Breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri

Viðskiptaráð Íslands hefur sent inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, 392. mál.

Í umsögninni kemur fram að ráðið leggur til að frumvarpið nái fram að ganga og telur breytingarnar sem frumvarpið kveður á um skref í rétta átt. Það er mat ráðsins að margvísleg tækifæri séu til umbóta á lagaumhverfi erlendra fjárfestinga. Má til dæmis nefna að núverandi löggjöf um eignarhald erlendra aðila í sjávarútvegi og orkufyrirtækjum sníður fyrirtækjum mjög þröngan stakk hvað varðar aðkomu erlendra aðila að eignahópi þeirra. Kanna ætti möguleika þess að verja innlenda hagsmuni í ríkari mæli með ramma um nýtingu auðlinda fremur en takmörkunum á eignarhaldi, til að mynda í takt við það sem kemur fram í umsögn Samorku um frumvarp þetta.

Viðskiptaráð telur að í það minnsta megi aflétta banni við erlendu eignarhaldi á félögum sem eingöngu stunda vinnslu sjávarafurða hér á landi. Þannig má auka flæði fjármagns inn í landið og slíkum fjárfestingum kann að fylgja betri tækni eða ný verkþekking sem leiðir til aukinnar framleiðni. Með þessum hætti væri hægt að auka atvinnu- og verðmætasköpun í greininni.

Til viðbótar þessu er það mat Viðskiptaráðs að tímabært sé að endurskoða lög nr. 19/1966 um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Flóknar reglur og endanlegt úrskurðarvald ráðherra hafa fælingaráhrif á fjárfesta og deila má um hvort eðlilegt sé að setja erlendum aðilum utan EES svæðisins svo þröngar skorður um fjárfestingu í fasteignum.

Að lokum gerir Viðskiptaráð athugasemd við heimild ráðherra til að stöðva fjárfestingar í ákveðnum tilfellum, sem kveðið er á um í 12. gr. laganna. Samkvæmt núgildandi lögum þarf ráðherra að bera slíka ákvörðun undir nefnd um erlenda fjárfestingu, en nái frumvarp þetta fram að ganga verður ákvörðunin einungis háð mati ráðherra. Eins og áður sagði er mikilvægt að lagaumhverfi og stjórnsýsluframkvæmd séu skýr og fyrirsjáanleg. Matskennd lagaákvæði draga úr trausti á fjárfestingaumhverfinu.

Nú eru tæp tvö ár liðin frá því að Alþingi ályktaði um stefnu um að efla fjárfestingu hérlendis og auka samkeppnishæfni Íslands þegar kemur að beinni erlendri fjárfestingu. Þrátt fyrir það hafa enn ekki verið gerðar marktækar umbætur á umhverfi fjárfestinga. Í umsögn sinni um þingsályktunartillöguna gerði Viðskiptaráð athugasemd við það hversu tafsamt það ferli sem tillagan gerði ráð fyrir stefndi í að verða.4
Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að gera það að forgangsverkefni að bæta lagaumhverfi fjárfestinga hérlendis og auka samkeppnishæfni Íslands þegar kemur að beinni erlendri fjárfestingu.

Umsögn Viðskiptaráðs má í heild sinni nálgast hér.

Tengt efni

Alvarlegar athugasemdir við frumvarp til laga um breytingar á fjarskiptalögum

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands hvetja til þess ...
21. des 2021

Það er efnahagslífið, kjáninn þinn

Vonandi farnast ríkisstjórn næstu fjögurra ára vel við að treysta undirstöður ...
29. sep 2021