Viðskiptastefna Íslands

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna tillögu til þingsályktunar um mótun viðskiptastefnu Íslands. Með þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi feli ráðherra að móta viðskiptastefnu sem hafi að markmiði að jafna samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart erlendri og lækka vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur. Viðskiptaráð telur að endurskoða þurfi tolla hérlendis til að bæta fyrirkomulag neysluskatta enn frekar.

Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Viðskiptaráð hefur bent á að alþjóðaviðskipti og samkeppni aukist eftir því sem hagkerfi eru opnari. Háir tollar og vörugjöld einangra hins vegar hagkerfi og rýra lífskjör. Á Íslandi eru tollar tæplega þrefalt hærri en í nágrannalöndunum. Auk þess eru neyslustýringaráhrif þeirra tvöföld vegna mikils misræmis í skattlagningu eftir vöruflokkum. Slík neyslustýring skekkir verðmyndun, mismunar atvinnugreinum og veldur misjafnri skattbyrði einstaklinga. Tollar eru því bæði hærri og skaðlegri hérlendis en tíðkast í nágrannaríkjunum.
  • Landbúnaðarvörur njóta mestrar tollverndar og eru tollar á slíkar vörur um þrefalt hærri en í nágrannalöndunum. Að auki eru í gildi víðtækar innflutningstakmarkanir sem ásamt tollvernd leiða til þess að matvælaverð er hærra á Íslandi en á Norðurlöndunum þrátt fyrir að laun hérlendis séu lægri. Til að lækka matvöruverð er engin ein aðgerð jafn árangursrík og að draga úr þeirri innflutningsvernd sem innlend búvöruframleiðsla nýtur. Það má gera með því að afnema innflutningstakmarkanir og lækka tolla til muna eða afnema þá að fullu.
  • Því hefur verið haldið fram að íslensk framleiðsla verði undir í samkeppninni verði innflutningstollar lækkaðir. Tollvernd hérlendis er hins vegar svo umfangsmikil að veruleg lækkun tolla á margar vörutegundir myndi ekki gera úti um samkeppnishæfni innlendra framleiðenda, sem auk tollverndar njóta umfangsmikils stuðnings í formi niðurgreiðslna. Því er svigrúm til að draga úr tollvernd án þess að innlendir framleiðendur verði ósamkeppnishæfir við þá erlendu.
  • Að mati Viðskiptaráðs er einhliða lækkun innflutningstolla hagkvæmari leið en gagnkvæm lækkun tolla í gegnum fríverslunarsamninga. Einhliða lækkun gerir almenningi samstundis kleift að njóta ávinnings af auknum alþjóðaviðskiptum í formi lægra vöruverðs og aukins vöruúrvals. Þá er það mat ráðsins að slík aðgerð skaði ekki samningsstöðu Íslands við gerð fríverslunarsamninga síðar meir.

Viðskiptaráð tekur undir markmið þingsályktunartillögunnar og telur mikilvægt að fyrirkomulag neysluskatta hérlendis sé endurskoðað.

Umsögnina má í heild sinni nálgast hér (PDF)

Tengt efni

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Ný greining frá Viðskiptaráði á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi ...
5. júl 2023

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Greining á kostnaði fyrirtækja vegna innleiðingar á sjálfbærniregluverki ...