Einföldun á fjárhagslegri endurskipulagningu til bóta

Þörf er á nýju úrræði, ólíku því sem tekið var upp í lok fjármálahrunsins, úrræði sem tryggir að fullnægjandi vissa sé um afleiðingar fjárhagslegrar endurskipulagningar en á sama tíma sé komið í veg fyrir að sú staða geti komið upp að tap rekstraraðila verði skattlagt við fjárhagslega endurskipulagningu.

Viðskiptaráð hefur sent inn umsögn um frumvarp til laga um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja (mál nr. 814) . Ráðið styður það mikilvæga markmið frumvarpsins að veita lífvænlegum fyrirtækjum aðstoð á meðan að kórónuveiran gengur yfir. Á þeim hamfaratímum sem nú er uppi er nauðsynlegt að lagaumgjörð geti lagað sig hratt að aðstæðum og að rýmkaðar heimildir bjóði upp á sveigjanleika að því marki sem æskilegt er. Viðskiptaráð fagnaði því þeirri tilkynningu ríkisstjórnarinnar að reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja yrðu tímabundið einfaldaðar til að koma til móts við fyrirtæki sem eru í bráðavanda vegna veirunnar. Í frumvarpinu má finna jákvæðar breytingar sem Viðskiptaráð telur til bóta, og mætti jafnvel skoða það að leiða einhverjar þeirra í lög um gjaldþrotaskipti til frambúðar. Viðskiptaráð hefur eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið:  

  • Skilyrði fyrir heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar mega ekki vera of þröng 
  • Skýra þarf skilyrði um tekjufall fyrirtækja  
  • Breyta ætti reglum um skattlagningu af eftirgjöf skulda í kjölfar þess að frumvarp þetta verður að lögum  

Heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar 

Í 2. gr. er að finna skilyrði fyrir heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Viðskiptaráð telur mikilvægt að úrræðin nýtist þeim fyrirtækjum sem lent hafa í rekstrarvanda vegna kórónuveirunnar en ekki vegna annarra aðstæðna. Þó skiptir máli að skilyrðin séu ekki of þröng svo tryggja megi að þau raunverulega nýtist þeim fyrirtækjum sem eru í bráðavanda vegna veirunnar.  

Í 2. tölulið 2. gr. kemur fram það skilyrði að atvinnustarfsemi aðila sem sækjast eftir úrræðinu þarf að hafa byrjað ekki síðar en 1. desember 2019. Viðskiptaráð telur skilyrðið óþarft og telur einnig skorta rökstuðning fyrir því að úrræðið eigi einungis að nýtast fyrirtækjum stofnuðum fyrir þetta tiltekna tímamark. Ráðið telur að önnur skilyrði dugi til þess að útiloka fyrirtæki sem ekki eiga að nýta sér úrræðin.  

Í 3. tölulið 2. gr. kemur fram það skilyrði að skuldari þurfi að hafa greitt fleiri en einum manni laun í desember 2019 og janúar og febrúar 2020 sem svari hið minnsta til lágmarkslauna fyrir fullt starf í hverjum þessara mánaða. Þetta skilyrði útilokar það að einyrkjar geti nýtt sér úrræðið. Viðskiptaráð telur mikilvægt að úrræðið nái einnig til einyrkja þar sem þeir hafa líkt og önnur fyrirtæki orðið fyrir áfalli vegna kórónuveirunnar. Því ætti að aðlaga texta ákvæðisins svo að það nægi að skuldari hafi greitt einum eða fleiri manni laun fyrrgreinda mánuði.  

Í 4. tölul. 2. gr. er gerð krafa um að tekjur fyrirtækja hafi dregist saman ákveðið mikið vegna kórónuveirunnar. Útreikningar á samdrætti tekna miðast við að mánaðarlegar heildartekjur hafi frá 1. mars 2020 dregist saman um 75% eða meira. Er þá miðað við að a) tekjur frá 1. mars 2020 hafi dregist saman um 75% eða meira miðað við meðaltal mánaðanna desember 2019 og janúar og febrúar 2020 eða að b) tekjur síðustu þriggja mánaða áður en sótt er um úrræðið hafi dregist saman um a.m.k. 75 hundraðshluta í samanburði við sömu mánuði árið 2019 eða að c) fyrirsjáanlegt er að heildartekjur af starfseminni á næstu þremur mánuðum frá því að sótt er um úrræðið verði a.m.k. 75 hundraðshlutum minni í samanburði við sama tíma á árinu 2019. Viðskiptaráð telur að rýmka mætti þetta skilyrði hvað tekjufall varðar en 75% tekjufall er frekar hátt og gætu fyrirtæki sem hafa orðið fyrir minna tekjufalli vegna veirunnar allt eins haft brýna þörf á því að nýta sér úrræðið. Það er sérstaklega mikilvægt því áhrif veirunnar á flesta starfsemi komu ekki fram af þunga fyrr en um miðjan marsmánuð þegar samkomubönn og ferðatakmarkanir tóku gildi. 

Þá virðist vera í boði að velja milli þriggja leiða við mat á því hvort tekjufall fyrirtækja sé fullnægjandi til að mæta skilyrðum úrræðisins. Viðskiptaráð telur það af hinu góða að bjóða upp á fjölbreytt viðmið hvað tekjufall fyrirtækja varðar en skýra þarf þó ákvæðið betur með tilliti til síðastnefndu leiðarinnar, þ.e.a.s. þar sem miðað er við að fyrirséð sé að tekjur fyrirtækis dragist saman um 75% næstu þrjá mánuði frá umsókn miðað við sama tíma á árinu 2019. Ekki er skýrt hvernig fyrirtæki gætu sýnt fram á þetta með óyggjandi hætti. Þá er sérstök þörf á að þetta sé skýrt með tilliti til þess hversu mörg fyrirtæki munu að öllum líkindum kjósa að nýta sér þessa leið vegna þeirra árstíðabundnu sveiflna sem eru í þeirra rekstri. Þá telur ráðið einnig mikilvægt hvað fyrstu leiðina varðar, að sé ekki miðað við tímamarkið 1. mars, réttara væri að miða við tekjufall fyrirtækja frá 15. mars í ljósi þess að áhrifa veirunnar fór helst að gæta eftir þann tíma hérlendis.  

Skattlagning af eftirgjöf skulda  

Samhliða tímabundinni einföldun á reglum um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja ætti að breyta tímabundið reglum um skattlagningu af eftirgjöf skulda. Þetta er mikilvægt svo fyrirtækjum verði endurskipulagning möguleg án þess að þau fái í bakið reikning fyrir skatti af launum ofan á allt tapið. Þetta ætti að vera liður í því að aðstoða þann gífurlega fjölda fyrirtækja sem lenda í bráðavanda vegna COVID-19. Í kjölfar fjármálahrunsins var ráðist í tímabundnar breytingar á þessu fyrirkomulagi og leidd í tekjuskattslög bráðabirgðaákvæði sem voru þó gagnrýnd fyrir það að hafa ekki skilað markmiðum sínum. Þörf er á nýju úrræði, ólíku því sem tekið var upp í lok fjármálahrunsins, úrræði sem tryggir að fullnægjandi vissa sé um afleiðingar fjárhagslegrar endurskipulagningar en á sama tíma sé komið í veg fyrir að sú staða geti komið upp að tap rekstraraðila verði skattlagt við fjárhagslega endurskipulagningu. Viðskiptaráð hvetur því til þess að reglum um skattlagningu af eftirgjöf skulda sé breytt í kjölfar þess að frumvarp þetta verður að lögum.  

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga með tilliti til ofangreindra athugasemda. Þá er ráðið reiðubúið að skýra þessa umsögn nánar sé þess óskað.  

Tengt efni

Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...
15. mar 2023

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022

Nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi kauprétta

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (mál nr. 432)
6. des 2022