Brýnt að auka orkuframleiðslu

Að mati Viðskiptaráðs skýtur það skökku við að færa virkjunarkosti í verndarflokk þegar endurskoðun laga um rammaáætlun stendur yfir.

Tenglar

  Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að flokkun fimm virkjunarkosta. Ráðið tekur jafnan ekki efnislega afstöðu til einstakra virkjunarkosta í mati verkefnastjórnar en vill þó koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.  

  Markmið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, jafnan nefnd rammaáætlun, er að tryggja að nýting landsvæða byggist á langtímasjónarmiðum og víðtæku samráði um verndargildi náttúru og menningar, hagkvæmni og arðsemi. Þar eru virkjunarkostir flokkaðir í nýtingar-, bið- og verndarflokk. Ráðið telur að þessi lög séu hætt að þjóna markmiðum sínum. Mats- og flokkunarferlið er tímafrekt, ófyrirsjáanlegt, ógagnsætt og kostnaðarsamt. Á sama tíma hafa lögin ekki náð að stuðla að breiðari sátt um virkjunarkosti en áður fyrr. 

  Ráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun laganna, enda hefur reynsla síðustu ára sýnt að núverandi fyrirkomulag dugir ekki til að tryggja orkuöflun í nægjanlega ríkum mæli. Á meðan önnur Evrópulönd vinna að því hörðum höndum að einfalda regluverk til að hraða aukinni raforkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum erum við ennþá föst í óskilvirku ferli sem virðist geta tekið óendanlega langan tíma.  

  Orkuöflun verður að aukast í takt við vöxt íslensks samfélags ef lífskjör á Íslandi eiga ekki að gefa eftir. Hvergi í heiminum fyrirfinnst ríki sem býr við góð lífskjör og litla orkunotkun. Við núverandi aðstæður, þegar stjórnvöld hafa lýst því yfir að endurskoðun standi yfir með það fyrir augum að hraða orkuöflun, skýtur skökku við að færa virkjunarkosti í verndarflokk. Að mati Viðskiptaráðs færi því betur á því að halda Hamarsvirkjun í biðflokki – þá væru störf verkefnastjórnar ekki í beinu ósamræmi við yfirlýstan vilja framkvæmdavaldsins. 

  Aukin orkuframleiðsla er forsenda aukinnar verðmætasköpunar, fjölbreyttrar atvinnustarfsemi og jákvæðrar byggðaþróunar. Samkvæmt nýlegri raforkuspá Landsnets duga núverandi áform um nýjar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir og stækkanir núverandi virkjana ekki fyrir orkuskiptum. Því er enn brýnna að ráðuneytið komi á nýju einföldu og skilvirku kerfi sem tryggir hagkvæma og sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda.  

  Viðskiptaráð áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á síðari stigum. 

  Virðingarfyllst,
  María Guðjónsdóttir
  Lögfræðingur Viðskiptaráðs

  Lesa umsögn Viðskiptaráðs

   

  Tengt efni

  Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlunar (virkjunarkostir í vindorku)

  Viðskiptaráð Íslands hefur staðfastlega hvatt stjórnvöld til þess að greiða ...

  Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

  Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
  23. feb 2024

  Umsögn um drög að frumvarpi um loftslags- og orkusjóð

  Viðskiptaráð skilaði á dögunum inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um ...
  21. mar 2024