Styrkjum fjárlagagerðina: Heildarmat á fjárþörf

Nú liggur fyrir fjárlagafrumvarp ársins 2011. Flestir ættu að geta sammælst um mikilvægi úrbóta á ferli og framkvæmd fjárlaga, en talsverðir annmarkar hafa verið á því í ár líkt og undanfarin ár. Málefnaleg skoðanaskipti um brýn þjóðfélagsmál sem þetta þurfa að eiga sér stað til að dýpka umræðuna og auka líkur á að ákvarðanir séu teknar á upplýstum og faglegum grunni. Ljóst er að ýta þarf undir bætta áætlanagerð og opnari umræðu, sem stuðlar að upplýstari ákvarðanatöku og auka myndi fyrirsjáanleika í aðgerðum stjórnvalda.

Sjálfvirk hækkun útgjalda
Meginregla fjárlagagerðarinnar hefur verið að horfa til fjárlaga síðasta árs og gera síðan tillögu um hækkun í samræmi við verðlagsbreytingar frá fyrra ári. Ítrekaðar framúrkeyrslur tiltekinna ráðuneyta og stofnana sem og ónýttar fjárheimildir annarra benda til þess að þetta verklag endurspegli ekki heildarfjárþörf stofnana og ríkis ár hvert.

Almennt, en sér í lagi við núverandi efnahagsþrengingar, er þörf á rýni á þetta fyrirkomulag. Vandinn er fólginn í því að fjárlagafrumvörp taka einungis mið af fjárlögum síðasta árs að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Fjárlögin ættu mun frekar að byggja á upplýsingum um raunverulega fjárhagsstöðu eða fjárhagsþörf stofnanna og verkefna. Að öðrum kosti verður óvinnandi vegur að taka heildstætt á ríkisrekstrinum og skekkjur fjárlaga munu því alltaf leita inn í fjárlög nýs árs, eins og reynslan hefur sýnt.

Núllgrunns fjárlagagerð
Til að sporna við því að útgjöld þenjist út með þessum hætti ættu stjórnvöld að leggja í heildstæða úttekt á öllum liðum fjárlaga, þar sem raunveruleg fjárþörf ráðuneyta og stofnana yrði metin frá grunni, svokölluð núllgrunns fjárlagagerð. Í raun býr slík endurskoðun til ákveðinn núll punkt sem miðað er við í framhaldinu. Af því leiðir að stofnanir þurfa að réttlæta aukin útgjöld út frá þessum núllpunkti og grunni. Þessi aðferð hjálpar við að koma í veg fyrir að einstakir liðir hækki óeðlilega mikið og draga úr sjálfvirku hækkunarferli sem innbyggt er í núverandi fyrirkomulag, þar sem hækkanir fyrri ára eru ekki teknar sem gefnar við gerð næstu fjárlaga.

Tæklum þykkustu fitulögin
Með þessu móti væri einnig hægt að komast hjá flötum niðurskurði á einstaka ráðuneyti, stofnanir eða verkefni. Frekar væri horft á raunverulega fjárþörf viðkomandi byggt á þeim verkefnum sem hver aðili hefur á sínum snærum. Núllgrunns fjárlagagerð er ágæt leið til að tækla þykkustu fitulögin í stað þess að niðurskurður bitni á verkefnum og stofnunum þar sem fitulögin eru þynnri.

Hagkvæmari nýting opinberra fjármuna
Núll grunns fjárlagagerð mun nýtast við að útdeila fjármunum hins opinbera með sem skynsömustum og hagkvæmustum hætti. Viðskiptaráð telur rétt að hið opinbera tileinki sér þessa aðferðafræði enda allra hagur að ríkisútgjöldum sé varið í þá málaflokka þar sem þeirra er mest þörf. Til að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi er tímabært að nefnd á vegum hins opinbera í samstarfi við óháða sérfræðinga taki út alla fjárlagaliði og meti frá grunni raunverulega fjárþörf ráðuneyta og stofnanna. Ljóst er að vinna við slíka úttekt mun taka umtalsverðan tíma og því nauðsynlegt að hefja þá vinnu strax fyrir fjárlög ársins 2012.

Framkvæmt reglulega
Að lokinni úttekt ætti að setja hverri stofnun ströng aðhaldsmarkmið og forstöðumönnum stofnanna og fulltrúum ráðuneyta skýrt afmarkaðan tímafrest til að hrinda þeim í framkvæmd. Þar sem stjórnsýslan og verkefni hennar breytast í takt við öra þróun samfélagsins væri rétt að framkvæma úttekt af þessu tagi á nokkurra ára fresti. Ofangreind aðferð setur stjórnendum stofnanna og ráðherrum mun meiri skorður á fjárútlát og krefur þá um að rökstuðning á útgjöldum sínum frá þeim grunni sem var myndaður.

Fyrri umfjöllun Viðskiptaráðs
Viðskiptaráð gaf nýverið út skoðun um ríkisfjármálin þar sem kynntar eru hugmyndir að bættum vinnubrögðum við fjárlagagerðina. Þá hefur ráðið hefur einnig gefið út skýrslur um fjármál hins opinbera síðustu misseri, Fjármál hins opinbera - aðrar leiðir færar sem kom út í desember í fyrra og Útþensla hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur frá því í júní 2008.

Tengdar fréttir:

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Umsögn breytingar á lögum um endurskoðun og ársreikninga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA og SFF um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022