Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga (mál nr. 59/2023).

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar áform um lagasetningu til þess að rýmka reglur um dvalar- og atvinnuréttindi útlendinga. Viðskiptaráð fagnar þessum áformum, en ráðið hefur lengi verið talsmaður þess að nauðsynlegt sé að gera breytingar á umgjörð erlendra starfsmanna hérlendis.

Uppbygging öflugra vinnustaða og samkeppnishæfs vinnumarkaðar leikur lykilhlutverk í samkeppnishæfni Íslands. Samkvæmt IMD sitja Íslendingar í 33. sæti af 63 þjóðum á lista yfir samkeppnishæfni vinnumarkaða, síðastir meðal Norðurlandaþjóða. Fyrir áratug var Ísland níu sætum ofar, næstefst Norðurlanda og því ljóst að verulega hefur dregið úr samkeppnishæfninni. Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað, en hann er forsenda þess að halda í starfsfólk og laða að erlenda sérfræðinga.

Þörf á sérfræðingum til áframhaldandi vaxtar

Við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að víða vantar starfsfólk, tæplega helmingur fulltrúa fyrirtækja á Íslandi sagðist búa við manneklu samkvæmt könnun Gallup og Samtaka atvinnulífsins í fyrra. Þessi þróun ætti þó ekki að koma á óvart því samhliða vaxandi umfangi vinnumarkaðarins hefur fæðingartíðni farið lækkandi og stendur ekki undir vexti hagkerfisins en þetta hefur aukið á skortinn. Þá er ekki fyrirséð að vandinn verði leystur í bráð, en á næstu fjórum árum nemur náttúruleg fjölgun vinnuafls um 3000 stöðugildum, lausum störfum fjölgar um 15.000 og 12.000 manns vantar þannig til að brúa bilið. Ein leið til að takast á við skortinn er sjálfvirknivæðing starfa en slík breyting á sér ekki stað á einni nóttu. Þess vegna þarf að brúa bilið með aðfluttu vinnuafli. Samtök iðnaðarins hafa bent á að fyrirtæki í hugverkaiðnaði vanti 9.000 sérfræðinga á næstu fimm árum ef vaxtaráform eiga að ganga eftir. Því er nauðsynlegt að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga til landsins.

Rýmkun á reglum um dvalar- og atvinnuréttindi

Ítrekað hefur verið bent á hversu flókið það getur reynst að flytja og hefja störf hér á landi. Þrátt fyrir það höfðu 67% aðildarfélaga Viðskiptaráðs ráðið til sín erlent vinnuafl á tímabilinu maí 2021 til maí 2023, en telja þeir þó að margt megi bæta í ferlinu. Þrátt fyrir að vandamálin liggi á fjölda málefnasviða er þó nauðsynlegt að byrja á því að einfalda ferlið við að fá dvalar- og atvinnuleyfi. Leið starfsfólks frá löndum utan EES inn á íslenskan vinnumarkað hefur hingað til verið mjög flókin. Ferlið byggist á óskýru mati og mjög þröngar skorður settar fyrir veitingu atvinnuleyfa. Seinlegt afgreiðsluferli dvalar- og atvinnuleyfa getur leitt til þess að Ísland verði undir í samkeppni um erlenda sérfræðinga. Því er fagnaðarefni að sjá að rýmka eigi reglur um dvalar- og atvinnuréttindi útlendinga í því skyni að einfalda erlendum sérfræðingum utan EES að setjast að hér. Viðskiptaráð styður að öllu leyti þær tillögur sem starfshópurinn leggur til undir þessum lið en telur rétt að staldra við þá tillögu að sjálfstæðum atvinnurekendum sé gefið færi að fá atvinnuleyfi. Viðskiptaráð telur mikilvægt að sú skilgreining sem miðað verði við hér sé ekki of þröng. Þannig er tekið dæmi í skýrslu starfshópsins um að umsækjandi þyrfti að sýna fram á að hann gegni virku og nauðsynlegu hlutverki við rekstur fyrirtækisins, en sé til dæmis ekki einungis hluthafi. Viðskiptaráð sér ekki ástæðu til að takmarka leyfi með þessum hætti og telur ávinning í því að útiloka ekki t.a.m. fjárfesta í fyrirtækjum þótt þeir geti ekki sýnt fram á að þeir gegni nauðsynlegu hlutverki við rekstur fyrirtækisins. Erlendir fjárfestar sem sérhæfa sig í fjárfestingum í fyrirtækjum á fyrstu stigum eru mikilvægur hlekkur í þróun nýsköpunarfyrirtækja. Þannig hafa t.d. önnur ríki horft til þess að einfalda fjárfestum sem hyggjast fjárfesta í fyrirtækjum möguleika á að setjast þar að, t.a.m. Frakkland, sem hefur innleitt svokallað „hæfileikavegabréf“ (e. Talent passport) sérstaklega ætlað fjárfestum (e. Business investor).[1] Viðskiptaráð bindur því vonir við að ekki sé lögð til grundvallar of þröng skilgreining við mótun atvinnuleyfis sjálfstæðra atvinnurekenda.

Aðrar tillögur af hinu góða en eftirfylgni á öðrum sviðum mikilvæg

Viðskiptaráð bindur vonir við að tillögur starfshópsins verði innleiddar hratt og örugglega. Þá telur Viðskiptaráð mikilvægt að samhliða þessari innleiðingu verði ráðist í aðgerðir á öðrum sviðum sem skipta miklu máli til þess að samfélagið geti tekið á móti erlendu starfsfólki og fjölskyldum þeirra.

  • Þannig er t.a.m. brýnt að efla aðgengi að alþjóðlegri menntun hérlendis á öllum menntastigum, frá grunnskóla upp í háskóla.
  • Þá þarf einnig að sjá til þess að skattalegir hvatar og umsóknarferli þeirra sé aðlaðandi og fljótafgreitt ferli.
  • Viðskiptaráð hvetur einnig stjórnvöld til að skoða samspil leyfisveitingarferlisins og mögulegra hindrana við mat á menntun og reynslu umsækjenda um atvinnuréttindi, þar sem hið opinbera reiðir sig á mat fagfélaga í einstökum atvinnugreinum, og aðrar hugsanlegar hindranir, t.d. vegna krafna um íslenskukunnáttu.

Að lokum hvetur ráðið stjórnvöld til að bæta upplýsingagjöf til fólks sem hefur áhuga á að setjast að og starfa á Íslandi, en slíkar upplýsingar eru nú of dreifðar og óaðgengilegar.  Koma mætti upp aðgengilegri umsóknar- og upplýsingagátt, sambærilega við vef danskra stjórnvalda, Ny i Danmark,  þar sem umsækjendur eru leiddir á einfaldan máta í gegnum viðeigandi umsóknarferli.

  1. Sjá hér

Tengt efni

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023