Hagkvæmari leikreglur til bættra lífskjara

Regluverk leggst þyngst á smærri fyrirtæki, þar sem þau hafa síður bolmagn til að starfa í flóknu rekstrarumhverfi en þau sem stærri eru.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi til laga er varðar einföldun regluverks og stjórnsýslu á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Viðskiptaráð telur frumvarpið til bóta og að breytingarnar feli í sér töluverða einföldun, aukna skilvirkni innan stjórnsýslunnar og að það minnki óþarfa kostnað.

Einföldun regluverks

Viðskiptaráð fagnar þeim breytingum á skilyrðum útgáfu rekstrarleyfa til starfrækslu fiskeldisstöðva að mögulegt verði að gera hluta starfseminnar skráningarskylda. Að mati ráðsins er þörf á því að skráningarskylda komi víðar í stað leyfisskyldu í  íslenskri löggjöf. Leyfisskylda er íþyngjandi hérlendis og er hennar krafist í mun fleiri tilfellum en tíðkast í nágrannalöndum Íslands. Jafnvel eru dæmi um að fyrirtæki þurfi að sækja mörg leyfi á ólíka staði eða að leita þurfi umsagna frá mismunandi stofnunum. Þetta tekur allt sinn tíma,  með tilheyrandi kostnaði. Mikilvægt er að leyfisskylda sé ekki meira íþyngjandi en þörf krefur og í þegar skráningarskylda nægi sé ekki gengið lengra.

Viðskiptaráð telur þá breytingu til bóta að leyfi séu í tilteknum flokkum gerð ótímabundin líkt og 21. gr. frumvarpsins felur í sér.  Í núgildandi kerfi eru leyfin veitt til tólf ára í senn og mögulegt að sækja um endurnýjun að þeim tíma liðnum. Að veita heimild til ótímabundinna leyfa mun lækka kostnað og skriffinnsku þeirra fyrirtækja sem þurfa á leyfunum að halda og auka fyrirsjáanleika í rekstri þeirra að þessu leyti. Þessu þyrfti jafnframt að breyta víðar í löggjöfinni, þar sem oft er gengið er lengra í þessum efnum en þörf krefur.

Aðrar breytingar í frumvarpinu til að auka skilvirkni og stjórnsýslu og einfalda ferla gagnvart umsækjendum eru einnig til mikilla bóta. Ísland er eftirbátur Norðurlandanna þegar kemur að því hve einfalt er að eiga í viðskiptum (e. ease of doing business).[1] Þau lönd sem hafa bætt sig á undanförnum árum og komist ofar á lista Alþjóðabankans eru ríki sem hafa gert miklar breytingar til að einfalda ferlið við að stofna fyrirtæki og draga úr umfangi leyfisskyldu og reglna sem snúa að eftirliti. Ísland er ekki meðal ríkja sem hefur bætt sig á þeim sviðum, en fjölmörg tækifæri eru fyrir hendi til að svo geti orðið á næstu árum. Viðskiptaráð telur þetta frumvarp og vinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins mikilvægan lið í þeirri vinnu, en betur má ef duga skal, og hvetur ráðið stjórnvöld til áframhaldandi vinnu á þessu sviði þar sem af nógu er að taka.

Hagkvæmari leikreglur til bættra lífskjara

Regluverk á Íslandi er of íþyngjandi, hvort tveggja í sögulegu samhengi og með tilliti til alþjóðlegs samanburðar. Slíkt má sjá á sögulegri þróun, alþjóðlegum samanburði og íþyngjandi innleiðingu EES-reglna, sem allt leiðir til þess að regluverk á Íslandi er meiri byrði á fyrirtæki en í nágrannalöndum okkar. Viðskiptaráð hefur fjallað um þetta,  í riti sínu Hið opinbera, og víðar.[2] Ráðið hefur í gegnum árin ítrekað að stjórnvöld verði að bregðast við þessari þróun til að auka samkeppnishæfni Íslands og skapa sem hagfelldasta umgjörð fyrir verðmætasköpun. Stjórnsýsla, regluverk og eftirlit verða að styðja betur við það markmið.

Hagkvæmari leikreglur leiða til bættra lífskjara og eru til þess fallnar að ýta undir nýliðun og samkeppni á innlendum mörkuðum. Regluverk leggst þyngst á smærri fyrirtæki, þar sem þau hafa síður bolmagn til að starfa í flóknu rekstrarumhverfi en þau sem stærri eru. Einfaldara regluverk dregur þannig úr aðgangshindrunum og auðveldar nýjum aðilum að efna til samkeppni við þá aðila sem fyrir eru á samkeppnismörkuðum. Að sama skapi dregur einföldun regluverks úr kostnaði hins opinbera við frekari reglusetningu og eftirliti til að tryggja að nýju regluverki sé fylgt. Hvort tveggja er til þess fallið að auka framleiðni líkt og rannsóknir benda til.[3] Í samanburði við þau ríki sem við lítum gjarnan til hefur íslenskt regluverk dregist aftur úr þegar kemur að því að tryggja fyrirtækjum hagfellt viðskiptaumhverfi. Þá þróun verður að stöðva, svo samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs á alþjóðamarkaði sé tryggð.

Viðskiptaráð hvetur til þess að frumvarpið nái fram að ganga.

[1]Sjá úttekt Alþjóðabankans hér: https://www.doingbusiness.org/en/reports/global-reports/doing-business-2019
[2] Sjá Skoðun Viðskiptaráðs: Gömul vísa en ekki of oft kveðin: Regluverk á Íslandi er of íþyngjandi https://medium.com/@vidskiptarad/einfoldun-regluverks-3a59782271a1

[3]Costa, L. F., & St Aubyn, M. (2012). The macroeconomic effects of legal-simplification programmes

Tengt efni

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Umsögn um sameiningu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Umsögn Viðskiptaráðs um sameiningu stofnana umhverfis-, orku- og ...

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023