Umsögn um valkosti og greiningu á vindorku

Sækja skjal

Umsögn Viðskiptaráðs um valkosti og greiningu á vindorku - skýrslu starfshóps, mál nr. 84/2023.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar skýrslu starfshóps um valkosti og greiningu á vindorku. Ráðið telur tímabært að dregin séu fram helstu álitaefni og valkosti vindorku á Íslandi og fagnar því áfanganiðurstöðu hópsins. Að því sögðu vill Viðskiptaráð koma nokkrum athugasemdum og sjónarmiðum ráðsins á framfæri hvað varðar framtíð vindorku á Íslandi.

Fjölbreyttari orkuöflun stuðlar að auknu orkuöryggi

Á Norðurlöndunum er raforkuvinnsla sjálfbærra orkugjafa fjölbreyttari en á Íslandi. Hingað til höfum við stólað á fallvatnsorku og jarðhita til raforkuframleiðslu. Tímabært er að við lítum til fjölbreyttari kosta, svo sem vindorku. Rannsóknir sýna að aðstæður til nýtingar vindorku eru hagstæðar á Íslandi og fellur orkuöflun vindmylla vel að notkun vatnsafls. Þannig getur fjölbreytni í orkuöflun stuðlað að auknu orkuöryggi og aukið líkurnar á því að við stöndum við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum.

Vindorka hefur hlutfallslega lágan ytri kostnað á samfélag og umhverfi

Kostnaður orkuvinnslukosta getur verið mismunandi með tilliti til áhrifa á umhverfi og samfélag. Kostir vindorku einskorðast ekki við lágan meðalkostnað á MWst heldur ber hún einnig lágan samfélags- og umhverfiskostnað, hvort sem um ræðir á láði eða legi. Ástæðan fyrir því er sú að vindorka hefur þá sérstöðu að umhverfisáhrif eru að mestu afturkræf og bundin við framkvæmdartíma.

Ýmis tækifæri eru til að einfalda regluverk fyrir vindorku, sem myndi að óbreyttu stuðla að aukinni samkeppni í framleiðslu á raforku, en sem stendur skortir fullnægjandi lagaumgjörð svo vindorkukostir fái eðlilegan framgang. Viðskiptaráð tekur því undir sjónarmið í skýrslunni um að regluverk vindorku þurfi að vera skýrt og dregið sé með öllu úr þeirri óvissu sem um orkukostinn ríkir.

Óskilvirkt regluverk rýrir samkeppnisstöðu endurnýjanlegra orkugjafa

Eitt af álitamálum skýrslunnar er hvort vindorku sé betur borgið innan eða utan rammaáætlunar. Í ljósi þess vill Viðskiptaráð koma nokkrum atriðum á framfæri er varða rammaáætlun, leyfisveitingaferli og vindorku.

Frá því 1. áfangi rammaáætlunar hófst upp úr aldamótum hafa ríflega 170 hugmyndir komið inn á borð verkefnisstjórnar áætlunarinnar. Í 3. áfanga rammaáætlunar fengu níu kostir afgreiðslu sem höfðu verið til umfjöllunar í rammaáætlun í 23 ár. Á þeim tímapunkti á enn eftir að vinna mat á umhverfisáhrifum, sem getur hæglega tekið um 2-4 ár, og loks reisa virkjunina. Hér er um að ræða ferli sem getur hæglega tekið um 5 – 9 ár samtals. Þá er einnig vert að taka fram að samkvæmt lögum skal endurskoða rammaáætlun á fjögurra ára fresti en það hefur ekki tekist.

Einföldun og samþætting í leyfisveitingaferlinu nauðsynleg

Leyfisveitingaferli vindorku er tímafrekt og tekur um 8 – 13 ár að fá slíkt leyfi hérlendis. Gengi allt hnökralaust fyrir sig má áætla að ferlið gæti tekið 6 ár en það hefur ekki verið raunin hingað til. Víðast hvar í Evrópu er staðan betri en þrátt fyrir það ætla margar Evrópuþjóðir að ganga enn lengra. Undir formerkjum RePower Europe hefur leiðtogaráð ESB lagt áherslu á að flýta leyfisveitingaferlum sjálfbærrar orkuframleiðslu og vilja að leyfisveitingaferli taki ekki lengri tíma en eitt ár og ekki lengra en tvö ár þegar um er að ræða verkefni á sjó. [1]

Tafir í rammaáætlun og leyfisveitingaferli rýra samkeppnishæfni endurnýjanlegrar orku en fjölmörg tækifæri eru til að ná aukinni skilvirkni án þess að bitni á kröfum um gæði, né rétti almennings og hagsmunaaðila til samráðs. Sameining afgreiðslu leyfisveitinga frá upphafi til endis í einn samfelldan úrvinnsluferil myndi auk þess lágmarka margföldunaráhrif kæruferla og gagnaskila. Þá hafa lögbundnir frestir verið virtir að vettugi og afgreiðsla mála farið langt umfram tímamörk. Því væri eitt einfalt skref til úrbóta að einfaldlega virða sett tímamörk.

Að ofanverðu virtu dregur úr skilvirkni að vindorka falli undir fyrirkomulag rammaáætlunar en nærtækara er að sveitarfélögum verði veitt ákvörðunarvald um val á staðsetningu vindorkukosta í samræmi við gildandi skipulagslög. Lög um náttúruvernd og önnur löggjöf sem tryggja á sértæka vernd svæða gefur skýrar leiðbeiningar um hvar uppbygging kæmi til greina.

Aukin aðkoma einkaaðila hefur margvíslegan ábata

Á Íslandi er eignarhald hins opinbera í orkuframleiðslufyrirtækjum meira en gengur og gerist hjá nágrannalöndum okkar, sem skekkir ekki aðeins samkeppnisstöðu á markaðnum, heldur hamlar aðgengi nýrra aðila inn á markaðinn. Þriðju orkuskiptin eru framundan og því brýnt að kraftar einkaframtaksins séu virkjaðir til þátttöku. Ávinningurinn er margvíslegur en þannig má m.a. ná fram aukinni fjölbreytni í fyrirkomulagi framkvæmda, áhættudreifingu og skilvirkni.

Þá þurfum við einnig að fylgjast grannt með þróun og framgangi nýrrar tækni og orkuvinnslukosta. Í því samhengi þarf að tryggja að umhverfi erlendrar fjárfestingar og þekkingarinnar sem henni fylgir sé hagfellt til að tryggja samkeppnishæfni orkuframleiðslu á Íslandi. Þá er vert að minnast á að hömlur á erlenda fjárfestingu í orkuframleiðslu eru þær mestu á Íslandi á öllum Norðurlöndunum.

[1] Í undantekningartilfellum má lengja frestinn um 3 – 6 mánuði.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023