Ógn við efnahagsbatann?

Erfitt er að átta sig á hvernig má ná niður atvinnuleysi í hálaunalandi án þess að eitthvað bresti í síhækkandi launaumhverfi

Nýlega hefur Viðskiptaráð fjallað um að lítið samhengi sé milli launaþróunar og stöðunnar á vinnumarkaði um þessar mundir. Nýjar og sláandi tölur um fjölda starfa voru birtar í vikunni sem sýna enn meiri fækkun en mánuðina á undan. Nærri 18.000 færri störf voru unnin í október sl. samanborið við árið á undan sem er 8,5% fækkun. Á sama tíma halda laun áfram að hækka eins og hér sé allt í blóma, hvort sem þau eru mæld með launavísitölu eða vísitölu heildarlauna (mynd 1). Óvíst er hvenær og hversu hratt störfum mun fjölga á ný, en þó er víst að laun flestra hækkuðu nú um áramótin skv. kjarasamningum – bæði hjá þeim sem eru á töxtum og öðrum launþegum.

Meginþorri hækkananna hafa verið bundnar við kjarasamninga en þó hefur því verið haldið fram að laun hafi mælst hærri þar sem tekjuhærri hafi haldið vinnunni en þau tekjulægstu í meira mæli orðið atvinnulaus. Þetta á við lítil rök að styðjast, því ef svo væri hefði vísitala heildarlauna hækkað mun meira en launavísitalan. Hækkun á báða mælikvarða er mjög svipuð; launavísitalan hækkaði um 6,4% milli ára á 3F en vísitala heildarlauna um 6,8%. Launhækkanirnar, sem við höfum bent á að lítil innistæða sé fyrir, hafa því dreifst á fleiri tekjuhópa. Erfitt er að átta sig á hvernig má ná niður atvinnuleysi í hálaunalandi án þess að eitthvað bresti í slíku síhækkandi launaumhverfi. Í því samhengi má nefna að fyrirtæki og stofnanir gætu tæknilega séð búið við sama launakostnað og nú og samt farið langt með að útrýma atvinnuleysi ef laun hefðu ekki hækkað síðasta árið.

Aðra vísbendingu um að ekki fáist séð hvernig dæmið gengur upp má finna í alþjóðlegum samanburði eins og Viðskiptaráð hefur ítrekað vísað til. Bent hefur verið á að hvergi í þróuðum ríkjum er hlutur launþega í verðmætasköpuninni meiri. Aðrir mælikvarðar sýna svipaða sögu. Til lengdar og þvert á lönd liggur fyrir að laun eða launakostnaður er í samræmi við framleiðni. Á mynd 2 sést að það samræmi var einna minnst á Íslandi í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir árið 2019. Ekki fæst séð að sú staða hafi mikið breyst árið 2020 þar sem laun hafa hækkað litlu minna en krónan hefur veikst. Hvort þetta spái fyrir um gengisfall krónunnar til að leiðrétta þennan mun skal ósagt látið. Þó er ljóst að ef launakostnaðurinn hækkar mikið meira umfram framleiðni (verðmætin sem sem verða til á vinnustund) þarf eitthvað undan að láta – gengi krónunnar, atvinnuleysi eða hvort tveggja.

Með öfluga innviði og mannauð í ferðaþjónustu sem er tilbúinn að taka á móti ferðamönnum á ný, vaxandi hugverkaiðnað og annan öflugan iðnað og þjónustu blasir við að Ísland hefur öll spil á hendi til að ná hraðri viðspyrnu. Til að það takist þarf að spila vel úr þeim. Eitt af því er að laun ráðist af þróun á vinnumarkaði og séu samhengi við ávinninginn sem þau skila. Annars gengur bókhaldsjafnan ekki upp.

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022