Frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Viðskiptaráð Íslands hefur sent inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, 485. mál. Í umsögninni kemur fram að ráðið leggur til að frumvarpið nái ekki fram að ganga og telur skynsamlegra að ráðstafa opinberum fjármunum með öðrum hætti en til skuldalækkunar, en frumvarpið virðist einkum byggja á sanngirnissjónarmiðum fremur en efnahagslegum.

Viðskiptaráð er einnig ósammála því að áhrif aðgerðanna á ríkissjóð verði óveruleg, en líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið ríkir mikil óvissa um heildaráhrif aðgerðanna í efnahagslegu tilliti og áhættuþættirnir eru fjölmargir. Það er engu að síður mat ráðsins að skynsamlegra væri að ráðstafa opinberum fjármunum með öðrum hætti.

Áætlað er að lækkun íbúðalána nemi um 80 milljörðum króna á fjórum árum, en í fjárlögum ársins 2014 er gert ráð fyrir 20 milljarða króna útgjöldum vegna þessa málefnis. Hér er því um verulegar fjárhæðir að ræða hvort sem horft er til hlutfalls af heildarútgjöldum eða samanburðar við aðra fjárlagaliði.

Til að koma í veg fyrir að umrædd útgjöld skapi halla í rekstri ríkissjóðs hefur verið lagt til að aðgerðirnar verði fjármagnaðar með hækkun sérstaks skatts á skuldir starfandi fjármálafyrirtækja umfram 50 milljarða króna og afnámi undanþágu fjármálastofnana í slitameðferð frá skattinum. Áætlað hefur verið að þessi breyting á umræddum bankaskatti auki árlegar tekjur ríkissjóðs um 23 milljarða króna á ári eða um 92 milljarða króna á 4 árum.

Viðskiptaráð er ósammála því að áhrif aðgerðanna á ríkissjóð verði óveruleg. Afli ríkissjóður um 92 milljarða króna tekna með hækkun umrædds skatts mætti nýta þá fjármuni með öðrum hætti. Skatttekjur eru almennt ekki eyrnamerktar ákveðnum útgjaldaliðum nema í þeim tilfellum sem um er að ræða markaða tekjustofna.

Það er mat Viðskiptaráðs að hagkvæmast væri að nota þá auknu fjármuni sem ríkissjóður kann að afla á
komandi árum til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Með þeim hætti skapast sterkari þjóðhagslegar
forsendur fyrir afnámi hafta, auknum fjárfestingum og bættum vaxtakjörum.

Viðskiptaráð telur þá efnahagslegu óvissu sem um aðgerðina ríkir óheppilega við núverandi kringumstæður. Samkvæmt spá Seðlabanka Íslands munu stýrivextir og verðbólga verða hærri en ella á næstu árum gangi frumvarpið í gegn. Þannig er hætt við því að sú höfuðstólslækkun sem kemur til með að eiga sér stað muni að miklu leyti ganga til baka vegna hærra vaxtastigs og áhrifa aukinnar verðbólgu á verðtryggð húsnæðislán.

Viðskiptaráð Íslands undirstrikar því þá afstöðu sína að hagkvæmara væri að verja umræddum fjármunum
í að greiða niður opinberar skuldir.

Umsögn Viðskiptaráðs má í heild sinni nálgast hér

Tengt efni

Umsögn um drög að þingsályktunartillögu um stefnu í neytendamálum til 2030

Viðskiptaráð Íslands gerir athugasemdir við að þrátt fyrir að eðli máls samkvæmt ...

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Umsögn um rekstraröryggi í greiðslumiðlun

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. ...