Betri leiðir færar á fjölmiðlamarkaði

Viðskiptaráð telur að líta verði til heildarsamhengis á fjölmiðlamarkaði þegar kemur að stuðningi við fjölmiðla. Ekki er hægt að horfa framhjá samkeppnisröskunum sem ríkisstuðningur við RÚV veldur á fjölmiðlamarkaði. Ráðið telur að minnsta kosti þrjár leiðir betri til að bæta stöðu fjölmiðla.

Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn við breytingu á lögum um fjölmiðla. Frumvarpinu er ætlað að kynna til leiks sérstakan ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla sem nemur 400 milljónum króna á ársgrundvelli. Viðskiptaráð leggst gegn úrræðinu enda telur ráðið að frumvarpið líti til of afmarkað á fjölmiðlamarkað og skauti framhjá bjögunum sem stuðningur ríkisins við RÚV velur á fjölmiðlamarkaði.

Ráðið telur jafnframt að forsendur frumvarpsins um tekjur einkarekinna fjölmiðla byggi að sumu leyti á veikum grunni en sá samanburður á tekjum fjölmiðla sem frumvarpið styðst við miðar við árið 2007, en á þeim tíma voru tekjur fjölmiðla óvenjulega háar og því þykir réttara að líta til lengra tímabils við mat á stöðu fjölmiðla í dag.

Viðskiptaráð telur þó rétt að ríkið skoði aðkomu sína að fjölmiðlamarkaði með heildstæðum hætti. Við slíka skoðun þykir ráðinu rétt að benda á þrjár leiðir sem það telur betur til þess fallnar að styrkja stöðu fjölmiðla á Íslandi:

  1. Í fyrsta lagi gæti stjórnvöld dregið Ríkisútvarpið af hefðbundnum auglýsingamarkaði og þrengt hlutverk RÚV þannig fyrirtækið einbeiti sér betur að því menningarlega hlutverki sem því er ætlað að rækja. Ætla mætti að sú leið myndi hvort tveggja bæta samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla og efla grunnstarfsemi RÚV í samræmi við hlutverk þess.
  2. Í annan stað telur Viðskiptaráð tilefni til þess að skða nánar hugmyndir um að leyfa útvarpsgjaldinu að renna að hluta til annarra fjölmiðla en RÚV. Þannig hafa verið viðraðar hugmyndir um að tekið verði upp sambærilegt kerfi og þekkist með sóknargjöld þar sem almenningur gæti á einstaklingsgrundvelli ákveðið til hvaða fjölmiðils útvarpsgjaldið rennur. Sú leið hefur einnig þann kost að nýta mætti þá vinnu sem hefur þegar farið í frumvarpsgerðina sem drög að skilyrðum fyrir hæfi fjölmiðla til þess að þiggja útvarpsgjald.
  3. Í þriðja lagi mætti setja á fót samkeppnissjóð sem hefði það að markmiði að styðja við framleiðslu innlendrar dagskrárgerðar. Slíkir samkeppnissjóðir þekkjast á ýmsum málefnasviðum þar sem stjórnvöld telja samfélagsleg verðmæti að finna en sem dæmi um slíkt er Kvikmyndasjóður Íslands. Þannig myndi RÚV keppa um opinbert fjármagn í slíkri dagskrárgerð á jafnræðisgrundvelli við aðra fjölmiðla í landinu.

Allar hafa framangreindar þrjár leiðir þá kosti sameiginlega að krefjast ekki aukinna fjárútláta hins opinbera, styrkja stöðu fjölmiðla á Íslandi og draga úr raski á samkeppni vegna starfsemi Ríkisútvarpsins.

Hér má nálgast umsögnina í heild sinni.

Tengt efni

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
15. mar 2023

Jafna þarf stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla

Skoðun Viðskiptaráðs á stuðningi við einkarekna fjölmiðla (mál nr. 543)
10. jan 2023

Skoða þarf fleiri hliðar á samkeppnisumhverfi íslenskra fjölmiðla

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið.
16. feb 2022