Kröfur sem hindra samkeppni á leigubifreiðamarkaði

Umsögn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um drög að reglugerð um leigubifreiðaakstur (mál nr. 60/2023)

Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins (VÍ og SA) hafa tekið til umsagnar drög að reglugerð um leigubifreiðaakstur. Reglugerðin verður sett á grundvelli nýrra laga um leigubifreiðaakstur nr. 120/2022 sem taka gildi þann 1. apríl næstkomandi, en VÍ og SA skiluðu umsögnum um frumvarpið á sínum tíma. VÍ og SA fagna því að auka eigi frjálsræði á leigubílamarkaði og löngu tímabærum breytingum á lögunum til hagsbóta fyrir neytendur. Mikilvægt er þó að umgjörðin í kringum breytingarnar sé skýr til þess að þjóna markmiði laganna um að opna leigubifreiðamarkaðinn og auka frjálsræði, en viss atriði eru enn hindrun í því að auka í raun samkeppni á leigubifreiðamarkaði.

Námskeið hindrun í vegi leyfishafa

Í 5. og 6. gr. nýrra laga um leigubifreiðaakstur eru sett skilyrði fyrir útgáfu atvinnu- og rekstrarleyfa. Þar er meðal annars farið fram á að leyfishafi hafi viðeigandi starfshæfni eins og nánar skal kveðið á um í reglugerð. Í viðeigandi starfshæfni felst að viðkomandi hafi fullnægjandi ökuréttindi, hafi setið tilskilin námskeið um leigubifreiðaakstur, rekstur, bókhald, skattskil o.fl. og staðist próf. Í b-lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðardraganna segir að umsókn um rekstrarleyfi skuli að jafnaði fylgja staðfesting á starfshæfni. VÍ og SA gera athugasemd við þetta skilyrði og hvetja ráðherra til að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi. Fyrrgreindar menntunarkröfur leyfishafa útheimta bæði talsverð tíma- og fjárútlát. Námskeiðsgjald samkvæmt verðskrá ökuskólans í Mjódd eru 182.000 kr., og er námskeiðið samtals 21 klukkustund.

Vissulega er mikilvægt að leyfishafar geti tryggt eigið öryggi og farþega sinna og eðlilegt að gera kröfu um lágmarksþekkingu sem þjónar því markmiði, t.a.m. þekkingu í skyndihjálp, þjónustu fyrir fatlaða farþega, ofl. VÍ og SA telja þó að í kennsluskránni komi ýmislegt fram sem teljist þessum atriðum alls óviðkomandi. Þannig má nefna dæmi um námskeið í fagmannlegri framkomu, hegðun, virkri hlustun og sjálfsmynd. Einnig námskeið fyrir rekstrarleyfishafa í bókhaldi, rekstri, almennri heilsueflingu og hreinlæti. Í samkeppnisgreiningu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) frá árinu 2020 á ferðaþjónustu var fjallað sérstaklega um þetta leyfisskilyrði og fjallaði OECD sérstaklega um að fyrrgreind atriði væru að þeirra mati ekki nauðsynleg skilyrði fyrir útgáfu atvinnuleyfis, þótt þau kunni að vera hagnýt.

VÍ og SA taka undir þessar athugasemdir. Það eru engin haldbær rök fyrir því að menntunarkröfur og námskeið séu dýrari, tímafrekari eða ítarlegri en nauðsyn krefur til þess að tryggja almannahagsmuni. Kröfurnar skapa óþarfa aðgangshindranir sem eru til þess fallnar að draga úr samkeppni. VÍ og SA leggja því til að ráðherra sjái til þess að fyrrnefnd námskrá Samgöngustofu sé tekin til endurskoðunar, en námskráin er frá árinu 2005 og augljóslega hvorki í takt við markmið nýrra laga né nútímann.

Tengt efni

Viðskiptaráð ítrekar ábendingar um atriði sem stríða gegn almannahagsmunum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (167. mál).
20. okt 2022

Ómálefnaleg mismunun og dregið úr fjölbreytni

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til áfengislaga (mál nr. 596)
9. jún 2022

Stígum skrefið til fulls - öllum til hagsbóta

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (mál nr. 470)
2. jún 2022