Viðskiptaráð fagnar stuðningi við nýsköpunar- og þróunarstarf

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki (mál nr. 569)

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um frumvarp til breytingu á lögum við stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. 

Viðskiptaráð fagnar því að til standi að framlengja bráðabirgðaákvæði um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Þá fagnar ráðið því að vilji standi til þess að styðja við og stuðla að auknu nýsköpunar- og þróunarstarfi í atvinnulífinu, eins og fullyrt er í frumvarpinu. Þetta orkar þó tvímælis þar sem frumvarpið felur í sér lækkun á frádráttarhlutfalli og hámarki kostnaðar við útreikning á skattafrádrætti nýsköpunarfyrirtækja frá því sem nú er. 

Í þessu samhengi er rétt að láta þess getið að þann 17. maí sl., við opnun Nýsköpunarvikunnar, kynnti ráðherra áherslur ríkisstjórnarinnar í nýju háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Í ræðu og kynningarefni ráðherrans kom fram að nýsköpun og hugvit ættu að verða sérstök stoð í atvinnulífi Íslendinga. Í þá veru stæði m.a. til að efla stuðningskerfi nýsköpunar. 

Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar kemur ítrekað fram að auka þurfi stuðning við nýsköpun og rannsóknir. Um þetta segir sérstaklega í kafla um efnahag- og ríkisfjármál: 

„Ýtt verður undir vaxtargetu hagkerfisins með öflugum stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun í því skyni að festa nýja stoð efnahagslífsins enn betur í sessi.“

Viðskiptaráð telur það ekki samrýmast yfirlýstri stefnu stjórnvalda að draga úr stuðningi við nýsköpun og þróun með lækkun frádráttarhlutfalls og lækkuðu hámarki kostnaðar, eins og boðað er með frumvarpinu. Ráðið fagnar þó fyrirhugaðri framlengingu á téðum bráðabirgðaákvæðum. 

Viðskiptaráð telur jafnframt tilefni til að benda á að nýsköpunar- og þróunarstarf er gjarnan margra ára ferli. Ráðið hvetur stjórnvöld til þess að viðhalda og halda áfram að byggja upp stöðugt og öflugt hvatakerfi. Nýsköpunarfyrirtæki þurfa að geta treyst á stuðning og byggt langtímaáætlanir sínar í takt við slíkt kerfi. Með því má koma í veg fyrir aukna óvissu á sviði þar sem hún er næg fyrir. 

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið verði samþykkt, þó þannig að frádráttarhlutfall og hámark kostnaðar við útreikning á skattafrádrætti haldist óbreytt frá því sem gildandi bráðabirgðaákvæði gera ráð fyrir.

 

Tengt efni

Rafrænar skuldaviðurkenningar verði ekki einskorðaðar við neytendur

Umsögn Viðskiptaráðs við frumvarp til laga um rafrænar skuldaviðurkenningar (mál ...
10. maí 2023

Viðskiptaráð styður hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks

Umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, ...
8. maí 2023

Nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi kauprétta

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (mál nr. 432)
6. des 2022