Ný útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti tekur gildi á morgun

Ný útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja tekur gildi á morgun, 1. júlí.

Þónokkrar breytingar eru gerðar á leiðbeiningunum í 6. útgáfu, þótt uppsetning og meginskilaboð þeirra séu með sama hætti og í fyrri útgáfu. Meðal annars var umfjöllun í leiðbeiningunum um tilgang og inntak þeirra dýpkuð auk þess sem að breytingar voru gerðar á einstökum ákvæðum í samræmi við stefnur og strauma erlendis og hér á Íslandi. Þá var víðtækt samráð haft við hagaðila um þær breytingar sem gerðar voru og ýmsar gagnlegar athugasemdir úr samráðinu urðu kveikja að jákvæðum breytingum á leiðbeiningunum í 6. útgáfu.

Leiðbeiningarnar voru fyrst gefnar út árið 2004 og hafa leiðbeiningarnar verið endurskoðaðar með reglubundnum hætti frá þeim tíma, en síðast voru þær endurnýjaðar árið 2015. Leiðbeiningunum er ætlað að nýtast sem verkfæri stjórnar og stjórnenda til að mæta þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir, en það er skoðun útgefenda að með því að fylgja góðum stjórnarháttum megi styrkja innviði fyrirtækja og efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu. Hvort tveggja skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Smelltu hér til að heimsækja uppfærða vefsíðu leiðbeininganna

Upplýsingar varðandi leiðbeiningarnar og prentuð eintök veitir Agla Eir Vilhjálmsdóttir, verkefnisstjóri 6. útgáfu leiðbeininganna í tölvupósti á agla@vi.is