Umsögn Viðskiptaráðs um sameiningu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, mál nr. 103/2023.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar áform um sameiningu tíu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Ráðið fagnar tillögum um sameiningu stofnana og hvetur ráðið stjórnvöld til að ráðast í frekari sameiningar með það að markmiði að bæta þjónustu og auka hagkvæmni í rekstri stofnanakerfis hérlendis.
Örríki eins og Ísland ber hlutfallslega meiri kostnað af því að halda uppi stofnanakerfi en fjölmennari ríki og því er nær hvergi meiri þörf á að horfa til hagræðingarmöguleika en hér. Í þessu samhengi er mikilvægt að skilja á milli umræðu um hagkvæmni annars vegar og umfang þjónustu hins vegar enda eru ýmsar ríkisstofnanir gríðarlega mikilvægir hlekkir í samfélaginu. Þó verður að hafa í huga að fórnarkostnaður þess að reka smáar stofnanir er fólginn í auknum kostnaði skattgreiðenda.
Með sameiningum smærri stofnana og stofnun stærri rekstrareininga má vinna gegn þessum áhrifum, en ávinningur sameininga kom skýrt fram í úttekt Samráðsvettvangs um aukna hagsæld á íslenska stofnanaumhverfinu. Gögn um íslenskar stofnanir sýndu að mun lægra hlutfall útgjalda rynni til stoðþjónustu í stærri stofnunum. Þannig nýttust fjármunir í meiri mæli til að sinna þeim kjarnaverkefnum sem stofnunum væru falin. Ýmis rök mæla með því að ríkisstofnanir séu sameinaðar, en þó er misjafnt eftir starfsemi stofnana hvaða fyrirkomulag er best í þessu samhengi. Alþjóðleg þróun og nýlegar breytingar á fyrirkomulagi eftirlitsstofnana í hinum ýmsu ríkjum í Evrópu benda til þess að eitt og sama stjórnvaldið geti farið með marga málaflokka. Þróunin í mögum ríkjum í Evrópu er í átt til sameiningar verkefna með fækkun og stækkun stofnana. Kostir fjölþættra stofnana fyrir minni ríki eru fleiri en gallarnir. Þannig eiga minni ríki erfitt með að standa undir fleiri og smærri stofnunum.[1] Því smærri sem stofnanirnar eru því hærra hlutfall fjármagns þeirra fer í stjórnun og stoðþjónustu í stað kjarnastarfsemi. Þá hafa smærri stofnanir síður bolmagn til að takast á við flókin og fjölþætt verkefni sem krefjast djúprar sérfræðiþekkingar.
Þrátt fyrir að einhverjar sameiningar stofnana hafi átt sér stað á síðustu árum hefur stjórnmálunum heilt á litið gengið erfiðlega að fækka stofnunum. Í dag er svo fyrir komið að hjá ríkinu eru stofnanir ríflega 160 talsins. Þá eru ótaldar nokkur hundruð rekstrareiningar til viðbótar á sveitarstjórnarstiginu. Stofnanaumhverfið hérlendis er því fjarri því að uppfylla kröfur um hagkvæman og skilvirkan opinberan rekstur.
Viðskiptaráð fagnar því öllum tillögum sem snúa að því að bæta úr þessari stöðu og auka hagkvæmni í rekstri stofnanakerfis á Íslandi. Ráðið hvetur stjórnvöld til þess að halda áfram á þessari braut og skoða frekari tækifæri til hagræðingar, en líkt og fjallað er um í áformunum lagði svonefndur hagræðingarhópur fram 111 tillögur árið 2013 er skyldu auka framleiðni og skilvirkni í ríkisrekstri. Ríkisendurskoðandi lagði áherslu á að stjónvöld fylgdu eftir og tækju afstöðu til þessara tillagna í skýrslu sinni „Stofnanir ríkisins. Fjöldi stærð og stærðarhagkvæmni“ í desember 2021. Viðskiptaráð telur mikilvægt að þessu sé fylgt eftir á fleiri málefnasviðum, sér í lagi í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er, þar sem nauðsynlegt er að aðhald ríkisfjármálanna sé talsvert meira en raun ber vitni.
[1] Frederic Jenny, „The institutional design of Competition Authorities: Debates and Trends“.