Ekki aðeins ferðaþjónustukreppa

Kórónuveirukreppan sem nú dynur á hagkerfinu er ólík fyrri niðursveiflum. Þannig eru áhrifin á ferðaþjónustu og sumar aðrar þjónustugreinar sérstaklega slæm á meðan viss starfsemi dafnar vel. Aftur á móti virðist oft gleymast að neikvæðu áhrifin eru mun víðtækari og að niðursveiflan í öðrum atvinnugreinum er talsverð og í mörgum tilfellum alvarleg.

Fjölgun starfa í einni atvinnugrein – fækkun í 18

Augljósasta dæmið um hve víðtæk kreppan er sést í tölum um fjölda starfandi (mynd 1). Fyrir utan hið opinbera (stjórnsýslu, heilbrigðisþjónustu og fræðslustarfsemi) hefur aðeins orðið fjölgun starfa í einni atvinnugrein á meðan starfsfólki hefur fækkað í átján greinum. Aðeins hefur orðið fjölgun í veitustarfsemi sem gæti flokkast með hinu opinbera þar sem reksturinn er nær alfarið á höndum ríkis og sveitarfélaga. Eins og búast má við var samdrátturinn mestur í ferðaþjónustugreinum (12.440 störf) en á hinn bóginn hafa 9.457 störf glatast í öðrum greinum, að hinu opinbera undanskildu.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að áhrif kreppunnar eru miklu víðar en í ferðaþjónustu og þar sem veiran og sóttvarnaraðgerðir hafa sérstaklega mikil áhrif. Má nefna minni eftirspurn eftir ýmsum útflutningi, t.d. áli og kísil, lakari væntingar, og minni fjárfestingu vegna óvissu um framvinduna. Einnig skiptir máli að margar atvinnugreinar þjónusta ferðaþjónustugreinar og þá var neysla erlendra ferðamanna í öðrum greinum en einkennandi greinum ferðaþjónustu metin á 61 milljarð króna árið 2019 eða um 2% af landsframleiðslu.

Meira líkt með fjármálakreppunni en virðist í fyrstu

Þrátt fyrir gjörólíkar orsakir og birtingarmyndir voru áhrif fjármálakreppunnar og kórónuveirukreppunnar á hagkerfið fyrst um sinn líkari en ef til vill virðist. Í fyrsta lagi var fjöldi atvinnugreina sem upplifa samdrátt ekki svo frábrugðinn – 40 nú en 48 þá (mynd 2). Í öðru lagi var samdráttur atvinnugreina í báðum kreppum oft meiri en 20%. Engu að síður upplifa að einhverju leyti ólíkar atvinnugreinar nú samdrátt, en bæði þá og nú bitnar kreppan illa á meirihluta atvinnugreina.

Vegna sérstakra áhrifa á ferðaþjónustu í yfirstandandi kreppu og á fjármálastarfsemi í fjármálakreppunni er áhugavert að skoða heildaráhrifin í öðrum atvinnugreinum fyrstu sex mánuðina eftir áfall. Árstíðaleiðréttar veltutölur, án ferða- og fjármálaþjónustu, benda til þess að óverulegur munur sé á heildarsamdrætti þá og nú en hann var um 8% að raunvirði í báðum tilfellum.

Laun hafa nánast alls staðar hækkað meira en tekjur

Viðskiptaráð hefur nýlega fjallað um að kreppan og veglegir kjarasamningar leiði til þess að launakostnaður vaxi langt umfram verðmætasköpun. Þetta virðist ekki einungis eiga við ferðaþjónustu, þótt áhrifin séu mest áberandi þar, heldur þvert á atvinnugreinar (mynd 3). Í nær öllum tilfellum hafa laun vaxið meira en tekjur og í flestum tilfellum er munurinn meiri en 10%. Eina undantekningin er veitustarfsemi sem var eina atvinnugreinin sem hafði fjölgað starfsfólki í september sl. Tölurnar sem liggja til grundvallar eru fyrir júlí og ágúst þegar veiran var mun minna útbreidd og sóttvarnaaðgerðir voru mun vægari. Síðan þá hefur staðan þróast til hins verra og laun hækkað m.v. launavísitölu. Því vanmeta gögnin muninn milli launa og veltu í dag.

Aukin byrði launakostnaðar eykur á atvinnuleysi

Þessi þróun er áhyggjuefni því aukin kostnaðarbyrði, hvort sem um er að ræða laun eða annað, dregur úr krafti fyrirtækja til að spyrna við fótum þegar bóluefni nær loks útbreiðslu. Þannig verður minna svigrúm til að ráða nýtt fólk, sem sannarlega er þörf á á tímum Íslandsmets í atvinnuleysi, og fjárfesta til framtíðar.

Í september sl. hækkuðu meðallaun um 7,4% frá fyrra ári. Þar sem fjöldi starfandi dróst saman um 8,2% á sama tíma liggur í augum uppi að við óbreyttan launakostnað fyrirtækja hefði verið unnt að ráða og halda fleirum en ella. Með öðrum orðum: Fyrir þá upphæð sem fór í launahækkanir hefði verið hægt að ráða og halda nærri 15 þúsund manns í vinnu. Það myndi þýða að atvinnuleysi væri hverfandi og byrðunum af kreppunni dreift jafnar.

Skiptir máli fyrir hagstjórnarviðbrögð

Þegar horft er á framangreint blasir við að myndin er mun flóknari en oft er dregin upp og er þá ótalið hversu innbyrðis ólík fyrirtæki eru innan framangreindra atvinnugreinaflokka. Það þýðir að sértæk hagstjórnarviðbrögð, sem geta í sumum tilvikum verið skynsamleg, duga skammt ein og sér. Ef lágmarka á neikvæð áhrif og tryggja að atvinnulífið nái viðspyrnu á komandi misserum þurfa aðgerðir og úrræði að virka þvert á atvinnugreinar. Án þess er hætt við að kreppan reynist langvinnari og alvarlegri í þeim meirihluta atvinnugreina sem finna vel áhrif veirunnar.

Tengt efni

Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ...
23. okt 2023

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023

Starfsfólk hins opinbera nýtur enn meiri verndar en á almenna markaðnum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og ...
2. nóv 2022