Bann við netsölu, takmörkun bragðefna og einsleitar umbúðir er meðal tillagna í frumvarpsdrögum um setningu heildarlöggjafar um nikótín- og tóbaksvörur. Viðskiptaráð telur að slíkar aðgerðir skerði atvinnu- og viðskiptafrelsi, dragi úr hvata til að velja skaðminni valkosti og veiki samkeppnisstöðu innlendra söluaðila gagnvart erlendum netverslunum. Framkvæma þyrfti gagnadrifið mat áður en frekari íþyngjandi löggjöf er sett
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreind frumvarpsdrög. Ráðið skilaði umsögn um málið með Samtökum atvinnulífsins á áformastigi og vísar til hennar eftir því sem við á. [1]
Frumvarpsdrögin fela í sér víðtækar breytingar á rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sem framleiða, flytja inn og selja löglegar nikótínvörur. Með frumvarpinu yrðu nikótínvörur felldar undir löggjöf um tóbaksvarnir, en nú gilda um þær vörur lög nr. 87/2018 og eru undanskildar vörur sem flokkast sem lækningatæki eða lyf samkvæmt lyfjalögum, t.d. nikótíntyggjó. Í frumvarpsdrögunum er kveðið á um að framleiðsla verði leyfisskyld, að sala í gegnum netverslanir verði bönnuð, að bragðefni í nikótínvörum verði verulega takmörkuð og að umbúðir verði einsleitar. Þá er jafnframt boðuð endurskipulagning á eftirliti með smásölu og auglýsingum þessara vara.
Frekari íþyngjandi aðgerðir ótímabærar
Viðskiptaráð bendir á að nái frumvarpsdrögin fram að ganga fælu þau í sér skerðingu á atvinnufrelsi, sem nýtur verndar samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar. Er það grundvallarregla að slík takmörkun byggist á málefnalegum og rökstuddum sjónarmiðum og að gætt sé meðalhófs. Í ljósi þess að þegar hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða í þágu lýðheilsu — svo sem aldurstakmarkana, sýnileika- og auglýsingabanna, staðbundinna takmarkana á notkun og verulegrar hækkunar nikótíngjalds s.l. áramót — er ótímabært að ráðast í frekari og umfangsmiklar íþyngjandi aðgerðir áður en mat hefur farið fram á árangri núgildandi aðgerða.
Ein af röksemdum að baki frumvarpinu er að koma í veg fyrir notkun barna og ungmenna á nikótíni. Rétt er að ítreka að nikótín er þegar bannað þeim sem eru yngri en 18 ára og styður ráðið heilshugar að því banni sé fylgt eftir með öflugu eftirliti, en leggst gegn því að sú leið sé farin að bregðast við neyslu ungmenna á nikótínvörum með því að skerða valfrelsi þeirra sem aldur hafa til að neyta sömu vara.
Óeðlilegt að nikótínvörur falli undir sömu löggjöf og tóbaksvörur
Í 14. gr. frumvarpsdraganna er kveðið á um að óheimilt verði að setja á markað nikótínvörur til reykinga sem innihalda bragðefni önnur en tóbaks- eða mentól. Þá verði óheimilt að setja á markað reyklausar nikótínvörur, s.s. nikótínpúða, sem innihalda bragðefni sem höfða sérstaklega til barna, svo sem sælgætis- eða ávaxtabrögð. Jafnframt verði óheimilt að setja á markað nikótínvörur sem innihalda bragðefni sem óheimil eru samkvæmt ákvæði þessu í einhverjum efnisþætti sem geta breytt lykt eða bragði viðkomandi vöru eða styrkleika reyksins.
Ekki verður séð að réttlætanlegt sé að setja nikótínvörur, sem ekki innihalda tóbak og hafa hjálpað fjölda fólks við að hætta reykingum, undir sömu lög og hefðbundnar tóbaksvörur. Tóbakslausar nikótínvörur eru almennt taldar vægari valkostur og ætti löggjöf að endurspegla þann greinarmun. Að leggja þessar vörur að jöfnu gæti dregið úr hvata neytenda til að skipta yfir í skaðminni valkosti og þannig grafið undan raunverulegum lýðheilsumarkmiðum.
Bann við netsölu myndi veikja samkeppnisstöðu innlendra söluaðila
Þá er lagt til að óheimilt verði að selja tóbaks- og nikótínvörur í netsölu, framleiðsla tóbaks- og nikótínvara sé leyfisskyld og söluaðilum sé skylt að spyrja kaupendur um skilríki. Bann við netsölu myndi jafnframt skerða viðskiptafrelsi verulega og möguleika neytenda til að stunda lögmæt viðskipti með löglegar vörur. Slíkar takmarkanir draga úr samkeppni, hækka verð og ýta undir tilraunir til að leita í óformlega eða jafnvel ólöglega netverslun.
Bannið myndi þó ekki ná til netverslana utan Íslands, svo neytendur á Íslandi gætu enn keypt nikótínvörur með löglegum brögðum frá erlendum netverslunum og fengið afhentar á Íslandi. Reynslan af netsölu með áfengi sýnir að séríslenskt bann þýðir einfaldlega að erlendir netsöluaðilar taka yfir slíka þjónustu á kostnað þeirra innlendu. Netverslunarbannið væri því fyrst og fremst til þess fallið að veikja samkeppnisstöðu innlendra söluaðila gagnvart þeim erlendu og takmarka frelsi einstaklinga til að eiga í viðskiptum með þeim hætti sem þeir kjósa. Sama gildir um fyrirhugað bann við bragðefnum; það skerðir rétt neytenda til að velja þá vöruflokka sem henta þeim best og hefur áhrif á notendur sem kjósa skaðminni vörur með ákveðnum bragðeiginleikum.
Skortur á gagnadrifnu mati
Óheppilegt er að frumvarpsdrögin séu ekki fullunnin og að m.a. kafli um mat á áhrifum í greinargerð sé enn í vinnslu. Þá skortir að mati ráðsins gagnadrifið mat á áhrifum núgildandi laga og aðgerða áður en ráðist er í samningu íþyngjandi löggjafar. Einnig er brýnt að tryggja að sé gerður greinarmunur á vörum sem í eðli sínu eru ólíkar, og að varðveita frelsi í viðskiptum og val neytenda innan ramma lýðheilsuáherslna sem eru málefnalegar og hófstilltar. Sé markmið stjórnvalda að draga úr neyslu á nikótínvörum væri mun nær að líta til þess árangurs sem náðst hefur í að draga úr tóbaksneyslu hér á landi. Sá árangur náðist einna helst með aukinni fræðslu, þar sem áhersla var lögð á að upplýsa einstaklinga um skaðleg áhrif tóbaks, en nikótínvörur og nikótínlyf eiga einnig stóran þátt í þeim árangri.
Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til þess að endurskoða fyrirliggjandi frumvarpsdrög með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum og leggja áherslu á vandað mat á áhrifum þeirra laga og aðgerða sem þegar eru í gildi, áður en ráðist er í frekari íþyngjandi lagasetningu. [2]
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.
1 Sjá umsögn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um áform um frumvarp til laga um varnir gegn tóbaki og nikótíni (júlí 2025). Slóð: https://vi.is/umsagnir/nikotin-umsogn2025.
2 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum (apríl 2025). Slóð: https://vi.is/umsagnir/ihlutun-a-leigumarkaði-dragi-ur-frambodi