Skoða þarf fleiri hliðar á samkeppnisumhverfi íslenskra fjölmiðla

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Ráðið hefur lengi látið sig rekstrarumhverfi fjölmiðla varða og þá sérstaklega hvernig stjórnvöld hafa skekkt samkeppnisstöðu á markaðnum með rekstri eigin miðla. Frumvarpið er því skref í rétta átt fyrir stjórnvöld til að endurmeta aðkomu sína að fjölmiðlamarkaði. Frjáls fjölmiðlun hefur alla tíð staðið höllum fæti gagnvart Ríkisútvarpinu, bæði vegna skylduáskriftar að því og fyrirferð ríkismiðlanna á auglýsingamarkaði.

Markmið frumvarpsins er að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki með því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði í tveimur skrefum. Viðskiptaráð styður þessa fyrirætlan heilshugar. Að mati ráðsins verður samkeppnisumhverfið í kjölfarið heilbrigðara og jafnara og auknar líkur standa til virkrar samkeppni. Í kjölfarið skapast Ríkisútvarpinu svigrúm til að sinna jafnvel betur menningarhlutverki sínu sem kveðið er á um í lögunum, án þess að þurfa að haga dagskráráherslum sínum þannig að þær laði að sér auglýsingar.

Vandi frjálsra fjölmiðla á Íslandi er mikill og aðkallandi. Þar snýst samkeppnin ekki eingöngu um auglýsingamarkað heldur almennt þá forgjöf sem Ríkisútvarpið hefur í krafti yfirburðastöðu sem ríkisvaldið veitir með því að tryggja því aðgang að almannafé með útvarpsgjaldinu. Íslenskir einkareknir miðlar eru ekki eingöngu í samkeppni við Ríkisútvarpið, heldur einnig við alþjóðlegar efnisveitur og sú samkeppni fer vaxandi. Eigi íslenskir framleiðendur dagskrárefnis að eiga kost á því til framtíðar að eiga aðra viðsemjendur en Ríkisútvarpið, og íslenskir neytendur val um fleiri valkosti, þarf því að skoða fleiri hliðar á samkeppnisumhverfi íslenskra fjölmiðla en það sem snýr að auglýsingamarkaði, þó það sé vissulega skref í rétta átt.

­­Viðskiptaráð hvetur til þess að frumvarpið nái fram að ganga.

Tengt efni

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
15. mar 2023

Jafna þarf stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla

Skoðun Viðskiptaráðs á stuðningi við einkarekna fjölmiðla (mál nr. 543)
10. jan 2023

Já, það þarf að segja þetta. Oft.

Svanhildur Hólm skrifar um úttekt Viðskiptaráðs á umsvifum hins opinbera í ...
2. des 2021