Viðskiptaráð Íslands

Liðkar fyrir viðskiptum með hluti í nýsköpunarfyrirtækjum

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Að mati ráðsins er um að ræða framfaramál sem stuðlar að aukinni nýsköpun og liðkar fyrir viðskiptum með hluti í nýsköpunarfyrirtækjum. Viðskiptaráð hefur lengi látið sig nýsköpunarmál varða enda gegnir frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi lykilhlutverki, hvort tveggja við viðsnúning í þeirri efnahagslægð sem nú ríkir og til lengri tíma. Hagfelld skilyrði eru nýsköpunarstarfsemi mikilvæg og að mati Viðskiptaráðs felur frumvarpið í sér breytingar sem eru almennt til þess fallnar að bæta umhverfi nýsköpunar hér á landi.

Breytingar samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er varða skattlagningu á kauprétti hlutabréfa og stjórnarmenn í nýsköpunarfyrirtækjum eru skynsamlegar að mati ráðsins sem og sú tilhögun skv. b-lið 2. gr. frumvarpsins, að hagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar vegna skipta á hlutabréfum teljist ekki til skattskyldra fjármagnstekna fyrr en hlutabréfin sem fengin voru í skiptum eru seld. Hið sama er að segja um þær breytingar sem lagðar eru til með a-lið 2. gr. frumvarpsins, þ.e. að hagnaður lögaðila sem eiganda breytanlegra skuldabréfa, sem breytt er í hlutafé á lægra verði, frestist um tvenn áramót í stað þess að hann sé skattlagður við nýtingu breytiréttar.

Viðskiptaráð hvetur til þess að frumvarpið nái fram að ganga.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024