Sækjum í styrkleika Norðurlandanna

Á opnum fundi Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins í gærmorgun um skattamál ræddi fjármálaráðherra um það sem hann sagði ranghugmyndir um umfang ríkisins og samneyslunnar og áhrif þess á efnahagslífið. Minni ríkisumsvif og þar með hagkvæmara skattaumhverfi væri þannig ekki besta meðalið til að hvetja efnahagslífið eða ávísun á meiri hagvöxt, líkt og iðulega væri haldið fram.

Benti ráðherra á Norðurlöndin sem fyrirmynd í þessum efnum og taldi hátt skattaöflunarstig og umfangsmikla samneyslu í þeim löndum ekki hafa haft áhrif á samkeppnishæfni þeirra. Þvert á móti þá væru þau í fremstu röð á því sviði samkeppnishæfni og lífskjara. Þar má vera að ráðherra vísi m.a. til nýlegra úttekta IMD viðskiptaháskólans í Sviss og World Economic Forum á samkeppnishæfni þjóða þar sem Norðurlöndin röðuðu sér vissulega meðal efstu sæta, eins og sjá má hér að neðan.

Tafla 1. Heildarsamkeppnishæfni Norðurlandanna 2010

   IMD*  WEF**
 Noregur    9. sæti  14. sæti 
 Svíþjóð  6. sæti  2. sæti
 Finnland  19. sæti  7. sæti
 Danmörk   13. sæti   9. sæti
 Ísland  30. sæti  31. sæti

* af 58 löndum / ** af 132 löndum

Skattkerfi Norðurlandanna veikja samkeppnishæfni þeirra
Ef rýnt er hins vegar nánar í tölurnar má sjá að skattkerfi Norðurlandanna eiga ekki sinn þátt í öflugri samkeppnishæfni þeirra. Þvert á móti þá má sjá að í fleiri tilvikum en færri teljast ýmsir þættir skattkerfa þeirra til veikleika og draga þannig úr samkeppnishæfni landanna. Þetta má glögglega sjá í töflu 2 og 3 hér að neðan:

Tafla 2. Veikleikar í samkeppnishæfni Norðurlandanna 2010 skv. IMD*/**/***

 Danmörk   Innheimtar skatttekjur (hlutfall af VLF)  58. sæti 
   Virkt skatthlutfall launatekna (hlutfall tekna m.v. VLF pr. einst.)  56. sæti
   Raunskattlagning launatekna (dregur ekki úr vilja fólks t. vinnu)   52. sæti
   Skatthlutfall neysluskatta (hefðbundið hlutfall VSK)  48. sæti 
 Finnland  Innheimtar skatttekjur (hlutfall af VLF)  54. sæti
   Virkt skatthlutfall launatekna (hlutfall tekna m.v. VLF pr. einst.)  50. sæti
   Skatthlutfall neysluskatta (hefðbundið hlutfall VSK)  46. sæti
 Noregur  Virkt skatthlutfall launatekna (hlutfall tekna m.v. VLF pr. einst.)  54. sæti
   Innheimtar skatttekjur (hlutfall af VLF)  51. sæti
   Skatthlutfall neysluskatta (hefðbundið hlutfall VSK)  48. sæti
 Svíþjóð  Innheimtar skatttekjur (hlutfall af VLF)  57. sæti
   Skatthlutfall neysluskatta (hefðbundið hlutfall VSK)  48. sæti
   Virkt skatthlutfall launatekna (hlutfall tekna m.v. VLF pr. einst.)  46. sæti
   Raunskattlagning launatekna (dregur ekki úr vilja fólks t. vinnu)  45. sæti
 Ísland  Virkt skatthlutfall launatekna (hlutfall tekna m.v. VLF pr. einst.)  57. sæti

* Í flokknum skilvirkni hins opinbera / ** Af 5 helstu veikleikum landanna skv. IMD / *** af 58 löndum

Af fimm helstu veikleikum í samkeppnishæfni Norðurlandanna skv. IMD má sjá að skattalegir þættir eru þar áberandi. Ef litið er til fimm helstu styrkleika landanna þá er það hins vegar aðeins á Íslandi þar sem skattleg atriði auka samkeppnishæfni landsins og er þar vísað til hagstæðs hlutfalls fyrirtækjaskatts. Helstu styrkleikar í samkeppnishæfni hinna Norðurlandanna eru þannig á öðrum sviðum en skattamálum.

Tafla 3. Samkeppnishæfni skattkerfa Norðurlandanna skv. WEF*/**

 Danmörk   Umfang og skilvirkni skattlagningar  130. sæti
   Heildarskatthlutfall  27. sæti
 Finnland  Umfang og skilvirkni skattlagningar   114. sæti 
   Heildarskatthlutfall  93. sæti
 Noregur  Umfang og skilvirkni skattlagningar  64. sæti
   Heildarskatthlutfall  72. sæti
 Svíþjóð  Umfang og skilvirkni skattlagningar  110. sæti
   Heildarskatthlutfall  108. sæti
 Ísland  Umfang og skilvirkni skattlagningar  37. sæti
   Heildarskatthlutfall  19. sæti

* Í flokknum markaðsskilvirkni / ** af 132 löndum

Þegar skattaþættir í mælingum WEF eru skoðaðir má sjá að Norðurlöndin eru almennt að raða sér frá miðju litrófsins niður í neðstu sæti, af þeim 132 löndum sem skoðuð eru. Þar er Ísland hins vegar undanskilið, sem er ofarlega í báðum flokkum, og Danmörk að hluta. Við nánari skoðun er því erfitt að taka undir með ráðherra hvað þetta varðar.

Getum lært margt af Norðurlöndunum
Ekki er um það deilt að lífskjör og mannréttindi á Norðurlöndunum eru með því besta sem gerist í heiminum. Það þarf því ekki að undrast og hvað þá amast út í það markmið stjórnvalda að byggja upp umhverfi hérlendis sem stenst slíkan samanburð. Íslendingar geta óneitanlega margt lært af nágrannaríkjum sínum, ekki síst Norðurlöndunum. Þau hafa byggt upp öflugan markaðsbúskap sem byggir á mörgum góðum þáttum. Virk og uppbyggileg samskipti stjórnvalda og atvinnulífs, hófsemi, áhættufælni, langtímaáætlanagerð, góðir stjórnarhættir fyrirtækja, samkvæmni í ákvarðanatöku hins opinbera, gagnsæi og heiðarleiki í stjórnsýslu, stöðugleiki í peningamálum og öflug eftirfylgni regluverks eru allt þættir sem ber að horfa til.

Þegar kemur hins vegar að skattamálum þá geta Norðurlöndin, eins og sjá má í mælingum IMD og WEF, ýmislegt lært af Íslendingum. Norðurlöndin hafa í gegnum tíðina grundvallað skattkerfi sín á stigvaxandi sköttum, miklum tekjutengingum og tiltölulega flóknu bótakerfi. Þetta leiddi til þess að jaðarskattar voru komnir langt umfram það sem eðlilegt gat talist. Það kemur því ekki á óvart að frændur okkar, einkum í Svíþjóð og Danmörku, hafi brugðist við og reynt að einfalda skattkerfi sín undanfarin ár, lækka jaðarskatta og draga úr heildarskattheimtu. Mælingar IMD og WEF sýna að Norðurlöndin þurfa að gera enn betur á því sviði ef duga skal.

Einskorðum okkur ekki við eina fyrirmynd
Norðurlöndin eru samkvæmt þessu ekki álitlegasta fyrirmyndin þegar kemur að skattamálum. Í stað þess að einskorða okkur við þá einu fyrirmynd ættum við að horfa til þeirra ríkja sem standa fremst á hverju sviði. Eins og áður segir þá má margt læra af Norðurlöndunum, en ekki síður af öðrum löndum sem státa af stöðugum og afar góðum lífskjörum, t.a.m. Sviss, Ástralíu, Kanada, ýmis ríki Evrópusambandsins og iðnríki Asíu. Með þeim hætti hámarka stjórnvöld líkur þess að þjóðin nái sér fljótt úr núverandi öldudal og að hér verði lífskjör eins og þau gerast best í heiminum.

Tenglar:

Tengdar greinar:

Tengt efni

Greiðslumiðlun Schrödingers

„Með frumvarpinu er ekki einungis verið að veita Seðlabankanum heimild til að ...
4. mar 2024

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að ...
17. ágú 2022