Tillögur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vinna gegn mjólkuriðnaði

Traust á framleiðendum í mjólkuriðnaði er verulega takmarkað í nýju frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Þvert á það sem fram kemur í áðurnefndu frumvarpi ætti stýring á mjólkurframleiðslu að ráðast af markaðslögmálum og einfaldri reglu um framboð og eftirspurn.

Rekstraraðilar afurðastöðva sektaðir
Athugasemdir Viðskiptaráðs snúa að tveimur þáttum frumvarpsins. Með frumvarpinu er annars vegar lagt til sektarákvæði þar sem það varðar rekstraraðila afurðarstöðvar fjársektum að taka við mjólk eða afurðum frá framleiðanda sem ekki hefur greiðslumark og markaðsfæra hana innanlands. Hins vegar er sett þak á nýtingu á mjólk utan greiðslumarks, þar sem bændur eru takmarkaðir við einungis 10.000 lítra til eigin framleiðslu og markaðssetningar. Báðir þessir þættir hafa verulega hamlandi áhrif á starfsemi mjólkurframleiðenda.

Takmarkað samstarf í undirbúningi
Stýring með þeim hætti sem lögin gera ráð fyrir er hvorki bændum né neytendum til hagsbóta, heldur þvert á móti vinnur gegn samkeppnissjónarmiðum, nýsköpun og vöruþróun. Viðskiptaráð hefur skilað til Alþingis umsögn um frumvarpið og telur ráðið fulla ástæðu til að raddir sem flestra heyrist í eins veigamiklu máli og ofangreint frumvarp er.

Við undirbúning frumvarpsins var aðeins kallað eftir samstarfi tveggja hagsmunaaðila, Bændasamtaka Íslands og Samtaka afurðarstöðva í mjólkuriðnaði. Eðlilegt hefði verið að leita sjónarmiða fleiri hagsmunaaðila og teldist það til góðrar stjórnsýslu, líkt og rætt er m.a. um í handbók forsætisráðuneytisins um undirbúning og frágang lagafrumvarpa.

Unnið gegn hagsmunum framleiðenda og neytenda
Frumvarpið takmarkar verulega aðgengi nýrra aðila að markaði eins og bent hefur verið á í umfjöllun síðustu daga og leggur Samkeppniseftirlitið sérstaka áherslu á það í umsögn sinni. Með frumvarpinu er einnig unnið gegn hagsmunum framleiðenda og neytenda enda er veruleg skert það litla samkeppnisumhverfi sem enn lifði.

Heildarendurskoðun nauðsynleg
Eins og Viðskiptaráð hefur ítrekað bent á er breytinga þörf á því landbúnaðarkerfi sem við búum við, og á það síst ekki við um búvörumarkaðinn. Þær breytingar ættu frekar að færa sig í átt að frelsi á markaði og samkeppnissjónarmiðum í stað algerrar stýringar.

Ljóst er að frumvarpið sem um ræðir vinnur gegn flestum þeim sem koma að mjólkuriðnaðinum, hvort sem litið er til framleiðenda, neytenda eða mögulegra nýrra aðila í mjólkurvinnslu. Vænlegra væri að leggja út í vinnu við heildarendurskoðun á landbúnaðarkerfinu sem myndi færa það nær nútímanum.

Tengt efni:

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023