Er bensín raunverulega dýrara en nokkru sinni fyrr?

Jafnvel þótt verð hafi ekki verið hærra í krónum talið hafa engin raunveruleg Íslandsmet fallið.

Síðustu daga hafa borist fréttir af því að bensínverð sé í hæstu hæðum og hafi aldrei verið hærra í krónum talið. En hvers vegna er þetta sérstaklega tekið fram? Tölum við ekki almennt um verð í krónum? Gæti verið að þessi framsetning lýsi illa raunveruleikanum?

Króna í dag hefur ekki sama gildi og króna fyrir ári eða tíu árum. Ástæðan er verðlagsþróun, en eins og flestir kannast við þá lækkar fátt í krónum talið með tímanum. Þrátt fyrir það er hugsanlegt að ákveðin vara eða þjónusta sé raunverulega ódýrari fyrir neytandann en áður.

Sem dæmi má segja að verð á mjólkurlítranum eða verð á banönum hafi aldrei verið hærra í krónum talið, en nauðsynlegt er að skoða slíkar stærðir með tilliti til verðbólgu. Lítri af nýmjólk kostar um 175 kr. í Bónus í dag en kostaði um 82 kr. árið 2005. Þá virðist sem mjólkursopinn hafi aldrei verið dýrari en þegar verðið hefur verið leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum má sjá að lítrinn kostaði um 178 kr. árið 2005 á verðlagi dagsins í dag. Að raunvirði hefur mjólkurverð því lækkað lítillega.

Bensínverð var hærra fyrir um áratug síðan

Bensínverð hefur hækkað snarpt á síðustu mánuðum samhliða miklum hækkunum á mörkuðum. Fyrirtækjum og heimilum hefur reynst erfitt að skipta yfir í aðra orkugjafa með skömmum fyrirvara og því leggjast verðhækkanir af fullum þunga á þau sem þurfa á olíu og bensíni að halda. Þrátt fyrir þessar snörpu hækkanir þá hefur bensín raunverulega verið dýrara en nú, ólíkt því sem umræðan gefur til kynna. Árið 2012 var verð á bensínlítra nefnilega 75 kr. hærra að raunvirði en nú.

Verð á Brent olíutunnu var 96 Bandaríkjadalir þann 11. febrúar síðastliðinn og hefur ekki verið hærra að nafnvirði síðan í september 2014 en rétt er að taka fram að hér er ekki tekið tillit til gengisáhrifa og verðlagsþróunar og því ekki um raunverð að ræða. Hækkun olíuverðs að undanförnu skýrist af minni olíuframleiðslu vegna framleiðslutruflana í Bandaríkjunum, hnökrum í afléttingu framleiðslutakmarkana í OPEC-ríkjunum og á sama tíma hefur eftirspurn eftir olíu aukist með vaxandi efnahagsumsvifum. Þar að auki hafa vaxandi áhyggjur af innrás Rússa í Úkraínu einnig sett þrýsting á olíuverð á heimsmarkaði. Þá eru vísbendingar um að eftirspurn muni einungis aukast á næstunni og því ólíklegt að lækkun verðs sé í kortunum í náinni framtíð. 

Ráðstöfunartekjur hafa vaxið umfram nafnverðshækkanir á bensíni

Gagnlegt er að bera verðlagsþróun bensínverðs saman við kaupmátt launa og þannig kanna hvort bensínverð hafi hækkað umfram kaupmátt launa að undanförnu. Sé það skoðað má sjá að heimilin geta betur tekist á við hækkandi bensínverð þar sem ráðstöfunartekjur hafa hækkað umfram hækkanir á olíuverði síðustu ár. Til einföldunar má því segja að ef einstaklingur með meðalráðstöfunartekjur hefði varið þeim öllum í bensín fengi hann nú um 4.400 lítrar af bensíni fyrir, samanborið við 2.500 lítra árið 2012.

Sparneytnari bílar en áður

Þá hefur endurnýjun í bílaflotanum orðið til þess að með árunum hefur meðaleyðsla bensínbíla í lítrum dregist saman. Þannig hefur meðaleyðsla minnkað um rúmlega þrjá lítra á hverja hundrað kílómetra á árunum 2010-2021. Minni meðaleyðsla bíla í eigu heimilanna og raunlækkun bensínverðs síðustu tíu ár hefur því orðið til þess að núvirtur bensínkostnaður neytanda á hverja 100 kílómetra hefur, að meðaltali, dregist allverulega saman.

Hlutur olíufélaga í bensínverði hefur fallið um nærri þriðjung

Margir kunna að velta fyrir sér hver sé hlutur olíufélaganna í bensínverði eftir þær hækkanir sem hafa orðið síðustu mánuði. Nýverið birti Kjarninn gögn um hlutdeild þeirra en upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaga eru ekki opinberar. Hluturinn er því reiknaður sem afgangsstærð þegar búið er að draga hlutdeild ríkis og líklegt innkaupaverð frá reiknuðu viðmiðunarverði.

Hlutur olíufélaganna í hverjum seldum lítra nam um 43 krónur um miðjan febrúarmánuð og hefur lækkað um 28% að raunvirði frá desember 2021.

Einnig ber að nefna að hlutdeild olíufélaganna í hverjum seldum lítra er nú lægri að raunvirði en að meðaltali síðasta áratug. Það er því deginum ljósara að hækkun bensínverðs er ekki tilkomin vegna olíufélaganna. Á hinn bóginn hefur líklegt innkaupaverð hækkað að undanförnu og myndar nú um þriðjung af bensínverði samanborið við fimmtung við upphaf faraldursins. Það er því öllu líklegra að utanaðkomandi þættir ráði för í hækkandi bensínverði.

Verðhækkanir á eldsneyti eru ekki góð tíðindi, frekar en aðrar verðhækkanir. Eldsneyti er innflutt vara og að öðru óbreyttu þurfum við því að greiða meiri gjaldeyri fyrir það, sem hefur áhrif á vöruskiptajöfnuð, eykur kostnað í atvinnurekstri, léttir pyngju heimilanna og hækkar vísitölu neysluverðs sem síðar getur svo leitt til hækkunar stýrivaxta. Hvað sem öðru líður er þó mikilvægt að hafa í huga þá staðreynd að jafnvel þótt verð hafi ekki verið hærra í krónum talið hafa engin raunveruleg Íslandsmet fallið í þessum efnum að undanförnu.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023