu á aðgerðir til að draga úr losun. Gott er að CO2 losun hafi verið metin í þeim tilgangi, en það dugar ekki til. Nauðsynlegt er að kostnaðar- og ábatagreina þær aðgerðir sem ráðast á í svo hægt sé að forgangsraða þeim sem best, bæði svo aðgerðirnar nái markmiðum og með tilliti til þess sem er í húfi með beinum fjárhagslegum hætti. Í því samhengi ber að líta til samkeppnishæfni landsins í viðara samhengi heldur en einvörðungu út frá árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Aðgerðirnar kosta um 46 milljarða króna fyrir ríkið og er þá ótalinn kostnaður sem kann að falla á sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Óforsvaranlegt er að ráðast í svo mikilvæga og umsvifamikla vegferð án þess að tryggja að svo miklir fjármunir nýtist með sem hagkvæmustum hætti.  

Enn er lagt til bann við nýskráningum bensín- og díselbíla. Velta má því upp hvort það sé skynsamlegt og réttara væri að gera rekstur slíkra ökutækja kostnaðarsamari með álagningu gjalda. Viðskiptaráð ítrekar þessar vangaveltur. Þessu til viðbótar kemur til álita hvort slík inngrip séu yfir höfuð nauðsynleg vegna þróunarinnar síðustu misseri. Þróunin í átt að vistvænni bílum er nú þegar gríðarlega hröð og hraðari en margir bjuggust við. Til marks um það voru 25% nýskráðra bifreiða árið 2019 knúnar með annarskonar orkugjafa en jarðefnaeldsneyti að hluta eða öllu leyti, en fyrstu níu mánuði ársins 2020 var hlutfallið 43%. Verði þróunin með sama hraði næstu ár, sem auðveldlega má færa rök fyrir, er stutt í að nær allar innfluttar bifreiðar verði knúnar með öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti, óháð boðum og bönnum. 

Áminning um mikilvægi tekjuhlutleysis 

Urðunarskattur, kolefnisgjald og aðrir skattar eða gjöld sem ætlað er að sporna gegn loftslagsbreytingum munu að öðru óbreyttu leiða til þess að heildartekjur ríkisins aukast. Að mati Viðskiptaráðs er mikilvægt að slík úrræði séu tekjuhlutlaus fyrir ríkið og að skattarnir séu gagnsæir til að þau nái sem bestum árangri. Annars vegar er auðveldara að skapa sátt um slíka skatta, t.d. ef aðrir skattar lækka til mótvægis. Til dæmis frestaðist urðunarskattur eftir mótmæli frá t.d. sveitarfélögum, sem horfðu fram á hreina kostnaðaraukninu. Auðvelt er að ímynda sér að sú frestun hefði ekki komið til ef ráðist hefði verið í mótvægisaðgerðir. Hins vegar verða grænu skattarnir áhrifaríkari með tekjuhlutleysi þar sem mengandi athafnir verða öllu jöfnu hlutfallslega dýrari við það eitt að aðrir skattar lækka. Sé tekjuhlutleysi tryggt er einnig komið í veg fyrir að ríkið reiði sig á græna skatta sem viðbótartekjuöflun. 

Viðskiptaráð leggur til að aðgerðáætlunin verði unnin áfram og sett í framkvæmd að teknu tilliti til ofangreindra athugasemda. 

Tengt efni

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Fjaðramegn ræður flugi

Góð skattkerfi byggja á fyrirsjáanleika. Stöðugleiki skiptir miklu máli þegar ...
28. nóv 2022