Launakostnaður á Íslandi og skaðsemi atvinnuleysis

Eitt mikilvægasta verkefnið næstu mánuði er að sporna gegn atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum. Einn stærsti áhrifaþátturinn á getu fyrirtækja til að hafa fólk í vinnu er launakostnaður og hefur Viðskiptaráð því tekið saman sex atriði til að varpa ljósi á stöðuna sem upp er komin.

Óvissa og þröng staða í kjaramálum bætir olíu á eld COVID-19 kreppunnar. Eitt mikilvægasta verkefnið næstu mánuði er að sporna gegn atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum. Bæði þannig fyrirtæki geti haldið núverandi starfsfólki í vinnu og ekki síður svo þau hafi tök á að ráða nýtt starfsfólk nú þegar atvinnuleysi hefur sjaldan mælst hærra. Einn stærsti áhrifaþátturinn á getu fyrirtækja til að hafa fólk í vinnu er launakostnaður og hefur Viðskiptaráð því tekið saman sex atriði til að varpa ljósi á stöðuna sem upp er komin.

  1. Áhrif atvinnuleysis
  2. 309 milljarða króna gat í hagkerfinu
  3. Hálaunalandið Ísland
  4. Hlutur launa í verðmætasköpuninni
  5. Drefing launa á almennum vinnumarkaði
  6. Aldrei meiri kaupmáttarvöxtur

1.    Fjölþætt og neikvæð áhrif atvinnuleysis á líf fólks

Öllum er ljóst hver áhrif atvinnuleysis eru á tekjur og fjárhag heimila. Á hinn bóginn gleymast oft þau fjölmörgu ófjárhagslegu áhrif á t.d. líkamlega og andlega heilsu sem atvinnuleysi hefur í för með sér. Þannig mælist atvinnuleysi áhrifamikill þáttur í aukningu skilnaða,[1] glæpa,[2] þunglyndis,[3] kvíða,[4] og sjálfsvíga.[5] Upptalningin stoppar þó ekki þar því atvinnuleysi dregur einnig úr lífsgæðum,[6] sjálfstrausti,[8] félagshæfni,[8] og lífslíkum.[7]  Í fjölda rannsókna hefur sérstaklega verið fjallað um slíkan kostnað,[8] en hann er talinn geta verið allt að þrefalt meiri en beinn fjárhagslegur kostnaður vegna atvinnuleysis.[9] Rannsóknir styðja því skýrt við þá ályktun að það sé til afar mikils að vinna að forðast atvinnuleysi.

2. Efnahagslegar forsendur kjarasamninga brostnar – 309 milljarða króna gat

Eitthvað lætur undan þegar launaþróun er ekki í takt við almenna hagþróun. Væri þetta ekki staðreynd væri mögulegt að hækka laun allra Íslendinga um margar milljónir króna á mánuði án nokkurra vandkvæða á borð við aukið atvinnuleysi og verðbólgu.

Lífskjarasamningurinn í apríl 2019, auk þeirra samninga sem á eftir hafa komið, byggja á forsendum um samfellt hagvaxtarskeið sem átti að standa undir ríkulegum launahækkunum. Enginn sá kórónuveiruna fyrir en ljóst er að þær forsendur munu ekki standast. Horfur eru á því að við lok lífskjarasamningsins verði landsframleiðsla 9% lægri en það sem laun lífskjarasamningsins byggðu á (mynd 1). Þýðir það að verðmætin sem eru til skiptanna til að greiða fyrir þessar launahækkanir verða 309 millljörðum króna minni en gert var ráð fyrir. Fyrirtækjum hefur því verið sniðinn afar þröngur stakkur til að standa undir launahækkunum.

3. Hálaunalandið Ísland lifir enn

Í aðdraganda síðustu kjarasamninga benti Viðskiptaráð á að Ísland væri hálaunaland. Það er út af fyrir sig eftirsóknarvert að geta lifað við hátt launastig en engu að síður verða að vera efnahagslegar forsendur fyrir frekari launahækkunum. Í umræðunni virðist gleymast að þrátt fyrir veikingu krónunnar síðustu misseri er Ísland enn hálaunaland ef horft er á launakostnað á vinnustund meðal OECD ríkja. Árið 2019 var Ísland í 4. sæti og þótt erfitt sé að fullyrða um hvar Ísland lendir í ár verða áfram greidd hér ein hæstu laun í heimi á hverja vinnustund (mynd 2).

4. Hvergi er hlutur launþega í verðmætasköpuninni meiri

Í alþjóðlegum samanburði fengu launþegar hvergi stærri hlut af verðmætasköpun hagkerfisins en hér á landi árið 2019. Gefur það til kynna að svigrúm til launahækkana hafi þegar verið nýtt til hins ýtrasta. Vegna samdráttar í hagkerfinu og verulegum raunlaunahækkunum eru í ofanálag líkur á að þetta hlutfall skeri sig enn meira úr því sem gengur og gerist annars staðar (mynd 4). Ljóst er því að nú, þegar minna er til skiptanna, muni umræddar launahækkanir verða mörgum fyrirtækjum of þung byrði sem eykur líkur á uppsögnum og gjaldþrotum.

5. Laun og tekjur dreifast hvað jafnast á Íslandi og jöfnuður fer vaxandi

Í almennri umræðu um kjaramál er gagnlegt að horfa til dreifingar launa. Í því samhengi má í fyrsta lagi nefna að jöfnuður tekna á Íslandi er á alla mælikvarða með því mesta sem gerist meðal OECD ríkja. Í öðru lagi sýnir samanburður á tekjutíundum að jöfnuður ráðstöfunartekna hefur haldist nær óbreyttur í áratug og þar af minnkað á árunum 2017-2019. Í þriðja lagi má nefna að 90% fullvinnandi félagsmanna ASÍ á almennum vinnumarkaði er með regluleg heildarlaun yfir 409.000 krónur á mánuði og minna en helming munar á launum eftir skatt við 10% tíundamörk (mörk lægstu 10% og 20%) og 90% tíundamörk (mynd 4). Meginþorri launþega er í millitekjuhópum en sá hópur fær almenna launahækkun næstu áramót. Það dugar því ekki að fjalla einungis um áhrif hækkunar lægstu launa þar sem almenna hækkunin mun ráða mestu um launakostnað fyrirtækja.

6. Aldrei meiri kaupmáttarvöxtur en sl. fimm ár

Kaupmáttur eykst eingöngu ef laun hækka umfram verðlag. Þannig fæst ekkert með launahækkunum ef allt sem þú borgar fyrir verður dýrara. Síðastliðin fimm ár hefur kaupmáttur launa aldrei vaxið jafn mikið (mynd 5). Veiking krónunnar hefur nú breytt þeim takti og hefur verðbólga færst upp á við á síðustu mánuðum. Vitað er að fyrirtæki voru byrjuð að finna fyrir auknum launakostnaði áður en kórónuveiran kom að landi. Ef almennar launahækkanir bætast ofan á veika krónu á sama tíma og tekjur dragast saman er einungis tímaspursmál hvenær slík þróun skilar sér í hærra verðlagi. Þannig myndu launahækkanir næstu áramóta ekki hafa tilætluð áhrif og þá tapa allir, fyrirtæki og launþegar í landinu.

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

At­vinnu­rekstur er allra hagur

„Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að til séu þeir sem bæði geta stofnað ...
23. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023