Afnema þarf að fullu einokunarverslun ríkisins á smásölu með áfengi

Einokunarstaða ÁTVR hefur þær afleiðingar að kraftar samkeppni leiða ekki til aukinnar hagkvæmni í rekstri líkt og raunin hefur verið í verslun með aðrar vörutegundir.

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um frumvarp til breytinga á áfengislögum. Ráðið studdi frumvarp til breytingar á áfengislögum er lagt var fram á síðasta ári þar sem lagt var til að íslensk netverslun með áfengi yrði heimiluð, til jafns við erlenda. Viðskiptaráð styður fyrirliggjandi frumvarp en telur það ganga of skammt. Mikilvægt er að ganga lengra í þessum efnum og afnema einokunarverslun ríkisins á smásölu með áfengi. Ráðið leggur áherslu á eftirfarandi:  

-        Viðskiptaráð styður að smásala á áfengu öli sé heimiluð á framleiðslustað

-        Ganga þarf lengra og afnema að fullu einokunarverslun ríkisins á smásölu með áfengi

-        Aðgengi að áfengi má takmarka án þess að samhliða sé dregið úr atvinnufrelsi

Aukið atvinnufrelsi bætir lífskjör

Það hefur ávallt verið mat Viðskiptaráðs og meginstef, að einkaaðilar séu að jafnaði betur til þess fallnir að standa í atvinnurekstri en hið opinbera. Með kröftum samkeppninnar skapast sterkir hvatar til að veita sem besta þjónustu á sem lægstu verði sem eykur hagkvæmni öllum til hagsbóta. Slíkir kraftar eru ekki til staðar við einokun hins opinbera. Reynslan af íslenskum smásölumarkaði sýnir þetta svart á hvítu, en aukið frelsi í verslunarrekstri hefur á undanförnum áratugum stuðlað að verulegum kjarabótum fyrir neytendur hérlendis.

Einokunarstaða ÁTVR hefur þær afleiðingar að kraftar samkeppni leiða ekki til aukinnar hagkvæmni í rekstri líkt og raunin hefur verið í verslun með aðrar vörutegundir. Því er það jákvætt skref að heimila smásölu á áfengu öli á framleiðslustað, en Viðskiptaráð telur þó mikilvægt að gengið sé lengra og einokun ríkisins á rekstri vínbúða verði afnumið.

Af hverju einokun?

Helstu rökin fyrir einokun ríkisvaldsins á smásölu með áfengi byggjast á sjónarmiðum um lýðheilsu, en í þjóðfélagsumræðu og þinglegri meðferð fyrri mála tengdum áfengislögum hefur m.a. verið nefnt að núverandi fyrirkomulag takmarki annars vegar aðgengi ungmenna að áfengi og takmarki hins vegar aðgengi allra einstaklinga að áfengi.

Það verður ekki séð að einokunarverslun ríkisins með áfengi í núverandi mynd takmarki aðgengi að áfengi. Þannig hefur fjöldi áfengisverslana ÁTVR fjórfaldast á 30 árum, verslanirnar eru orðnar 50 talsins og aðgengi að þeim gott um land allt. Þess má geta að verslanir Krónunnar eru 26 og verslanir Bónus 31. Þá heldur ÁTVR úti öflugu kynningarstarfi á metnaðarfullri vefsíðu sinni þar sem vöruúrval og fleira er til kynningar.

Þá er það mat Viðskiptaráðs að hæglega megi ná ofangreindum markmiðum í tengslum við lýðheilsu án þess að draga úr atvinnufrelsi og að ekki sé þörf sé á heilli ríkisstofnun í því skyni. Þannig væri skynsamlegra að í stað einokunar kæmu annars vegar ströng skilyrði fyrir veitingu áfengissöluleyfa og hins vegar ströng viðurlög gegn brotum á umræddum lagaákvæðum. Slíkt fyrirkomulag hefur gefið góða raun þegar kemur að smásölu á tóbaki.

Hið opinbera beitir sértækum sköttum til að hækka verð á áfengi og takmarkar þannig aðgengi að því. Verði einokun ÁTVR afnumin munu þeir skattar enn vera við lýði. Sé það vilji löggjafans að takmarka aðgengi að áfengi enn frekar með hærra vöruverði er hreinlegasta leiðin til þess að hækka neysluskatta í stað þess að handstýra álagningu í gegnum opinberan rekstur. Í öllu falli er eðlilegt að nálgun hins opinbera sé markvissari en svo að mörgum mismunandi aðferðum sé beitt í sértækum afskiptum af fyrirtækjum.

Áfengi er engin venjuleg neysluvara og verður því ekki haldið fram hér. Ekki er þar með sagt að hið opinbera þurfti að standa að sölu þess, en ýmsar vörur sem almennt teljast ekki til venjulegra neysluvara, s.s. lyf, skotvopn og flugeldar hafa um árabil verið á boðstólum hjá einkaaðilum. Fáir eru væntanlega þeirrar skoðunar að ríkið eigi að taka yfir sölu á þessum vörum. Standi vilji til afskipta af hálfu hins opinbera af einhverjum tilteknum viðskiptum er lykilatriðið að traustur rammi sé mótaður um slíka starfsemi með lögum og reglum. Forvarnir og öflug meðferðarúrræði eru umfram allt árangursríkasta leiðin til að draga úr neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu, en ekki takmarkanir á frelsi fullorðinna einstaklinga til neyslu þess.

Neikvæð áhrif einokunar ÁTVR á umferð og umhverfi

Til viðbótar eru allar líkur á að draga megi úr umferð,  bæta þannig loftgæði og draga úr annarri mengun með því að afnema einokun á áfengissölu. Eins og staðan er í dag eru viðskiptavinir oft knúnir til þess að fara akandi í vínbúð þar sem aðeins 13 útsölustaðir eru á öllu höfuðborgarsvæðinu. Væri netverslun með heimsendingu gefin frjáls væri augljóslega dregið úr umferð og þá skapast á jaðrinum sterkari forsenda fyrir bíllausum lífstíl. Með aukinni samkeppni má þá ennfremur ætla að fleiri útsölustaðir væru opnaðir sem aftur þýddi að í mörgum tilfellum þyrfti ekki  að fara um eins langan veg. Þau áhrif væru svo enn sterkari ef áfengissala, a.m.k. á léttvíni, væri leyfileg í matvöruverslunum, þar sem hægt er að samnýta verslunarferðina og ferðast um styttri veg þar sem margfalt fleiri matvöruverslanir eru á höfuðborgarsvæðinu heldur en Vínbúðir. Verði af einhverjum af þessum breytingum myndi þó aðgengi að einhverju leyti aukast samhliða jákvæðum umhverfisáhrifum. Því skal ítrekað að forvarnir og meðferðarúrræði skipta mestu máli til að lágmarka neikvæð áhrif áfengisneyslu.

Frelsi til áfengisauglýsinga ætti að fylgja í kjölfarið

Þá telur Viðskiptaráð mikilvægt að endurskoða tilgang 20. gr. laganna sem bannar hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum. Bann við áfengisauglýsingum hefur verið við lýði frá 1928, en Ísland er eitt fárra Evrópulanda þar sem almennt bann er lagt við áfengisauglýsingum. Með tilkomu samfélagsmiðla og annarra netmiðla hafa auglýsingar á tóbaki og áfengi aukist til muna, og eru þær orðnar mjög útbreiddar á samfélagsmiðlum. Auglýsingabannið hérlendis gerir því lítið annað en að veikja stöðu íslenskra áfengisframleiðenda gagnvart erlendum og úr því þarf að bæta. Augljóslega er umrætt lagaákvæði úrelt og nauðsynlegt að fella það úr gildi svo leikendur á markaði sitji við sama borð.

Áður hafa komið fram hugmyndir um að áfengisauglýsingar verði heimilar að tilteknum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal að samhliða sé upplýst og frætt um skaðleg áhrif áfengis. Slík nálgun getur vel svarað þeim áhyggjum sem uppi eru um áfengisauglýsingar hér á landi. Þannig mætti vel taka mið af þeim skilyrðum sem sett eru í hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB, þar sem tekið er t.a.m. fram að áfengisauglýsingar megi ekki beinast sérstaklega að ólögráða börnum, ekki megi tengja neyslu áfengis við bætta líkamlega hæfni eða aksturog að ekki eigi að skapa þá ímynd að neysla áfengis stuðli að félagslegri velgengni, ásamt fleiri skilyrðum er hafa forvarnargildi.

Við þetta er að bæta að reglulega og ítrekað birtast auglýsingar ÁTVR, stundum í dýrum auglýsingaplássum, þar sem starfsemi ÁTVR er auglýst. Til dæmis hefur stofnunin iðulega séð tilefni til að minna viðskiptavini sína á að hafa skilríki meðferðis þegar þeir komi við í verslun ÁTVR. Þetta byggist á 18. gr. áfengislaga sem er öllum aðgengileg í lagasafni og engin sjáanleg ástæða til að auglýsa sérstaklega, enda alkunna að 20 ára aldurstakmark gildi til að kaupa á áfengi og að viðskiptavinir þurfi að geta sannað að þeir hafi náð áfengiskaupaaldri.

Í ljósi framangreinds telur Viðskiptaráð tímabært að gera breytingar á íslenskri áfengislöggjöf. Ráðið telur að hægt sé að ná heilsuverndarmarkmiðum á skilvirkari og áhrifaríkari hátt án þess að íslensk verslun beri skarðan hlut frá borði.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Frumvarp til breytingar á raforkulögum þarfnast talsverðar endurskoðunar

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. ...
15. mar 2023