Hljóðlát starfsemi sem hefur mörg tækifæri til vaxtar

2011.05.12 vþ skýrsla forsíðaÞessi grein er ein margra greina í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Tökumst á við tækifærin - atvinnulíf til athafna og pdf útgáfu skýrslunnar má nálgast á þessari slóð.


2011.05.16 Þór SigfússonTæplega 70 fyrirtæki eru starfandi á Íslandi sem framleiða og flytja út undir eigin vörumerkjum búnað fyrir greinar sem tengjast hafinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í heildstæðri úttekt sem unnið er að um umfang sjávarklasans á Íslandi. Aldrei áður hefur verið gerð jafn viðamikil úttekt á starfsemi tengdri íslenska sjávarklasanum. Haft hefur verið samband við nær öll tæknifyrirtæki í sjávarklasanum og upplýsingum safnað um veltu, útflutning, starfsmannafjölda og fleira. Það hefur farið lítið fyrir þessari fjölbreyttu flóru tæknifyrirtækja, sem eru staðsett víða um land, en tölur benda til þess að hér sé á ferðinni víðtækari starfsemi en áður var talið sem hægt og hljótt vex þrátt fyrir að mörgu leyti erfið skilyrði.

25 milljarða velta
Samkvæmt þeim tölum sem liggja fyrir er velta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum um 25 milljarðar króna og þar af er útflutningur um tæplega helmingur þessarar upphæðar. Þessi fyrirtæki starfa að gerð veiðafæra, hönnun og framleiðslu fiskvinnsluvéla, fjarskiptabúnaðar, skynjaratækni, umbúða, upplýsingatækni og kælingu svo eitthvað sé nefnt. Starfsmenn í þessum fyrirtækjum, sem vinna í verkefnum tengdum sjávarklasanum, eru um 1.000 talsins. Unnið er að upplýsingaöflun um önnur tæknifyrirtæki í sjávarklasanum sem þjóna erlendum skipum, flytja út margháttaða þjónustu eða stunda þriðjalandsviðskipti og fyrstu vísbendingar eru um að þar sé mun viðameiri starfsemi hérlendis en áður var talið.

Stærri fyrirtæki opna ný tækifæri
Meðfylgjandi myndir sýna fjölda fyrirtækja í tæknigeiranum í sjávarklasanum árið 1990 annars vegar og 2010 hins vegar. Athyglisvert er að nokkur fjölgun er í fyrirtækjum með 10-30 starfsmenn.  Tæknifyrirtæki í sjávarklasanum hafa lengst af verið annað hvort mjög smá, með 2-5 starfsmenn, eða mjög stór á íslenskan mælikvarða. Í því sambandi má nefna Héðinn sem var með á fimmta hundruð starfsmanna á fimmta áratug síðustu aldar. Þarna er þó að verða nokkur breyting þar sem fleiri meðalstór fyrirtæki, á íslenskan mælikvarða, hafa orðið til á þessu sviði á undanförnum áratug. Þarna kunna að liggja tækifæri sem vert er að gefa gaum.

Tækifæri og hindranir
Margir stjórnendur fyrirtækja í sjávarklasanum nefna sérstaklega að ímynd Íslands í öllu er við kemur hafinu sé mjög sterk og þeir nýti sér það fyrirtækjum sínum til framdráttar. Að sögn stjórnenda tæknifyrirtækjanna áttuðu þeir sig betur á því þegar útflutningur hófst að kröfuharður heimamarkaður reyndist þeirra besti heimanmundur þar sem íslenski tæknibúnaðurinn var vel samkeppnishæfur erlendis. Í viðræðum við stjórnendur tæknifyrirtækjanna kom fram að þeir sjá fyrir sér að vöxtur fyrirtækja þeirra geti numið að meðaltali um 8-10% á ári ef aðstæður, ekki síst hérlendis, eru hagfelldar þeirra starfsemi. Núverandi óvissa um kvótakerfið og framtíðarskipan í sjávarútvegi hefur dregið umtalsvert úr spurn eftir tæknibúnaði fyrir sjávarklasann hérlendis og því hefur útflutningur fyrirtækjanna aukist hlutfallslega meira. En það er ekki aðeins óvissa um framtíðarskipan í sjávarútvegi sem hefur sett strik í reikninginn. Stjórnendur tæknifyrirtækjanna benda einnig á að neikvæð umræða um sjávarútveg og kannski þekkingarleysi varðandi þau tækifæri sem felast í sjávarklasanum hafi haft neikvæð áhrif á fyrirtækin og dregið úr áhuga ungs fólks á að stofna nýsköpunarfyrirtæki á þessu sviði.

Fáir nýgræðingar í sjávarklasanum á síðustu árum
Í þessu samhengi má nefna að af þeim tæplega 70 fyrirtækjum sem bjóða tæknibúnað í tengslum við sjávarklasann er bróðurpartur þeirra stofnuð á síðustu tuttugu árum. Athygli vekur að á árunum 2008-2010 var einungis eitt tæknifyrirtæki stofnað samkvæmt þeim gögnum sem aflað hefur verið. Þetta var á þeim tíma þegar gríðarleg fjölgun varð í stofnun nýsköpunarfyrirtækja hérlendis. Stöðnun í fjölgun nýgræðinga í sjávarklasanum er alvarleg vísbending um að eitthvað sé að og vekja þurfi upp áhuga á þeim tækifærum sem felast í greininni.

Krossgötur
Tæknifyrirtæki í íslenska sjávarklasanum standa á krossgötum. Þessi fyrirtæki hafa ekki verið fyrirferðamikil í umræðu um nýsköpun og tækifæri til vaxtar. En fyrirtækin stækka og útflutningur eykst. Með stöðugleika í umhverfi sjávarútvegs, auknum skilningi og áhuga á þeim tækifærum sem í sjávarklasanum felast og samstarfi milli fyrirtækjanna geta þau lagt grunn að bættum lífskjörum og skapað hundruð vel launaðra starfa á þessum áratug.

Þór Sigfússon, hagfræðingur

Tengt efni

Hvert er mikilvægi vísisjóða í þjóðhagslegu samhengi?

Vísisjóðir leikið lykilhlutverk í að skapa nýjar útflutningsgreinar, sérstaklega ...
17. des 2021

Frekari fjárauka þörf

Þær aðgerðir sem kynntar hafa verið vegna COVID-19 lofa góðu og styður ...
24. mar 2020