Flýta þarf afnámi hafta

Síðastliðinn föstudag var kynnt skýrsla Seðlabanka Íslands fyrir efnahags- og viðskiptaráðherra um áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Áætlunin sem slík er jákvæð enda til þess fallin að draga úr óvissu og auka trúverðugleika hagkerfisins. Þó er lengd þess tíma sem áætlað er að framlengja höftin gagnrýniverð, enda verður ekki séð að rúmlega fjögur ár þurfi til að afnema höft sem upphaflega voru hugsuð sem skammtímaráðstöfun. Tæplega 7 ára haftatímabil, líkt og stefnir í, getur auk þess ekki talist ásættanlegt fyrir framvindu efnahagsbatans. Flýta þarf afnámi hafta til muna til að hindra að skaðsemi þeirra verði ekki meiri fyrir innlend fyrirtæki en nú þegar er orðin.

Höftin:

  • hafa almennt fælandi áhrif enda ótrúverðug í sjálfu sér eins og aðrar tegundir hafta í opnum markaðshagkerfum
  • hvetja innlend fyrirtæki með alþjóðlega starfsemi til að auka uppbyggingu utan Íslands
  • draga úr fjármögnunarmöguleikum og auka fjármögnunarkostnað fyrirtækja
  • skekkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja í leitun eftir hæfu erlendu vinnuafli
  • koma í veg fyrir fjármagnsflutninga innan samstæðna í tilviki fjölþjóðlegra fyrirtækja
  • eru brot á skuldbindingum okkar skv. EES-samningnum þar sem þau hefta frjálst flæði fjármagns milli Íslands og annarra EES landa
  • fela í sér mismunun á milli fyrirtækja af ólíkri stærðargráðu, enda aðeins tilteknum fyrirtækjum mögulegt að fá undanþágu frá höftunum
  • hvetja til undanbragða líkt og höft gera almennt og kalla því á umtalsverðan kostnað í eftirliti opinberra aðila
  • bjaga samkeppnishæfni ýmissa greina sem lifa aðeins í lokuðu hagkerfi með veika krónu

Umtalsverð áhrif á atvinnuuppbyggingu
Fjölþjóðleg fyrirtæki þrífast almennt illa í umhverfi hafta. Eðli sínu samkvæmt er um að ræða fyrirtæki með starfssemi víða um lönd og afar óæskilegt og kostnaðarsamt að geta ekki fært til fjármagn innan þeirra sökum hafta hér á landi. Gjaldeyrishöft munu því ætíð hafa afar slæm áhrif á atvinnuuppbygginu fjölþjóðlegra fyrirtækja. Hætt er við því að slík fyrirtæki leiti í opnari hagkerfi, eða það sem verra er, verði stofnuð utan landsteinanna. Ekki má horfa fram hjá þeim verðmætum sem verða til annars staðar sökum þeirra neikvæðu áhrifa sem höftin hafa.

Viðskiptaráð sem og forsvarsmenn fjölþjóðlegra fyrirtækja hér á landi hafa bent á að höftin hvetji hreinlega til erlendrar uppbyggingar. Í reglum um gjaldeyrismál segir m.a. að fyrirtæki sem hafa yfir 80% af tekjum og 80% af gjöldum sínum erlendis geta fengið undanþágu frá reglunum. Af þeim sökum er skýr hvati fyrir fyrirtæki, sem uppfylla t.d. einungis skilyrði um að tekjur þeirra séu meira en 80% erlendis, að auka vægi erlends reksturs á kostnað innlends. Þ.e. að kostnaður viðkomandi fyrirtækis færist í auknum mæli út fyrir landsteinanna þar til hlutfallið er umfram 80%.

Nú þegar hafa komið upp dæmi um fyrirtæki þar sem umfang erlends rekstrar er að aukast og er viðkomandi fyrirtæki óðum að nálgast þau skilyrði sem sett eru af Seðlabankanum. Það er afar óheppilegt og óæskilegt í endurreisn hagkerfis að gjaldeyrishöftin stuðli að því að uppbygging metnaðarfullra fyrirtækja sé á erlendri grundu þegar full þörf er á slíkri uppbyggingu hérlendis.

Hægt er að fá undanþágu frá gjaldeyrishöftunum við ákveðnar aðstæður. Hinsvegar er það ferli langt og óskýrt auk þess sem oft og tíðum virðist gæta misræmis í úrskurðum. Dæmi eru um að meðferð mála hafi tekið um eitt ár hjá Seðlabankanum, sem verður að teljast óásættanlegt. Þetta kom meðal annars fram í erindi á Skattadegi Deloitte sem haldinn var í samstarfi við Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptablað Morgunblaðsins.

Afleiðingar koma fram með skýrari hætti
Gjaldeyrishöftin hafa að auki almennt skaðleg áhrif á uppbyggingu atvinnulífs. Þau eru táknræn hindrun sem þarf að klífa sem er á stundum of erfitt fyrir áhættufælnari fjárfesta. Vegna þeirra hafa fyrirtæki því aðeins aðgang að áhættusæknari fjárfestum sem krefjast hærri ávöxtunar á sitt fé. Slíkir hvatar eru óæskilegir nú um stundir þegar liggur fyrir að leggjast þarf í viðamikla uppbyggingu til lengri tíma.

Skynsamleg atvinnuuppbygging er langtímaverkefni og forðast ber allar skammtímalausnir. Mikil fjárfesting í atvinnugreinum sem þrífast einvörðungu í lokuðu hagkerfi með veika krónu er t.a.m. óheppileg fyrir framtíðarvöxt hagkerfisins. Höftin hafa nú þegar haft neikvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og bata hagkerfisins. Róa þarf öllum árum að því að afnema höftin sem allra fyrst til að draga úr skaðsemi þeirra til lengri tíma.

Tengt efni úr fjölmiðlum:

Tengt efni á vef Viðskiptaráðs:

Tengt efni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023

Kröfur sem hindra samkeppni á leigubifreiðamarkaði

Umsögn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um drög að reglugerð um ...
22. mar 2023

Gríðarleg útgjaldaaukning aðeins gengið að hluta til baka

Umsögn Viðskiptaráðs um fjármálaáætlun 2024 - 2028
19. apr 2023