Stefna til óstöðugleika og ósjálfbærni?

Beita þarf ríkisfjármálum af skynsemi við núverandi aðstæður og setja endurreisn atvinnu- og efnahagslífs í forgang.

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn vegna þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022. (Mál nr. 968) umsögn. Afar mikilvægt er að ríkisfjármálunum sé beitt með skynsamlegum hætti, bæði hvað varðar forgangsröðun og ekki síst að litið sé á afkomuna sem jafnvægislist. Of lítill halli og mikið aðhald getur dýpkað efnahagsdýfuna rétt eins og of mikill halli getur skapað ójafnvægi í hagkerfinu og kynt undir verðbólgu. 

  • Beita þarf ríkisfjármálum af skynsemi við núverandi aðstæður og setja endurreisn atvinnu- og efnahagslífs í forgang. 
  • Af fjármálstefnunni að dæma stefnir í viðvarandi halla og að slakinn í ríkisfjármálum vaxi áfram eftir að efnahagsbatinn hefst. 
  • Til að gengisspáin sem fjármálastefnan hvílir á gangi upp þarf gengi krónunnar arð styrkjast um 7% til ársloka. Ef ekki, eru verðbólguhorfur lakari en gert er ráð fyrir. 

Endurreisn atvinnu- og efnahagslífs í forgang 

Í þeim alvarlegu efnahagsþrengingum sem nú dynja yfir geta ríkisfjármálin gegnt mikilvægu hlutverki í að milda höggið. Staða efnahagsmála nú í aðdraganda áfallsins er slík, að forsendur eru fyrir því að ríkissjóður mildi höggið sem hefur þá birtingarmynd að ríkissjóður verður rekinn með halla upp á 11-13% af landsframleiðslu í ár. 

Að reka ríkissjóð með miklum halla er eitt og sér engan veginn nægjanlegt. Miklu máli skiptir hvernig ríkisfjármálunum er beitt og að stjórnvöld hafi skýra sýn á hlutverk þeirra í hagstjórninni. Í vor réðust stjórnvöld í aðgerðir til að bregðast við neyðarástandi í algjörri óvissu eftir að staðan breyttist svo gott sem á einni nóttu. Óvissan er enn mikil en hefur þó minnkað og tími neyðarráðstafana er liðinn. Núna er rétti tíminn til að setja aðgerðir til endurreisnar hagkerfisins í forgang.  

Hækkun atvinnuleysisbóta og annað sambærilegt sem kallað hefur verið eftir að undanförnu er ekki til þess fallið að leysa þau grundvallarvandarmál sem felast í atvinnuleysi sem nálgast tveggja stafa tölu og hruni í gjaldeyristekjum og verðmætasköpun almennt. Þess vegna þarf að setja í forgang aðgerðir, í ríkisfjármálum sem og annars staðar, sem leysa þau vandamál með beinni hætti og stuðla þannig að endurreisn atvinnu- og efnahagslífs. Skapa þarf sem mesta hvata til að skapa fjölbreytt störf. Þannig getur atvinnuleysi minnkað, verðmætasköpun aukist og hægt er að koma í veg fyrir alvarlegustu afleiðingar langtímaatvinnuleysis. 

Viðvarandi halli í kortunum? 

Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði neikvæð sem nemur 11% af landsframleiðslu í ár og að auki er óvissusvigrúm fyrir 2% meiri halla. Það sem vekur sérstaka athygli er að hallinn mun lítið batna á næsta ári og verða 9%, þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir 4,9% hagvexti. Að óbreyttu virðist því sem ríkisfjármálin muni ekki einungis sýna slaka á komandi árum heldur að sá slaki fari vaxandi eftir að viðspyrnan hefst. Að gefnum einföldum forsendum um samspil tekna og gjalda, sem fela í sér að heildarskattbyrði árið 2022 verði áþekk því sem var á síðustu árum, er útlit fyrir áframhaldandi raunútgjaldavöxt á næsta ári, líkt og fram kemur í greinargerð (mynd 1). Að gefnum þessum forsendum munu ríkisútgjöld því hækka um 204 milljarða króna að raunvirði á aðeins þriggja ára tímabili. Þar sem landsframleiðsla árið 2022 verður komin á svipaðar slóðir og árið 2019, en hallinn verður enn 7% af landsframleiðslu (jafnvel 10% skv. óvissusvigrúmi), má leiða að því líkur að stefnt sé á viðvarandi halla á ríkissjóði eftir að fullu atvinnustigi hefur verið náð. Þessu til stuðnings má nefna að í sviðsmyndagreiningu fjármálaráðuneytisins í maí, sem byggir á áþekkum hagvaxtartölum, var hallinn mun minni árið 2022 eða rúmlega 4% af VLF. 

Ofangreint skiptir máli því það bendir til að sú mynd sem teiknuð er upp í fjármálastefnunni virðist illa samræmast grunngildum stefnumörkunar í opinberum fjármálum skv. lögum: Sjálfbærni og stöðugleika. Verði hallinn svo þrálátur og mikill er hætta á að ríkið ýti undir eftirspurnarvöxt sem ekki eru efnahagslegar forsendur fyrir, með tilheyrandi óstöðugleika, verðbólgu og hærra vaxtastigi en ella. Mögulega gæti lausnin falist í því að stefna á minni halla á afkomu ríkissjóðs frá og með næsta ári, en á móti auka óvissusvigrúmið lítillega þar sem efnahagsbatinn gæti hæglega dregist á langinn með tilheyrandi vexti hallareksturs. 

Þá skal nefnt, líkt og Viðskiptaráð hefur áður gert, að sterk rök hníga að því að miða frekar, eða einnig, við hagsveifluleiðrétta afkomu ríkissjóðs í fjármálastefnunni. Þannig væri t.d. skýrt hvort og að hve miklu marki það sem rakið er hér að framan eigi við rök að styðjast. 

Gert ráð fyrir 7% gengisstyrkingu til ársloka í spá Hagstofunnar – hvers vegna? 

Í nýuppfærðri hagspá Hagstofu Íslands, sem liggur til grundvallar fjármálastefnunni, er gert ráð fyrir að gengisvísitala krónunnar verði að jafnaði 9,3% hærri í ár en í fyrra (gengið veikara). Til að það gangi upp, miðað við stöðu krónunnar 27. ágúst, þarf gengi krónunnar að styrkjast um ca. 7% til ársloka og samanlagt um 8% til ársloka 2021 (mynd 2). Haldist gengið aftur á móti óbreytt út árið liggur fyrir að gengið verður 11,8% veikara en í fyrra. 

Þessi forsenda vekur nokkra furðu en skýrist líklega að einhverju leyti af því á hvaða tíma gengið var fest skv. spánni. Í öllu falli er mikilvægt að minna á að veikara gengi krónunnar þýðir að óbreyttu hærri verðbólgu en gert er ráð fyrir í spá Hagstofunnar sem fjármálastefnan byggir á. Í því ljósi er enn mikilvægara að hugað sé að góðu jafnvægi í ríkisfjármálunum á næstu misserunum þannig að þau verði ekki of losaraleg með tilheyrandi óstöðugleika og verðbólgu. 

Viðskiptaráð leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt að teknu tilliti til ofangreindra athugasemda 

Tengt efni

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022

Sigur leiðindanna

Ókeypis peningar hafa í raun aldrei verið til
26. okt 2022

Virkjum fallega

Skiptar skoðanir eru um raforkuframleiðslu á Íslandi. Dæmin sanna að ...
24. ágú 2022