Hvert fer álið og hvaðan koma ávextirnir?

Greining á viðskiptum okkar við helstu viðskiptalönd – augljósar vísbendingar um tækifæri

Viðskiptaráð hefur unnið greiningu um milliríkjaviðskipti samstarfslanda millilandaráða Viðskiptaráðs. Tilefnið var fundur Viðskiptaráðs, millilandaráðanna og utanríkisráðuneytisins sem sendur var út í beinni útsendingu í morgun. Greiningin er á ensku, enda á hún erindi við fleiri en þá sem tala íslensku.

Iðulega er mikið fjallað um hversu mikið Íslendingar flytja út af hinum ýmsu vörum og þjónustu og um þróun innflutnings. Flestir þekkja til dæmis það að ál, sjávarútvegur og ferðaþjónusta hafa síðustu ár verið áberandi stærstu útflutningsgreinarnar. Það hefur hins vegar farið minna fyrir umfjöllun og greiningu á því við hvaða ríki við eigum hin ýmsu viðskipti við – hvert fer til dæmis allt þetta ál? Greiningin leiðir þannig í ljós hinar ýmsu upplýsingar um hin gríðarlega mikilvægu utanríkisviðskipti Íslands, sem finna má hjá Hagstofunni en sjaldan er fjallað um.

Niðurstaðan er sú að hægt er að nýta gögnin betur og að skýrar vísbendingar séu um tækifæri til aukinna viðskipta við önnur ríki, t.d. er vöruútflutningur við Svíþjóð fremur lítill og þar virðast því augljóslega vera tækifæri til staðar. Til viðbótar má nefna vísbendingar um tækifæri á Grænlandi og á Ítalíu – og raunar í flestum ríkjum. Einnig er hægt að bæta gögnin sjálf. Annars vegar er vægi Hollands í ýmsum vöruviðskiptum grunsamlega hátt auk þess sem flokkun á þjónustuviðskiptum veitir oft og tíðum litla raunverulega innsýn  í hvað sé raun og veru á ferðinni.

Skoða greiningu

Í greiningunni kemur meðal annars eftirfarandi fram:

  • Löndin sem millilandaráð Viðskiptaráðs vinna að gagnkvæmum tengslum við standa undir 63% af viðskiptum Íslands við útlönd. Útflutningur nam 44% af landsframleiðslu árið 2019 og er nauðsynlegur fyrir almenna hagsæld.
  • Mesti afgangur af utanríkisviðskiptum er við Spán, 86 milljarðar króna í fyrra. Það skýrist helst af því að 40% af útfluttu áli fer til Spánar. Á móti kemur er 12% af innfluttum ávöxtum og grænmeti frá Spáni.
  • Mesti viðskiptahalli vöru og þjónustu við Noreg, 45 milljarðar króna í fyrra. 66% af innflutningi jarðolíu kemur frá Noregi og leiðir til þess að mikill halli á viðskiptum við Noregi endurspeglar ágætlega alþjóðlega verðþróun olíu.
  • Við eigum í miklum vöruviðskiptum við Holland en í fyrra rötuðu 20% af útfluttum vörum þangað og um 8% af innfluttum vörum komu þaðan. 42% af útfluttu áli fer til Hollands, mest allra landa, og 16% af innfluttu grænmeti og ávöxtum kemur frá Hollandi, hæsta hlutfall allra landa. Flest bendir til þess að vægi Hollands sé ofmetið vegna mikilvægis Rotterdam í skipaflutningum.
  • Vöruviðskipti við Bretland hafa á föstu gengi aukist lítillega þrátt fyrir Brexit þar sem t.a.m. innflutningur á iðnaðarvörum jókst um 50% frá árinu 2019-2020.
  • 47% af innfluttum sykri kemur frá Danmörku.
  • 14% af innfluttri drykkjarvöru kemur frá Ítalíu, að öllum líkindum er þar vín á ferðinni.
  • Bílar voru 70% af innflutningi frá Japan árið 2020.
  • Útflutningur til Póllands jókst um heil 366% á föstu gengi frá 2015 til 2020.
  • 24% af drykkjarvöru er flutt inn frá Svíþjóð.
  • Meira en helmingur útflutningstekna af rannsóknum og þróun, 19 milljarðar króna, koma frá Bandaríkjunum.
  • Útgjöld Íslendinga til ferðalaga í Rússlandi jukust um 235% (683 m.kr.) árið 2018, nær örugglega vegna HM í fótbolta.

Skoða greiningu

Upptöku frá fundinum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Tengt efni

Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mar 2024

Ný skoðun Viðskiptaráðs: Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mar 2024

At­vinnu­rekstur er allra hagur

„Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að til séu þeir sem bæði geta stofnað ...
23. feb 2024