90% af hagkerfinu í lagi? Frekar 10%

Færri störf, minni fjárfesting og minni verðmæti í langflestum atvinnugreinum

Kastljósviðtal við Gylfa Zoëga, hagfræðiprófessor og nefndarmann í peningastefnunefnd Seðlabankans, fyrir páska vakti nokkra athygli. Þar sagði Gylfi að „stóra myndin er sú að 90 prósent af hagkerfinu eru í lagi“ og að aðeins væri kreppa í ferðaþjónustu sem í eðlilegu árferði leggur til um 10% af landsframleiðslu. Ummælin vöktu skiljanlega mikla athygli og á síðustu dögum hafa þingmenn vísað í þessa greiningu Gylfa. Verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ vitnaði í Gylfa og sagði að það væri „kreppa í 10% af hagkerfinu en annars staðar er bara góðæri“. Minna hefur farið fyrir því á hvað gögnum þessar ályktanir byggja. Enda vill svo til að séu gögn greind er í besta falli frjálslegt og í versta falli alvarlega villandi að einfalda stöðu hagkerfisins þannig að svo virðist sem allt sé hér í himnalagi, fyrir utan ferðaþjónustu.

Færri störf, minni fjárfesting og minni verðmæti í langflestum atvinnugreinum*

Í fyrsta lagi fækkaði störfum í 22 af 25 atvinnugreinum (88%) milli ára við lok síðasta árs sem þýðir að störfum fækkaði almennt um 8% á tímabilinu eða 16 þúsund. Aðeins hefur verið fjölgun hjá hinu opinbera, í veitustarfsemi sem er að nær öllu leyti í eigu hins opinbera og í námugreftri og vinnslu hráefna úr jörðu sem er smávægileg grein hér á landi með 160 störfum.

Í öðru lagi dróst atvinnuvegafjárfesting saman í 40 af 46 atvinnugreinum (87%, breiðari flokkun en að framan) á síðasta ári. Heilt yfir þýddi það 9% samdrátt atvinnuvegafjárfestingar milli ára og frá 2017 nemur samdrátturinn 28%. Ekki fæst séð að þetta geti verið staðan þar sem 90% af hagkerfi er í lagi, hvað þá í góðæri.

Í þriðja lagi minnkaði verðmætasköpun í yfirgnæfandi fjölda atvinnugreina árið 2020, eða 45 af 58 (78%, enn breiðari flokkun en að framan). Sé tekið tillit til stærðar atvinnugreina má segja að 73% hagkerfisins hafi upplifað samdrátt. Ef við horfum eingöngu á viðskiptahagkerfið og drögum frá  greinar hins opinbera eins og heilbrigðisþjónustu, opinbera stjórnsýslu og fræðslustarfsemi var samdráttur í 91% af hagkerfinu.

Hlutföllin eru öfug – 10% af hagkerfinu er í góðæri, ekki 90%

Það sem er rétt er að stærstur hluti landsmanna finnur lítið fyrir kreppunni í daglegu lífi. Það helgast af því að ríkið hefur ráðist í stórtækar aðgerðir sem hafa sérstaklega nýst heimilum og laun þeirra sem hafa vinnu hafa hækkað myndarlega, um 10% milli ára í janúar. Það er líka rétt að taka fram að þó samdráttur sé í flestum greinum var hann 6% eða minni í um helmingi tilfella. Með framangreindar tölur í huga er þó ekki að sjá að 90% af hagkerfinu sé í lagi heldur að meirihluti hagkerfisins hafi átt magurra ár heldur en 2019, sem þó var nokkuð þungt í skugga falls WOW air. Út frá því er nærtækara er að segja að 10% af hagkerfinu sé í lagi, sérstaklega ef hið opinbera er sett út fyrir sviga.

Ekki einungis ferðaþjónusta sem ná þarf vopnum sínum

Orð Gylfa voru sett fram í samhengi landamæraopnunar og ferðaþjónustu sem er í raun önnur umræða. Skiljanlegt er að á því séu skiptar skoðanir og það er rétt að landsmenn allir eiga mikið undir því að halda veirunni og samkomutakmörkunum í lágmarki. Aftur á móti eiga landsmenn mismikið undir endurreisn ferðaþjónustunnar. Það breytir samt ekki því að þrátt fyrir að kreppan lendi verst á ferðaþjónustu og tengdum greinum eru hlutföll Gylfa fjarri því að lýsa stöðunni. Ef við horfumst ekki í augu við þann veruleika og allar þessar atvinnugreinar ná ekki vopnum sínum á ný er óumflýjanlegt að kreppan muni bitna illa á okkur öllum en ekki sumum.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist fyrst á Vísir.is 8.apríl 2021

*Öll gögn fengin frá Hagstofu Íslands. Störf byggja á skráargögnum, atvinnuvegafjárfesting er fengin úr þjóðhagsreikningum og verðmætasköpun úr framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga. Með verðmætasköpun er nánar tiltekið átt við vinnsluvirði sem er lagt til grundvallar mati á framlagi atvinnugreina til landsframleiðslu

Tengt efni

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023